Beint í efni

Kýrnar vilja hafa val

28.11.2015

Þó svo að kýr séu í eðli sínu hópdýr og sæki oftast í öryggi sinnar hjarðar þá vilja þær stundum vera einar, þetta á m.a. við um sumar kýr þegar þær bera. Dönsk rannsókn, sem gerð var á 39 Holstein kúm, gekk út á það að skoða atferli kúnna um burð. Kýrnar voru saman í hópstíu í geldstöðunni en voru svo færðar yfir í burðarstíu 10 tímum fyrir burð. Helmingurinn í burðarstíur sem voru gerðar úr hefðbundnum grindum en hinn helmingurinn í burðarstíur sem voru úr krossvið en þó með glugga á einni hlið stíunnar þar sem sást yfir til hópsins í geldstöðunni. Síðan var fylgst með atferli kúnna við burðinn.

 

Í ljós kom að kýrnar sem báru í hefðbundnum stíum lágu og báru hvar sem er í stíunum en 79% af hinum, völdu sér stað í stíunum þar sem þær gátu legið í „vari“ fyrir hinum kúnum. Niðurstaðan kemur reyndar ekki á óvart enda er það oft svo að þegar kýr bera úti, þá sækja þær frá hópnum til þess að bera. Segja dönsku vísindamennirnir að niðurstöðurnar megi nýta til þess að endurskipuleggja hönnun burðaraðstöðu í fjósum fyrir kýr, með það að leiðarljósi að reyna að koma til móts við þessar þarfir kúnna/SS.