Herd Navigator – Hjarðleiðsögn
27.02.2007
Á fundi Dansk kvæg er miðlað miklum fróðleik til kúabænda, með því að smella hér má sjá dagskrá fundarins og einstakra deilda hans. Eitt af fundarefnum síðdegis í gær var eftirlits- og stjórnkerfi heima á búunum sem kallast Herd Navigator, sem mætti kalla hjarðleiðsögn. Búnaðurinn er afrakstur þróunarvinnu Lattec, Foss A/S og DeLaval AB sem hófst árið 2001. Einnig hafa Dansk kvæg, Biosens og Kvægbrugets Forsøgscenter komið að verkefninu. Prufuútgáfa af búnaðinum hefur verið í notkun á völdum búum síðan í apríl 2005. Tækið er það sem danskir kalla á sínu ástkæra og ylhýra „pro-aktiv“, þ.e. því er ætlað að gera bóndanum kleyft að grípa til aðgerða áður en vandamál og sjúkdómar skjóta upp kollinum.
Búnaður þessi er tengdur mjaltakerfinu og tekur sýni úr mjólkinni eftir fyrirfram gefnum skilyrðum. Að mjöltum loknum eru sýnin send sjálfvirkt beint í tæki sem greinir fjögur lykilefni sem segja til um ástand gripsins:
- Progesteron – staða þessa hormóns í mjólk segir til um hvað er á seyði í eggjastokkum kýrinnar og er því mjög gagnlegt til að meta frjósemisþætti. Mælingin er afar nákvæm, þar sem viðvörun er send ef innihald prógesteróns fer niður fyrir 5 ng/ml. Nanógramm er einn milljarðasti úr grammi. Með þessum mælingum er hægt að segja til um hvort kýrin er yxna, hefur látið, er með blöðrur á eggjastokkum, síbeiðsli o.s.frv.
- Laktatdehydrogenerasi – ensím sem segir til um júgurheilbrigði. Innihald þess í mjólk eykst hratt eftir sýkingu og með því má segja fyrir um júgurbólgu, löngu áður en klínísk einkenni koma fram, mjólkin strimlar. Þegar gefin er viðvörun um þetta efni, er ráðlagt að taka sýni til bakteríuræktunar og í framhaldinu að ákveða meðferð.
- Beta-hydroxybutyrat (BHB…) – er ketónefni sem er skilið út þegar lifrarstarfsemin er ekki eins og hún á að sér, þegar mjög mikið niðurbrot á fituvef á sér stað. Gefur viðvörun um súrdoða á byrjunarstigi.
- Úrefni – er hluti af próteinefnaskiptum kýrinnar og gefur til kynna hvort próteinfóðrun gripsins er skikkanleg, of mikil eða of lítil.
Áætlanir gera ráð fyrir að búnaðurinn komi á markað í árslok 2007. Til að byrja með verður eingöngu hægt að tengja hann við hefðbundna mjaltabása (allt að 2×14 tæki) frá DeLaval. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að hægt verði að tengja stærri mjaltakerfi og mjaltaþjóna. Einnig er inni í myndinni að búnaðurinn mæli fitu og prótein í mjólk. Ekki reyndist mögulegt að fá upplýsingar um væntanlegt verð, einungis að endurgreiðslutími á þessari fjárfestingu ætti að vera innan eðlilegra marka, eins og aðrar fjárfestingar. Einn mjólkurframleiðandi, Bente Tang, sem verið hefur með búnaðinn í prófun í tæplega tvö ár, lýsti mjög jákvæðri upplifun sinni af honum. Mikil þróun hefði átt sér stað á reynslutímanum og rekstraröryggi væri gott og færi batnandi.