
Kosningar hefjast um breytingar á búvörusamningi
15.05.2009
Í dag 14. maí verða atkvæðaseðlar póstlagðir vegna kosninga um breytingar á búvörusamningi. Bændur ættu því að hafa fengið atkvæðaseðla í sínar hendur 15. maí eða í síðasta lagi 18. maí. Atkvæðagreiðslan fer fram á tímabilinu 15. maí til 29. maí og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist skrifstofu Bændasamtaka Íslands í síðasta lagi þann 29. maí.
Upplýsingar um breytingar á samningunum og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar eru að finna hér að neðan, en sjá má umfjöllun um kosningarnar og kynningafundina á samningunum í síðasta Bændablaði hér.
Breytingar á samningunum fela eftirfarandi í sér:
► Framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum.
► Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009, óháð verðlagsþróun.
► Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
► Árið 2012 verði greitt samkvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% hámarkshækkun eins og árið 2011.
► Báðir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.
Breytingarnar fela ekki annað í sér. Borið hefur á þeim misskilningi að breytingarnar þýði verðstöðvun á afurðum og að þeir hafi áhrif á verðlagsnefnd búvara. Því er rétt að taka fram eftirfarandi:
- Breytingar á búvörusamningum innihalda engin ákvæði um verðstöðvun.
- Breytingarnar hafa engin áhrif á störf verðlagsnefndar búvara.
- Forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur gefið það út að verði breytingarnar samþykktar muni bændur ekki þurfa að taka á sig frekari byrgðar í þeirri efnahagslegu uppbyggingu sem framundan.
Atkvæðagreiðsla um samningana
► Samningarnir eru gerðir með fyrirvara um samþykki bænda í almennri atkvæðagreiðslu. Sú atkvæðagreiðsla fer fram með póstkosningu og verða atkvæðaseðlar póstlagðir 14. maí. Bændur ættu því að hafa fengið atkvæðaseðla í sína hendur 15. maí eða í síðasta lagi 18. maí.
► Með atkvæðaseðlinum fylgir umslag sem merkt er „Umslag fyrir kjörseðil.“ Í það umslag skal setja kjörseðilinn. Annað umslag sem merkt er Bændasamtökum Íslands fylgir einnig með. Í það skal setja umslagið með kjörseðlinum, rita nafn sitt aftan á og póstleggja svo.
► Atkvæðagreiðslan fer fram á tímabilinu 15. maí til 29. maí og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist skrifstofu Bændasamtaka Íslands í síðasta lagi þann 29. maí.
► Talning fer fram 2. júní næstkomandi.
► Á kjörskrá eru eru handhafar hvers kyns beingreiðslna (beingreiðslur mjólkur, beingreiðslur sauðfjár, gripagreiðslur og gæðastýringarálags). Séu fleiri en einn aðili að búrekstrinum og eru jafnframt félagar í búnaðarfélagi/búnaðarsambandi og/eða búgreinafélagi hafa þeir einnig kosningaréttrétt.
► Kjörskrár munu liggja frammi hjá búnaðarsamböndum. Séu bændur ekki á kjörskrá en telji sig eiga atkvæðisrétt eru þeir hvattir til að senda kæru til kjörstjórnar. Þá kæru þarf að senda á skrifstofu Bændasamtaka Íslands og merkja til kjörstjórnar vegna kosninga um búvörusamninga. Einnig er hægt að senda kærur á kjörstjórn með tölvupósti á Ernu Bjarnadóttur formann kjörstjórnar á póstfangið eb@bondi.is.
Allir bændur eru hvattir til að taka þátt í kosningunni.
Sjá má sýnishorn kjörseðils hér.