
Íslenskur landbúnaður – mjólkur- og nautakjötsframleiðsla
09.06.2018
Staðan í dag
Landbúnaður í þeirri mynd eins og við þekkjum hann hefur verið stundaður í aldir og jafnvel þúsundir ára. Það er því ekki að undra að almenningur og stjórnmálamenn vilji hafa eitthvað um það að segja hvernig landbúnaður eigi að vera og eigi að þróast.
Í öllum þróuðum samfélögum er landbúnaðurinn meira eða minna háður pólitískum ákvörðunum um starfsskilyrði hvað varðar umhverfismál, heilbrigðismál, ríkisstuðning, tollvernd og fleira. Flestar þjóðir vernda sinn landbúnað til að tryggja fæðuöryggi fyrir þegna sína, því fátt er sennilega aumara en að vera öðrum háður um næstu máltíð vegna fyrirhyggjuleysis í fæðuöflun. Það er auðvitað misjafnt milli þjóða hversu fjölþættur landbúnaðurinn er og þar ræður lega á hnettinum mestu og því hefur í aldanna rás þróast viðskipti með landbúnaðarvörur milli landa og heimsálfa. Íslenskur landbúnaður er ekki undanþeginn í þessari þróun og hefur tekið þátt í viðskiptum með inn- og útflutningi á landbúnaðarvörum í hundruði ára.
Á síðustu árum og ártugum hefur inn- og útflutningur á landbúnaðarvörum vaxið og nú er svo komið að um þessi viðskipti hafa verið gerðir milliríkjasamningar sem tiltaka það magn af landbúnaðarvörum sem sem við Íslendingar getum flutt út, gegn því að við heimilum innflutning af landbúnaðarvörum á móti á lágum eða engum tollum.
Síðasti samningur sem undirritaður var um milliríkjaviðskipti með landbúnaðarvörur við Evrópusambandið var undirritaður haustið 2015. Hann felur í sér tækifæri á útflutningi á íslenskum landbúnðarvörum inn fyrir tollmúra ES og hann gefur sömuleiðis ES tækifæri til að flytja landbúnaðarvörur til Íslands án tolla. Um þennan tollasamning hefur átt sér stað mikil umræða um kosti og galla hans fyrir íslenskan landbúnað og þá sérstaklega áhrif hans á verð á íslenskum landbúnaðarvörurum og hversu stóran hluta af markaðinum innflutningurinn mun taka. Staðreyndin er að verð á innfluttum landbúnaðarvörum er lægra og mun þar af leiðandi taka sinn skerf af innanlandsmarkaði landbúnaðarvara með ófyrirséðum afleiðingum.
Nánasta framtíð
Innflutningur á landbúnaðarvörum á lágum eða engum tollum mun valda mikilli röskun á verði íslenskra landbúnaðarvara, sem hefur áhrif á getu hans til að standa undir kostnaði svo sem launum, endurnýjunar á byggingum, tækjum og afborgunum á lánsfjármagni svo eitthvað sé upptalið. Hjá okkur mjólkurframleiðendum munu áhrifin koma fram strax vegna innflutnings á ostum, en eins og flestir vita þarf mikla mjólk til að framleiða eitt kg af osti. Áhrifin verða talin í milljónum lítra mjólkur, sem við höfum enga möguleika til að jafna með útflutningi vegna hás framleiðslukostnaðar í mjólkurframleiðslu og –vinnslu, sem leiðir af sér minnkuð umsvif í framleiðslu. Tekjutapið í íslenskri mjólkurframleiðslu verður talið milljörðum þegar fram líða stundir.
Einfalda svarið við þessari áskorun er að lækka framleiðslukostnað mjólkur og auka framleiðni. Íslenskir mjólkurframleiðendur eru komnir í samkeppni við evrópska mjólkurframleiðendur, þar sem mjólkuriðnaðurinn borgar bændum helminginn af því verði sem íslenskur mjólkuriðnaður borgar fyrir sína mjólk.
Horft fram á veginn
Mjólkurframleiðsla á Íslandi er ekki sjálfgefin enda landið harðbýlt, strjálbýlt og samfélag dreifbýlissins er brothætt vegna fámennis og skorts á samfélagslegri þjónustu borið saman við það sem þéttbýlið býður uppá. Tekjur eru yfirleitt lágar, vinnutími langur og lítið um frítíma sem leiðir af sér að fólk í dreifbýli verður að neita sér um ýmsa þá hluti sem teljast sjálfsagðir nú til dags. Allt eru þetta atriði, ásamt mörgu fleiru, sem hafa áhrif á það hvort fólk vill setjast að í dreifbýli og stunda mjólkurframleiðslu og þar með að halda við byggð í landinu.
