Beint í efni

Hefur þú stillt innréttingarnar nýverið?

13.08.2016

Allt of margir kúabændur setja upp innréttingar í legubásafjós sín og hreyfa svo ekki við þeim næstu árin eða áratugina. Það er hins vegar afar oft sem stilla þarf innréttingarnar, enda hafa kýrnar farið stækkandi á liðnum árum með bættri fóðrun og kynbótum. En hvernig er hægt að meta hvort skoða þurfi stillingarnar? Jú þetta er í raun afar einfalt að meta og hægt að gera á korteri. Gefðu þér tíma til þess að horfa á kýrnar og hvernig þær haga sér á básunum. Ef þær eru hikandi við að leggjast og/eða eru eitthvað að brölta við að standa á fætur þá er eitthvað að.

 

Ef þær hika getur verið að herðakambssláin sé allt of aftarlega en hér áður fyrr voru gefin upp mál á staðsetningu herðakambsslár, eitthvað sem enginn gerir lengur. Tilgangur herðakambsslárinnar er í dag fyrst og fremst að stífa af millligerðina á milli legubásanna. Eigi að stilla af legusvæðislengdina fyrir kýrnar er notað bringurör sem gerir það að verkum að kýrnar liggja réttt og skíta ekki upp í básinn.

 

Ef margar kýr skíta upp í básana getur það líka verið að herðakambssláin sé of lág og þá standa kýrnar „horn í horn“ í legubásnum áður en þær leggjast. Þá liggja þær einnig „horn í horn“ og geta því hæglega skitið í básinn. Kýr eiga að standa beint inn í básana og leggjast þannig, sé allt vel hannað. Gefðu þér því smá tíma til þess að skoða hvernig kýrnar haga sér í fjósinu, það skilar sér í minni vinnu við að skafa bása og betri velferð kúnna/SS.