Beint í efni

Gæði í K og UK flokkum þokast uppá við

23.06.2020

Slátrun kúa (K) fyrstu 5 mánuði ársins 2020* hefur aukist örlítið frá fyrstu 5 mánuðum ársins 2019 en gefið eftir miðað við fyrstu 5 mánuðina 2018. Frá því að EUROP kerfið var tekið upp er nú hægt að bera saman fyrstu 5 mánuði ársins þrjú ár aftur í tímann en í síðustu viku birtist svipuð greining á UN kjötinu.

Árið 2018 var 2.614 K gripum slátrað fyrstu 5 mánuðina, samanborið við 2.334 gripi fyrstu 5 mánuði ársins 2019.  Í ár var 2.367 K gripum slátrað fyrstu 5 mánuðina.  Þetta er rúmlega 1,4% aukning frá því í fyrra  en rúmlega 9,4% fækkun gripa frá árinu 2018. Frá desember sl. hefur verðskrá fyrir kýr verið lækkuð hjá öllum sláturleyfishöfum.  Þetta er því mjög áhugaverð þróun í því ljósi.  Rökin sem gefin voru fyrir lækkandi verðskrá var birgðasöfnun á hakki en ekki verður séð af þessum framleiðslutölum að þetta dragi úr slátrun kúa.

Þegar þróunin er greind frekar niður á mánuði var janúar í ár lakari mánuður en janúar 2019 þegar kemur að fjölda gripa. Í febrúar 2020 er aukningin frá febrúar 2019 rúm 15% og 15,6% aukning í mars.  Aprílmánuður er svipaður og apríl í fyrra en maí er síðan töluvert lakari, eða 13,7% samdráttur. Það má þannig segja að árið hafi farið ágætlega af stað í K flokki en augljós merki eru um að hægist á þegar COVID áhrifanna fer að gæta, ólíkt t.d. UN kjötinu sem fjallað var um í síðustu viku.

Meðalþyngd K gripa jókst hinsvegar úr 208,5 kg. fyrstu 5 mánuði ársins 2019 í 212 kg fyrstu 5 mánuði ársins 2020*.  Hér er 4 kg. sveifla á meðalþyngd sem verður að teljast nokkuð gott. Meðalþyngdin var 211,5 kg. fyrstu 5 mánuðina árið 2018.

Litlar breytingar hafa orðið hins vegar á hlutföllum matsgæði K kjöts sl. tvö ár.  Þegar rýnt er í hlutföll EUROP sést að einkum í efri hlutanum eru 2019 og 2020 nánast eins.  Vissulega er einhver færsla frá árinu 2018 en ef reiknað er með að þar hafi fyrsta árið af EUROP mati verið að byrja að síðasta ár og þetta ár séu nákvæmari. Ef myndin er hins vegar skoðuð nákvæmlega sést að lakasti flokkurinn, P- hefur farið úr 9% rúmum árið 2018, í 8% í fyrra og niður í 4,7 % í ár á meðan P+ er að stækka á móti.  Þetta er óneitanlega mjög jákvæð færsla.

Ef Ungkýr (KU) eru skoðaðar sést svipuð þróun þar sem P- og P hlutin hefur verið að færast ofar. 

Þannig má segja að gæði K og KU nautgripakjöts á Íslandi séu að aukast mjög lítillega meðan augljós batamerki voru á UN kjötinu eins og sagt var frá í gær.  Það er auðvitað jákvætt að hlutir skuli vera að þróast í þessa átt en betur má ef duga skal.

* Tölur frá því í maí eru enn bráðabirgða tölur og gæti breyst eitthvað.  Stóra myndin ætti þó ekki að raskast að neinu ráði.