Beint í efni

Galli við laga­setn­ingu gæti heft innflutning sérosta

04.04.2018

Svo gæti farið að 104 tonn af toll­frjáls­um ost­um frá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins verði ekki flutt inn á þessu ári eins og til stóð. Þetta kemur fram í frétta­til­kynn­ingu frá Fé­lagi at­vinnu­rek­enda.

Ástæðan er ágalli á laga­setn­ingu, þegar Alþingi samþykkti bú­vöru­samn­ing­ana haustið 2016. Ákvörðun var tek­in um að leyfa inn­flutn­ing á 210 tonn­um af toll­frjáls­um ost­um strax á fyrsta ári gildis­töku tolla­samn­ings­ins við ESB en flýting gildis­töku toll­kvótans fyr­ir svo­kallaða sér­osta skilaði sér ekki í laga­text­ann.

Sér­ost­ar eru ost­ar sem eru skráðir í sam­ræmi við regl­ur um vernd afurðaheita sem vísa til upp­runa, landsvæðis eða hefðbund­inn­ar sér­stöðu, til dæm­is Par­mes­an eða Rochefort. „Í þeirri mála­miðlun sem meiri­hluti at­vinnu­vega­nefnd­ar beitti sér fyr­ir í tengsl­um við samþykkt bú­vöru­samn­ing­anna 2016 fólst ekki ein­göngu að hraða gildis­töku toll­kvóta fyr­ir sér­ost­ana, held­ur að þeim skyldi út­hlutað með hlut­kesti í stað útboðs. Þess­ir ost­ar bera þannig ekki útboðsgjald og yrðu mun ódýr­ari fyr­ir vikið. Þetta klúður bitn­ar því bæði á verði og úr­vali í osta­borðum ís­lenzkra verzl­ana,“ seg­ir í til­kynn­ingu Fé­lags at­vinnu­rek­enda.

Í tilkynningunni segir ennfremur að Jón Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is, hafi beint því til atvinnuveganefnd­ar­ að taka málið upp og flytja frum­varp til að leiðrétta þenn­an ágalla á lög­gjöf­inni.