Beint í efni

Mótmæla tyrkneskum texta á mjólkurfernunum

03.09.2010

Austurríska afurðastöðin NÖM hefur nú blandað sér í afar viðkvæma umræðu um innflytjendamál, eftir að settar voru á markað umbúðir af mjólkurfernum með tyrknesku letri á hliðum fernunnar. Þetta var gert í þeim tilgangi að fá innflytjendur til þess að kaupa meiri mjólk. Tvær hliðar eru á þýsku og hinar tvær á tyrknesku og er markmið NÖM að selja þessar fernur fyrst og fremst í innflytjendaverslunum. Þessi stefna afurðastöðvarinnar er afar umdeild og hefur kallað á bæði fjölda mótmæla en einnig hefur fólk verið

kvatt til þess að sniðganga vörur NÖM.

 

Einn af mótmælendunum, Johann Burgstaller, hefur skorað á afurðastöðina til þess að skoða vel hverjum hún eigi að þakka góða rekstrarniðurstöðu frá liðnum árum, þ.e. austurrísku þjóðinni samkvæmt hans skoðun, segir hann þetta mál vera hneyksli fyrir heimabæ NÖM sem er menningarborgin Baden.

 

Stjórnmálaflokkurinn Bandalag fyrir framtíð Austurríkis, sem hefur mjög harða innflytjendastefnu og er líklega þekktastur fyrir fyrrum leiðtoga sinn Jörg Haider, er afar ósáttur við mjólkurfernumálið. Segja forsvarsmenn flokksins að svona framkoma afurðastöðvarinnar NÖM grafi undan sjálfstæði Austurríkis með því að stilla upp til jafns tveimur menningarheimum. Þá vill flokkurinn meina að þessi staða gæti hvergi annarsstaðar komið upp, þ.e. að þjóðlegar afurðir sem þessar væru markaðssettar í eigin landi með erlendum upplýsingum.

 

Þetta undarlega mál er nú komið alla leið á borð landbúnaðarráðherra landsins, Nikolaus Berlakovich, sem á erfitt með að skilja málið: „þetta er skynsamlegt út frá viðskiptalegum sjónarmiðum og þar með út frá hagsmunum landbúnaðarins, enda selur þessi aðgerð vörur“.

 

Nánari upplýsingar um afurðastöðina má lesa hér á heimasíðu fyrirtækisins: www.noem.at

 

Byggt á frétt Landbrugsavisen