Beint í efni

Kvígurnar eiga að vaxa hratt

25.07.2015

Það er gömul saga og ný að lengi búi að fyrstu gerð og að vanda þurfi sérstaklega vel til með eldi á kvígunni, svo úr verði almennileg mjólkurkýr þegar frá líður. Tímabilið frá fæðingu að fyrsta burði er afar kostnaðarsamt og því er brýnt að bæði nýta það vel sem og að tryggja að úr verði öflug kýr sem borgi hratt upp uppeldiskostnað sinn. Víða erlendis beina bændur og ráðunautar nú sjónum sínum að þeirri staðreynd að það er hægt að lækka meðal burðaraldur verulega með bættu eldi og á sama tíma að framleiða enn hagkvæmari kýr þar sem því styttri tími sem fer í uppeldið, því fyrr fer kýrin að afla tekna fyrir búið. En hvaða ráð fá bændurnir þá nú um stundir varðandi eldið?

 

Bæði vestur í Bandaríkjum sem og hjá frændum okkar í Danmörku er nú ráðlagt að gefa smákálfum og kálfum, að 7 mánaða aldri, þar til gerða uppeldis-kjarnfóðurblöndu í stað þess að gefa þeim heilfóður. Fyrstu tvo til þrjá mánuðina fá kvígurnar kjarnfóðurblöndu að vild sem inniheldur 20% prótein en svo er skipt yfir í 18% blöndu fram að 7 mánaða aldri. Þegar þær eru 7 mánaða gamlar eru þær svo settar á fóður sem líkist kúafóðrinu, ekki fyrr. Þessar fóðurblöndur eru reynar aðeins dýrari á hvert kíló í þyngdaraukningu, en munurinn er lítill og borgar sig upp með kraftmeiri vexti kálfanna, sem svo skilar sér aftur í meiri þroska kvíganna og gerir þær fyrr kynþroska. Kvígurnar geta svo borið 22ja mánaða gamlar og eru á þeim tíma vel þroskaðar með fín júgur og það stórar að þær geta vel staðið uppi í „hárinu“ á hinum eldri kúm.

 

Í Danmörku nemur meðal kostnaður við eldi á kvígu 20 dönskum krónum á dag eða rétt um 400 íslenskum krónum og er þessi kostnaður trúlega hærri hér á landi ef eitthvað er. Ef hægt er að fækka þessum eldisdögum um 60, þá gera það 24 þúsund krónur á ári og hlýtur að muna um minna. Þessu til viðbótar kemur svo að sé hægt að lækka burðaraldurinn, minnkar plássþörf í fjósi sem einnig sparar verulega fjármuni.

 

Þess má reyndar geta að framangreindar leiðbeiningar eiga við um svart-skjöldóttar kvígur (Holstein-Friesian). Þess má til gamans og fróðleiks geta að til eru þeir sem telja að fóðurnýting íslenskra kúa sé jafnvel fremri þeim svartskjöldóttu og sé það tilfellið má væntanlega vænta þess að hægt sé að ná enn meiri hagræðingu en hér að framan greinir, sem er auðvitað ekkert nema gleðiefni fyrir íslenska nautgriparækt/SS.