Beint í efni

Mjólkin á að stækka Tælendinga!

16.07.2013

Heilbrigðisráðuneytið í Tælandi hefur nú hrundið af stað sérstöku átaki sem ætlað er að auka mjólkurneyslu þarlendra. Tilgangur átaksins er hreinlega að reyna að hækka meðalhæð þjóðarinnar er haft eftir Cholanan Srikaew, heilbrigðisráðherra landsins er hann var á fundi hjá Alþjóðlegu matvælastofnuninni.

 

Samkvæmt áætlun landsins mun eitt mjólkurglas á dag hækka meðalhæð 18 ára drengja um heila 8 sentímetra sé farið eftir meðmælum yfirvalda og stúlkna um 5 sentímetra. Í dag er meðalhæðin 167 cm hjá mönnum og 157 hjá konum í landinu svo stefnan hefur verið sett á 175 cm meðalhæð karlmanna og 162 cm meðalhæð kvenna.

 

Auk þess gerir heilbrigðisráðuneytið ráð fyrir að lífaldur þessa hóps, þ.e. sem mun drekka eitt glas af mjólk á dag, lengist úr 74 árum í 80 ár. Í dag er meðalneysla Tælendinga einungis 14 lítrar af mjólk á ári á hvern íbúa sem er langt undir því sem gengur og gerist í suðaustur Asíu þar sem 60 lítra neysla er að jafnaði. Það er þó langt undir hinu alþjóðlega meðaltali sem er nú 103,9 lítrar mjólkur á ári á hvern íbúa/SS.