Beint í efni

Kúariða greinist á ný í Sviss

09.05.2011

Yfirvöld í Sviss greindu frá því fyrir helgi að kúariða hafi greinst í kú frá kúabúi í héraðinu St. Gallen. Þetta er í fyrsta skipti síðastliðin fimm ár, eða frá árinu 2006, sem kúariða greinist í Sviss en Sviss var eitt af þeim löndum sem lentu verst í kúariðunni fyrir um áratug. Kýrin sem um ræðir var fædd í september árið 2003 eða nærri tveimur og hálfu ári eftir að bann við notkun á kjöt- og beinamjöli var sett á í Sviss.
 
Samkvæmt þarlendum yfirvöldum er þó ekki talið óeðlilegt að jafn langur tími líði frá banni og þar til gripur fæðist og síðar greinist, en dæmi er um sambærileg tilfelli í bæði Stóra-Bretlandi og Tékklandi. Að sögn svisslenskra vísindamanna var þetta kúariðutilfelli all sérstakt þar sem einkenni þess voru ekki lík því sem oftast eru/SS.