Beint í efni

Niðurstöður tilboðsmarkaðar (apríl) fyrir greiðslumark mjólkur

04.04.2023

Markaður með greiðslumark í mjólk var haldinn þann 3. apríl og birti Matvælaráðuneytið niðurstöður markaðarins rétt í þessu.

Matvælaráðuneytinu bárust 73 gild tilboð um kaup og sölutilboð voru 29. Tilboð voru send með rafrænum hætti í gegnum Afurð  sem er greiðslukerfi landbúnaðarins.

Í gildi er ákvörðun ráðherra um að hámarksverð skuli vera þrefalt afurðastöðvaverð, sem við lok tilboðsfrests var 359 kr. fyrir hvern lítra.   
Við opnun tilboða kom fram jafnvægisverð  sem er jafnt hámarksverði, þ.e. 359 kr./ltr.

Fjöldi gildra tilboða um sölu á greiðslumarki mjólkur voru 29.
Fjöldi gildra tilboða um kaup voru 73.
Fjöldi kauptilboða undir jafnvægisverði/hámarksverði var 24.   
Greiðslumark sem boðið var fram (sölutilboð) voru alls 2.518.863 lítrar
Greiðslumark sem óskað var eftir (kauptilboð) voru 2.521.950 lítrar
Greiðslumark sem viðskipti ná til eftir opnun tilboða (jafnvægismagn) voru 1.656.650 lítrar að andvirði 594.737.350,- kr.
Seljendur með tilboð á jafnvægisverði eða lægra selja 65,8% af framboðnu magni. 
Kaupendur með tilboð á jafnvægisverði eða hærra fá 100% af eftirspurðu magni í sinn hlut.
Sérstök úthlutun til nýliða er 5% af sölutilboðum eða 125.938 lítrar. Fjöldi gildra kauptilboða frá nýliðum voru 9.
Sala greiðslumarks fer nú fram samkvæmt gildum tilboðum. 

Matvælaráðuneytið mun nú senda öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gera breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram. Upplýsingar um greiðslumark sitt geta bændur nálgast í Afurð.

Úr reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 348/2022:
Jafnvægisverð: Það verð sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftirspurt magn eða lægsta verð sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Greiðslumarki sem boðið er til sölu á hærra verði en jafnvægisverði skal vísað frá markaði og á sama hátt kauptilboðum sem eru lægri en jafnvægisverð. Öll viðskipti sem fara fram á viðkomandi markaðsdegi skulu fara fram á því jafnvægisverði sem markaðurinn gefur í það sinn eða hámarksverði.


Er þetta í fyrsta skiptið síðan 2017 þar sem viðskipti ná ekki til alls þess magns greiðslumarks sem er boðið til sölu, en út af standa 862.213 lítrar sem ekki seldust, eða 34,2% af því greiðslumarki sem boðið var til sölu. Þróun á greiðslumarksmörkuðum má sjá á myndinni hér að neðan.
Er þetta einnig í fyrsta skiptið í fjölmörg ár þar sem framboð og eftirspurn er svo til það sama.

Stór hluti bænda virðist vilja greiða lægra verð en hámarksverð fyrir það greiðslumark sem þeir hyggjast kaupa og verður því athyglisvert að fylgjast með þróun næstu markaða, en næsti markaður með greiðslumark verður þann 1. september 2023 og skil þarf inn tilboðum fyrir 10. ágúst 2023.


Vert er að vekja athygli á því að skv. 19. gr. reglugerð nr. 348/2022 hefst nýtt markaðstímabil strax að loknum hverjum markaðsdegi (sem var nú 3. apríl). Þannig hefur í raun verið opnað fyrir innsendingu tilboða fyrir septembermarkaðinn, en vekjum við sérstaka athygli á því að hámarksverð getur breyst fram að þeim tíma, t.d. ef afurðastöðvaverð hækkar.