Mjólkurrisinn FrieslandCampina fjárfestir í Belgíu
18.02.2011
Hið alþjóðlega afurðafyrirtæki FrieslandCampina hóf nýverið framkvæmdir við afurðastöð sína í Aalter í Belgíu, en þar hafa til þessa verið framleiddar drykkjarvörur með vörumerkjunum Joyvalle og Campina. Framkvæmdirnar snúa að verulegri stækkun á framleiðslugetu og eftir breytingarnar mun starfsmönnum í stöðinni fjölga um 90. Í kjölfarið mun afurðastöðin hefja framleiðslu á fleiri þekktum vörumerkjum fyrirtækisins s.s. Fristi, Cécémel og hin kunna Nutroma kaffirjóma í
litlum bikurum. Verkefnið, sem talið er að kosti hátt í sex milljarða íslenskra króna, mun taka eitt og hálft ár.
Ljóst er að forsvarsmenn FrieslandCampina ætla að treysta belgíska markaðinn, því nýverið var einnig tilkynnt um framkvæmaáform í afurðastöð fyrirtækisins í Bornem og í fyrra var lokið við umfangsmiklar framkvæmdir við afurðastöðina í Lummen.