Beint í efni

Meðalnyt lækkar enn

14.02.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir janúar 2011 eru nú komnar út hjá BÍ. Alls komu 605 bú til uppgjörs sem eru hlutftallsleg skil upp á 96% sem telst afar gott. Í janúar var fjöldi árskúa 22.714, sem er fækkun um 1,8% frá því í janúar árið 2010 þegar árskýrnar voru 23.128.

 

Samhliða fækkun árskúa minnkar nú meðalbúið miðað við janúar fyrir ári síðan og eru nú 36,8 árskýr á skýrsluhaldsbúunum að jafnaði. Þegar horft er til meðalafurðanna kemur niðurstaðan ekki verulega á óvart miðað við fyrri mánuð en meðalafurðirnar nú reiknast 5.290 kg og lækka um 52 kg. frá

fyrri mánuði. Þess ber þó að geta að sú tala er reiknuð út frá leiðréttum gögnum sem getur haft áhrif á samanburð á milli mánaða.

 

Samtals reiknast nú 17 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er ánægjuleg aukning frá því í desember þegar 14 bú voru yfir 7.000 lítra meðalnyt.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr í janúar 2011 eru að þessi sinni á bænum Hraunhálsi (26,7 árskýr) en þar var meðalnytin 7.849 kg með 4,86% fitu og 3,39% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 647,5 kg sem er með því hæsta sem gerist. Meðalnyt búsins hefur aukist verulega frá því í desember þegar meðalnytin reiknaðist 7.764 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru sem fyrr í Kirkjulæk 2 (43,5 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.678 kg/árskúna með 4,19% fitu og 3,47% prótein og magn verðmætaefnanna því að jafnaði 588,1 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (104,9 árskýr), en þar var meðalnytin 7.751 kg/árskúna með 4,03% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 578,2 kg.

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) í janúar 2011 var sem fyrr Örk frá Egg með 12.666 kg með 3,33% próteini og 4,44% fitu og verðmætaefnin því alls 984,1 kg.

 

Fram kemur í yfirliti BÍ að 9 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg, þar af tvær yfir 12 þúsund kg.

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.