Beint í efni

Kórónuveiran og áhrif á norrænan landbúnað

20.03.2020

Staða landbúnaðar á Norðurlöndunum er enn sem komið er sterk þrátt fyrir það mikla rask sem orðið hefur vegna kórónuveirunnar. Sammerkt er þó með löndunum að ferðaþjónustubændur hafa orðið verst úti á meðan innlend framleiðsla stendur sterkt og líkur eru á að hún muni aukast ef eitthvað er.

Bændasamtök Íslands eru hluti af norrænu bændasamtökunum NBC þar sem öll Norðurlöndin eiga sína fulltrúa. Hópur þeirra fundaði í fyrradag í gegnum fjarfundarbúnað og bar saman bækur sínar. Erla H. Gunnarsdóttir er fulltrúi BÍ í samstarfinu. Hún segir að forsvarsmenn bændasamtaka á Norðurlöndunum óttist nú mjög skort á vinnuafli í landbúnaði en tugir þúsunda erlendra verkamanna starfa við landbúnað í löndunum, bæði að staðaldri og árstíðabundið.

Norðmenn loka skólum og vinnustöðum

Noregur er lamaður vegna kórónuveirunnar, skólum og leikskólum var lokað í 2 vikur frá og með 13. mars svo nú sinna foreldrar heimakennslu með börnum sínum. Öllum viðburðum var í kjölfarið aflýst langt fram í tímann, og öldurhúsum, hársnyrtistofum og tannlæknastofum lokað svo fátt eitt sé nefnt. Reglurnar breytast dag frá degi og eru stjórnvöld dugleg að upplýsa um stöðu mála. Bændur sem eru í sóttkví mega sinna sínum störfum eins og áður ef þeir hafa ekki einkenni COVID-19.

Um 30 þúsund erlendir verkamenn starfa í norskum landbúnaði

Norska dýralæknastofnunin hefur gefið út að veiran sé ekki hættuleg dýrum og að norsk dýr beri ekki með sér smit til manna. Ekki hefur verið tilkynnt um sjúkdómstilfelli hjá skepnum vegna sýkingar af COVID-19. Kórónuveira sem nautgripir geta fengið er ekki sú sama og herjar nú á mannfólk. Nú hafa forsvarsmenn norsku bændasamtakanna, Norges bondelag, áhyggjur af erlendu vinnuafli. Þeir velta fyrir sér hvaða áhrif veikin hefur á þá 30 þúsund erlendu verkamenn sem starfa árlega í norskum landbúnaði. Nú hefur verið sett bann við vinnuafli frá Víetnam en töluverður hópur kemur þaðan til að tína jarðarber í Noregi á uppskerutímanum. Því hefur verið biðlað til almennings að hjálpa til við afleysingar og störf þar sem þess þarf en margir eftirlaunaþegar hafa sýnt tilboðinu áhuga. Norsku bændasamtökin eru einnig í viðræðum við stjórnvöld um hvernig standa skuli að búvörusamningum þar í landi sem hefjast vanalega í kringum páskana.


Áhrif á norræna ferðaþjónustu eru mikil í kjölfar COVID-19.

Svipuð staða í Danmörku og Svíþjóð

Staðan í Danmörku breytist dag frá degi og þar líkt og í Noregi hefur öllum skólum verið lokað í tvær vikur. Einnig er öllum gert skylt að vinna heiman frá sér í tvær vikur sem það geta og samkomubann hefur verið sett á. Þegar kemur að landbúnaði er framboð á matvælum nægilegt og framleiðsla í föstum skorðum, helsta áhyggjuefnið er að lykilpersónur í hinum ýmsu geirum smitist og að hugsanlega geti framleiðsla og verslun með matvælum farið úr skorðum vegna þess. Mörg fyrirtæki hafa sett á strangar reglur um fundi og heimsóknabönn á vinnustaðina. Hingað til hefur innflutningur á aðföngum virkað eins og á fóðri, áburði og eldsneyti og útflutningur hefur ekki raskast. Margt sem var fyrirhugað á útflutningsmörkuðum eins og sýningar og heimsóknir erlendis frá hefur verið aflýst og gæti haft áhrif til lengri tíma litið.

