Beint í efni

Geno: fyrsta reynda nautið á grunni erfðamarka

06.10.2014

Eins og fjallað hefur verið um hér á naut.is undanfarin misseri, er sk. „genomisk selektion“ eða úrval á grunni erfðamarka að ryðja sér sífellt meira til rúms í nálægum löndum. Frá þessari aðferð sagði ég m.a. í leiðara 26. ágúst sl., en þessi aðferð byggir í stuttu máli á því að  keyrðar eru saman niðurstöður DNA-greininga á gripunum og gögn úr hefðbundnum afkvæmaprófunum, eins og við þekkjum þær. Þetta gerir mönnum kleyft að meta kynbótagildi gripanna með sæmilegu öryggi mjög snemma á ævi þeirra, í stað þess að bíða í 5-7 ár eftir niðurstöðum afkvæmaprófana. Með því að stytta ættliðabilið um allt að helming, má auka kynbótaframfarirnar gríðarlega.

 

Nú hefur Geno í Noregi bæst í þann hóp kynbótafélaga sem bjóða upp á sæði úr „reyndum“ nautum sem fengið hafa kynbótaeinkunnir með þessum nýju aðferðum. Eftir keyrslu á kynbótamatinu hjá félaginu í september sl. urðu þau tímamót að ákveðið var að setja fyrsta gripinn í notkun.

 

Nautið, sem ber heitið Saur 11572, þykir reyndar það efnilegur að hann er kominn í hóp nautsfeðra hjá félaginu, þrátt fyrir að vera aðeins 20 mánaða gamall, fæddur 30. janúar 2013. Einkunn hans fyrir mjólkurmagn er um meðallag en sterkustu hliðar hans eru efnahlutföll (fitan sérstaklega), júgurgerð, frjósemi og júgurhreysti; allt mjög mikilvægir eiginleikar. Hann er arfhreinn kollóttur, auk þess að vera arfhreinn fyrir beta kasein A2 (A2A2). Kappa kasein arfgerðin er AA./BHB

 

Upplýsingar um kynbótaeinkunnir Saur 11572