IGC spáir metuppskeru á korni 2008
28.04.2008
Þann 24. apríl sl. gaf International Grains Council í London út spá sína um horfur í kornuppskeru á þessu ári. Samkvæmt henni lítur út fyrir að heimsframleiðsla á korni verði 1.706 milljónir tonna, sem er 37 milljónun tonna meiri uppskera en á liðnu ári sem var metár. Spáð er að neysla á korni aukist um 1,7% og verði 1.710 milljónir tonna, birgðir muni því minnka um 4 milljónir tonna. Þessi aukning er þó mun hægari en á síðasta ári, þegar kornnotkun jókst um 3,5% milli ára. Ástæða þess er að tekið hefur að hægja á vexti ethanólframleiðslu í Bandaríkjunum og þá hefur notkun á korni til fóðurs dregist lítillega saman. Notkun þess til matar hefur hins vegar aukist. Verð á hveiti hefur lækkað aftur á undanförnum vikum, eftir snarpar verðhækkanir frá áramótum og fram í mars.
Liggur hveitiverð nú á bilinu 320-360 USD/tonn, eða 23.500-26.500 kr. Þegar það fór hæst, var það nálægt 500 USD á tonn, um 38.000 kr. Maísverð fer enn hækkandi og er það nú kringum 250 USD/tonn, eða 18.400 kr. Er það miðað við fob-verð á höfn við Mexíkóflóa.
Búist er við því að milliríkjaverslun með korn muni dragast lítillega saman, aukning í viðskiptum með hveiti muni ekki vega upp á móti samdrætti í verslun með maís og sorghum.
Hvað varðar uppskeru einstakra tegunda, þá er útlit fyrir mjög mikla aukningu á uppskeru hveitis og að hún verði 645 milljónir tonna, sem er aukning um 41 m. tonna milli ára. Uppskeruhorfur í Evrópu, fyrrum sovétlýðveldum (CIS) og Kína eru góðar en í hlutum Bandaríkjanna og Kanada er farið að vanta úrkomu. Miklir hitar í austurlöndum nær og Norður-Afríku hafa neikvæð áhrif á horfur þar. Regn í Argentínu og Ástralíu hafa hins vegar blásið von í brjóst um góða uppskeru á þeim slóðum. Með lækkandi hveitiverði eru líkur á að notkun til matar í þróunarlöndum aukist, sem og notkun til fóðurs. Heildarnotkun hveitis er áætluð 630 milljónir tonna á árinu, birgðir þess munu því aukast um 15 milljónir tonna og munu alls nema neyslu jarðarbúa í 75 daga.
Horfur eru á nokkuð minni maísuppskeru í ár en í fyrra, 762 m. tonna nú á móti 775 m. tonna þá. Úrkoma hefur hamlað sáningu í Bandaríkjunum en horfur eru góðar í Evrópu. Notkun á maís mun að sögn IGC aukast um 10 m. tonn, í 784 m. tonna. Það er mun minni aukning en hefur verið undanfarin ár. Birgðir munu minnka um 22 m. tonna og munu að líkum verða sérlega litlar í Bandaríkjunum. Umfang milliríkjaviðskipta með maís er spáð að verði 89 m. tonna, sem er 10 m. tonna minna en á sl. ári, einkum vegna minni innflutnings til Evrópu.
Spáð er 10% aukningu bygguppskeru, alls 149 m. tonna. Aukningin verður mest í Evrópu, Úkraínu og Ástralíu en búist er við samdrætti í Kanada. Þar sem verð á byggi er fremur hagstætt m.v. önnur hráefni til fóðurgerðar, er búist við að notkunin aukist í 146 m. tonn og birgðir aukist lítillega þ.a.l. og milliríkjaverslun sömuleiðis.
Nálgast má spá IGC með því að smella hér.
Heimild: heimasíða IGC www.igc.org.uk