Allsstaðar er unnið að afleysingakerfi í landbúnaði

Sænsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að taka COVID-útbreiðslunni ekki nógu alvarlega og hafa brugðist seint og illa við að mati margra. Sænsku bændasamtökin eru í viðræðum við stjórnvöld og helsta áhyggjuefnið er ef bændur smitast og að fá afleysingafólk til starfa. Unnið er að því að setja á fót kerfi fyrir afleysingaþjónustu eins og á hinum Norðurlöndunum. Krefst greinin þess að fá skýr svör frá stjórnvöldum hvernig eigi að bregðast við varðandi erlenda verkamenn. Einnig er óskað eftir undanþágum frá reglum ef til þess kemur að breyta þurfi verklagi við dýraflutninga. Það sama á við um regluverk fóðurs innan lífrænnar ræktunar, það er að undanþága verði fengin frá reglum sé þess þörf. Annars er matvælaframleiðsla stöðug í landinu en sömu vandamál skjóta rótum í Svíþjóð sem annarsstaðar. Ferðaþjónustan á undir högg að sækja ásamt veitingastöðum og mötuneytum en aukning er í sölu á innlendum matvælum í verslunum.

Fyrirsjáanlegt tap og þörf á auknu vinnuafli

Virðiskeðja matvæla virkar enn vel í Finnlandi og ekki verður skortur að mati finnsku bændasamtakanna, MTK. Landamæri verða lokuð og ekki er mælt með ferðalögum. Flutningur á matvælum og vörum heldur áfram eins og verið hefur. Truflun á alþjóðlegri verslun getur þó valdið áskorunum í lyfjum til dýralækna, varahlutum og öðrum nauðsynlegum vörum. Þeir sem hafa strax fundið fyrir áhrifum eru ferðaþjónustubændur sem hafa misst allar pantanir sínar næstu mánuði, í það minnsta fjóra mánuði fram í tímann. Tap þessara aðila er á bilinu 10-50% og minni fyrirtæki munu ekki lifa þennan tíma af. Nú óttast Finnar að skortur á vinnuafli í landbúnaði geti haft mikil áhrif og þarf að mæla það sérstaklega en um 16 þúsund erlendir verkamenn starfa í Finnlandi á hverju ári. Mikil þörf er á vinnuafli í ákveðinn tíma sérstaklega við berjatínslu og hjá grænmetisbændum, nú þegar er sáning í hættu ásamt uppskerutímanum síðar í ár.

Talið er að eftirspurn eftir kjöti muni aukast

Fyrstu viðbrögð á markaði með korn, olíufræ og prótínuppskeru þá hafa verð verið að falla, lægð er í eftirspurn og takmarkanir á flutningum. Samt sem áður er innanlandsmarkaður svipaður eins og til dæmis sala á korni og sama má segja um Ítalíu. Í löndum Evrópusambandsins sem hafa tileinkað sér stuðningsúrræði til að hindra útbreiðslu á kórónuveirunnar, þá hefur flutningur með matvæli sérstaka stöðu sem þýðir að kaup og sala á hráefni er í nokkuð eðlilegum farvegi. Enginn skortur er í Finnlandi á fræjum þar sem síðasta ár var gott þegar kemur að gæðum og magni. Talið er líklegt að eftirspurn eftir innlendu kjöti muni aukast nú á meðan krísan varir. Verð á mjólk hefur fallið innan landa Evrópusambandsins, nokkuð sem Finnar byrjuðu að sjá haustið 2019. Sala á ostum og smjöri hefur aukist þegar fólk hamstrar í verslunum en sala og neysla á mjólk hefur fallið um nokkurt skeið.