Niðurstöður verkefnis um flæðihraða mjólkur við mjaltir
16.11.2007
Árið 2005 hófst gagnasöfnun vegna M.Sc. verkefnis Elinar Grethardsdóttur, nema við Landbúnaðarháskóla Íslands,
um flæðihraða mjólkur við mjaltir. Helstu niðurstöður verkefnisins liggja nú fyrir og byggja þær á 3.519 mælingum úr 2.368 kúm.
Vegna umfangs og uppsetningar gagna var ákveðið að nota aðeins gögn frá mjaltabásabæjum en gögnum var einnig safnað frá mjaltaþjónabúum.
Meðalflæðihraði mjólkur við mjaltir á íslenskum kúm er samkvæmt rannsókninni 1,74 kg/mín og hámarksflæðihraðinn er 2,73 kg/mín. Fljótustu kýrnar gefa allt að 7 kg/mín en þær tregustu nokkuð innan við 1 kg/mín.
Erlendar heimildir, sem flestar byggja á rannsóknum á Holstein-Friesian kúm, benda til þess að meðalflæðihraði hjá þeim sé 2,5-2,7 kg/mín og hámarksflæðihraði sé 3,6-4,2 kg/mín. Mesti flæðihraði í erlendum heimildum er 18 kg/mín. Er það á rennsli í þokkalegri garðslöngu.
Útreikningar erfðastuðla sýna að arfgengi þessara eiginleika er hátt og erfðabreytileiki því mikill. Það segir að auðvelt er að taka þennan eiginleika með í ræktunarstarfi og úrval fyrir honum ætti að gefa ágætan árangur, þrátt fyrir fremur smáa afkvæmahópa hér á landi.
Arfgengi er tala á bilinu 0-1 sem segir af hversu miklu leyti eiginleiki stjórnast af erfðum. Ýmsir frjósemiseiginleikar, t.d. hlutfall til endursæðinga eftir tiltekinn tíma, hafa mjög lágt arfgengi, 0,01-0,03 en hvernig gripir eru á litinn og hvort þeir eru hyrndir eða ekki, stjórnast algerlega af erfðum og hafa því arfgengi upp á 1.
Vinna við verkefnið stendur ennþá yfir og vonir standa til að henni ljúki fljótlega á nýju ári. Elin vill koma á framfæri kærum þökkum til þeirra bænda sem lögðu til gögn í verkefnið.