Beint í efni

Nemendur Vestjysk Gymnasium heimsóttu LK

25.09.2012

Í síðustu viku fékk Landssamband kúabænda nemendur 2.z í danska menntaskólanum Vestjysk Gymnasium í heimsókn. Heimsóknin var hluti af vikulangri vísindaferð nemendanna til Íslands. Markmið ferðarinnar var m.a. að vinna samanburð á losun á gróðurhúsalofttegundum, metani og koldíoxíði, frá nautgripum á Íslandi og í Danmörku, en talsverður munur er á framleiðsluháttum í löndunum tveimur. Verkefni nemendanna er hluti af stærra verkefni sem snýr að möguleikum á minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá danskri mjólkurframleiðslu, sem unnið er af búfjárræktardeild Kaupmannahafnarháskóla, kynbótafræðideild Árósaháskóla og Vestjysk Gymnasium.

 

Nemendurnir heimsóttu einnig Menntaskólann að Laugarvatni og framkvæmdu mælingar á gróðurhúsalofttegundum á búi Páls Pálmasonar að Hjálmsstöðum í Laugardal, skammt frá Laugarvatni.

 

Í heimsókn bekkjarins til LK voru nemendur fræddir um stöðu nautgriparæktarinnar að fornu og nýju, ræktunarsögu kúastofnsins og möguleika á metangasvinnslu úr kúamykju hér á landi. Glærur fyrirlestrarins má sjá hér að neðan. Nemendur og kennarar voru mjög áhugasamir og báru fram fjölda fyrirspurna að fyrirlestri loknum. Nemendum er síðan ætlað að gera grein fyrir ferðinni í landbúnaðarmiðlunum þar í landi fljótlega. Nemendur Menntaskólans að Laugarvatni munu síðan endurgjalda heimsóknina í apríl n.k. þegar þeir sækja hinn danska menntaskóla heim.

 

Á myndinni hér að neðan má sjá nemendur 2.z á Þingvöllum í blíðskaparveðri./BHB

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrirlestur framkvæmdastjóra LK fyrir nemendur VGT (skjalið er 6MB)

 

Frétt á heimasíðu VGT um heimsóknina til Íslands