
Gott að hafa í huga vegna breytinga á búvörulögum
09.08.2010
Í frumvarpi um breytingar á búvörulögum er engin eðlisbreyting gerð á gildandi lögum. Það er ekki heimilt að markaðsetja mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Hefur það fyrirkomulag verið um langt skeið. Það hefur ekkert með að gera að ekki geti verið samkeppni um kaup mjólkur af bændum, úrvinnslu hennar og markaðssetningu.
Öllum, sem hafa leyfi til vinnslu á mjólk, er heimilt að kaupa og vinna mjólk. Að nefndu frumvarpi sé beint gegn Vesturmjólk eða þar áður Mjólku, er dæmi um að verið sé að blanda saman tveimur ólíkum hlutum í umræðunni. Þá er einnig í frumvarpinu ákvæði um heimavinnslu mjólkur og eflingu á þeim vaxtarsprota að vilja vinna mjólk og selja á búum sínum.
Kvótakerfi
Hvort eigi að banna að setja mjólk á markað sem framleidd er utan greiðslumarks er annað mál og frumvarpið er ekkert um það. Landbúnaðarráðherra getur í raun heimilað markaðssetningu slíkrar mjólkur á innanlandsmarkaði. Eða ákveðið að gefa út stærra greiðslumark, sem myndi innifela alla mjólkurframleiðslu. Útgefið greiðslumark, er kvótakerfi, til að stýra framleiðslumagni í takti við innanlandsneyslu. Greiðslumarkið er einnig grunnur að framleiðsluskyldu á bændur.
Hvað er nýtt?
Umrætt frumvarp bætir, eins og áður sagði, engu við gildandi lög nema úrræðum til að bregðast við brotum á þeim. Að mínu viti eru lögin skýr, en í þau hefur vantað viðurlög. Hvort þau brjóta gegn atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar, verða aðrir að dæma um og eðlilegt að þeir sem telja á sér brotið biðji dómstóla að skera þar úr. Það er hins vegar að verða einskonar lenska hér að lög geti ekki staðið nema skýrt sé kveðið á um refsiúrræði. Er þá í lagi að brjóta lög ef refsiákvæði vantar? Slíkt úrræði er vel þekkt í mjólkurframleiðslu nágrannalanda okkar. En þá oftar þannig að bændur eru sjálfir sektaðir fari þeir umfram kvóta sína.
Er kerfið lokað?
Fjölbreyttari flóra vinnslu- og söluaðila á að geta aukið vöruval og bætt gæði, neytendum og framleiðendum til heilla. Miklu frekar ætti að vera skýrt kveðið á um að MS ætti að afhenda mjólk til vinnslu, sem safnað hefur verið saman frá bændum og farið í gegnum strangt gæða- og heilbrigðiseftirlit. MS, ættu miklu frekar að fagna innkomu fyrirtækja á markaðinn sem vilja vinna og markaðssetja vörur úr íslenskri mjólk. En að sjálfsögðu, ef allir sitja þá við sama borð gagnvart þeim lögum og reglum sem gildandi eru.
Má þá engu breyta?
Hvort núverandi kvótakerfi og fyrirkomulag „landbúnaðarkerfisins“ á rétt á sér er allt önnur umræða. Bændur hafa margsinnis lýst sig tilbúna til að endurskoða slíkt fyrirkomulag. Nú síðast í tengslum við samkomulag um skerðingar á búvörusamningum frá 18. apríl 2009. Ekkert skal dregið undan í því að núverandi fyrirkomulag hefur marga galla En hvort óheft framleiðsla bæti hag neytenda eða bænda er dregið í efa. Í fréttum RÚV, 4. ágúst sl., var sagt frá því að Arion banki hafi selt tvö svínabú. Á þeim tíma sem bankinn rak búin hafi hann tapað rúmlega 100 kr. á hverju framleiddu kg af kjöti. Allt þetta lendir endanlega á neytendum. Hringir það engum bjöllum um að eitthvað þurfi að fara betur?
Landbúnaður er ekki atvinnugrein sem getur staðið undir öllum duttlungum hins frjálsa markaðar. Það gerir hann heldur ekki hjá nánast neinni þjóð. Um hann verður hins vegar að ríkja samstaða og eru bændur fullkomlega meðvitaðir um að breytingar þurfa að vera á hverjum tíma. Enda er það margstaðfest að þjóðin hefur miklar mætur á sínum landbúnaði.
Mafía
Það svíður undan að Samkeppniseftirlitið gangi svo langt í áliti sínu að líkja íslenskum mjólkuriðnaði við glæpsamlegt athæfi. Ég spyr hvort það sé viðhorf stjórnvalda til atvinnugreinar sem starfar innan laga Alþingis að þau séu glæpasamtök? Þá er rétt spyrja líka hvort eigi að halda áfram 2007-hugmyndafræðinni eins og ekkert hafi í skorist; frelsi, frelsi og ekkert aðhald?
Haraldur Benediktsson
Höfundur er formaður Bændasamtaka Íslands.