Mjólkurneysla hefur jákvæð áhrif á blóðþrýsting!
05.09.2006
Í fræðiritinu Journal of Hypertension birtist nýlega grein með niðurstöðum franskrar rannsóknar á áhrifum neyslu mjólkurafurða og kalks á blóðþrýsting. Í úrtakinu voru 912 karlmenn á aldrinum 45 til 64 ára, sem valdir voru tilviljanakennt úr þjóðskrá. Þátttakendur svöruðu ýtarlegum spurningum um áhættuþætti og skráðu upplýsingar um mataræði. Tvær mælingar voru gerðar á hvíldarblóðþrýstingi. Við tölfræðilega úrvinnslu gagnanna var þátttakendum skipt niður eftir neyslu mjólkurafurða og kalks.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að blóðþrýstingur var mun hærri (slagþrýstingur 146,4 og þanþrýstingur 89,0 mmHg) hjá þeim fjórðungi þátttakenda sem neytti minnsts magns mjólkurvara, samanborið við þann hóp sem neytti mests magns mjólkurafurða (135,6 og 85,3 mmHg). Þegar búið var að leiðrétta fyrir ýmsum áhrifavöldum á blóðþrýsting, s.s. aldri, reykingum, líkamsþyngdarstuðli (BMI), lyfjanotkun o.s.frv., var þetta samhengi ennþá marktækt. Því má ótvírætt draga þá ályktun af niðurstöðunum, að mjólkurneysla hafi jákvæð áhrif á blóðþrýsting.