Mjólkin fer beint í pakkningu!
12.09.2015
Eins og flestir vita er langur og nokkuð flókinn ferill sem liggur að baki hverri pakkaðri mjólk í fernu, enda leiðin löng frá því að mjólkin skilur við kúna við spenaendann og svo á endandum rennur niður í fernu í afurðastöðinni. Þessi ferill þarf þó alls ekki að vera svo langur eins og rússnesku frumkvöðlarnir Alexander Belonosov og Andrei Kuteinikov hafa nú sýnt fram á. Þeir hafa nú fundið upp vél sem er allt í senn: sogdæla, mjaltatæki og pökkunarvél!
Mjólkin fer beint úr mjaltatækinu í gegnum síu og í gerilsneyðingartæki og þaðan beint í þar til gerða pökkunarvél. Það má því fullyrða að ferskari gæti mjólkin ekki verið enda segja þeir að allur ferillinn taki einungis 30 sekúndur! Reyndar er kerfið svo hraðvirkt að þarlend yfirvöld telja að skilyrðum um gerilsneyðingu sé ekki fullnægt en tækið hitar mjólkina í 75°C í 10 sekúndur og kælir svo mjólkina í 2°C. Nokkuð misjafnt er á milli landa hvernig reglurnar eru varðandi gerilsneyðingu og t.d. í Bandaríkjunum þarf að hita mjólkina í 15 sekúndur (yfir 71,7°C) svo allt sé talið löglegt.
Þetta er nú væntanlega tæknilegt mál sem þeir félagar leysa en spennandi verður að sjá hvort þessi nýja pökkunarvél fari í almenna sölu en þess má geta að hún kostar rúmar 3 milljónir og hér má sjá myndband á YouTube vefnum um þetta áhugaverða tæki/SS.