Hver er svo reyndin? Gerum við eitthvað sem þjóð, til þess raunverulega að halda landinu sem víðast í byggð? Hvað er það sem er áhrifaríkast til að viðhalda byggð um landið? Eru það peningar, atvinna, vegir, nettenging, grunnskólar og framhaldsskólar? Hvað þarf til til þess að fjármagn fari út í dreifbýlið sem tekjur til þeirra sem þar vilja búa og starfa?
Það þarf trygga atvinnu og við þurfum framsýna stjórnmálamenn, sem taka ekki ákvarðanir um að kippa fótunum undan rekstrargrundvelli landbúnaðarins með gerð milliríkjasamninga um innflutning á ódýrum landbúnaðavörum í von um að kaupa sér vinsældir meðal neytenda og þeirra sem flytja inn landbúnaðarafurðir. Það þarf staðfestu, úthald og framtíðarsýn til áratuga til að halda landinu í byggð.
Óvissa um afkomu í dreifbýli mjög hættuleg. Öryggi í afkomu gegnir lykilhlutverki til að viðhalda byggð og auðveldar ungu fólki að taka ákvörðun um að setjast þar að og stunda landbúnað.
Áðurnefndur tollasamningur við ES frá 2015 er fjandsamlegur byggð í dreifbýli, vegna þess að hann lækkar tekjur og dregur úr markaðshlutdeild íslenskra mjólkurafurða um milljónir lítra mjólkur og eykur möguleika á innflutningi á nautakjöti um hundruð tonna. Stjórnvöld sem hafa einhvern metnað og framtíðarsýn fyrir íslenska mjólkur- og nautakjötsframleiðslu gera ekki svona milliríkjasamninga. Eins og áður er nefnt er samkeppnishæfni íslenskrar mjólkurframleiðslu ekki sterk samanborið við þá mjólkurframleiðslu sem mun veita okkur samkeppni í innflutningi á mjólkurvörum. Það er reynsla fyrir því að mjólkurframleiðsla á norðlægum slóðum víkur, sé henni veitt samkeppni með innflutningi samanber Noreg og Svíþjóð. Við Íslendingar þurfum ekki að prófa þetta, það liggur fyrir innflutningurinn tekur vöxtinn á markaðnum og innlenda frameiðslan mun standa í stað eða dragast saman. Það leiðir af sér að atvinnutækifærum fækkar vegna fækkunar og stækkunar á búum, sem er eina svarið við þessum aðstæðum. Ef stjórnvöld hefðu þá sýn að halda innanlandsmarkaðnum fyrir innlenda framleiðslu, myndi það hinsvegar skapa tækifæri vegna íbúafjölgunar.
Lokaorð
Sú kynslóð sem nú ræður ríkjum á Íslandi hefur allt til alls, getur allt, veit allt og en virðist skammsýn sérstaklega á málum sem þarf langtímahugsun við. Fyrir okkur sem lifum og hrærumst í landbúnaði gegnir langtímahugsun lykilhlutverki, ef ekki á illa að fara. Rangar ákvarðanir eða engar á einum tíma í málefnum landbúnaðarins geta haft mjög slæmar afleiðingar sem ekki verða aftur teknar. Samdráttur í markaðshlutdeild íslenskra mjólkurvara vegna tollasamninga er ein þeirra sem mun leiða af sér fækkun kúabúa og fækkunar íbúa í dreifbýli. Fólk sem býr í dreifbýli og ætlar sér að lifa af landbúnaði, gerir kröfur um sambærilegar tekjur og lífsgæði og aðrir þegnar landsins. Sé það ekki möguleiki, vegna ytri aðstæðna svo sem vegna samkeppni á ódýrum innfluttum landbúnaðarvörum, flýr fólk atvinnuveginn og sveitirnar tæmast. Það er ekki neitt nýtt við það að fólki fækki í dreifbýli og það er þróun sem er búin að eiga sér stað í hundruði ára, en það er nýtt að stjórnvöld undirriti milliríkjasamninga sem beinlínis hraða þessari þróun. Komandi kynslóðir munu svo sannarlega ekki þakka fyrir þessar skammsýnu ákvarðanir.
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Varaformaður stjórnar LK