Beint í efni

Fundargerð aðalfundar 2002

21.08.2002

Aðalfundur Landssambands kúabænda
haldinn að hótel Laugum 20-21 ágúst 2002

Formaður Landssamband kúabænda, Þórólfur Sveinsson setti fundinn kl. 11.20 og bauð fundarmenn velkomna. Sveinn Ingvarsson, Gunnsteinn Þorgilsson voru tilnefndir fundarstjórar og tóku við stjórn fundarins. Í kjörbréfa- og uppstillinganefnd voru skipaðir Arnar Bjarni Eiríksson formaður, Erlingur Teitsson og Skúli Einarsson. Fundarritari var ráðin Þórunn Pétursdóttir.

Skýrsla stjórnar
Þórólfur Sveinsson, formaður stjórnarinnar flutti skýrsluna og fer hún hér á eftir í heild sinni:

Ágætu fulltrúar;  Góðir gestir.
Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og skýrsla um störf fagráðs í nautgriparækt. Þessar skýrslur eru nokkuð ýtarlegar og því verður umfjöllun um félagsstarfið stillt í hóf hér.

Nú er að baki enn eitt líflegt starfsár hjá Landssambandi kúabænda. Sem betur fer var starfið ekki bara líflegt hjá Landssambandi kúabænda, heldur var mikið að gerast á mörgum sviðum nautgriparæktarinnar. Þróun í nautgriparæktinni heldur áfram af fullum þunga, þar sem framfarahugur bænda er drifkrafturinn og fjárfestingar voru verulegar á síðasta ári. Þá hefur það gerst að eignar- og stjórnunarleg tengsl eru orðin hjá stærstum hluta mjólkuriðnaðarins og tök framleiðenda á iðnaðinum hafa styrkst. Þetta  gefur ýmsa möguleika til hagræðingar en á því er mikil nauðsyn á komandi árum.

Það er margt sem breytist. Starfsumhverfið breytist, og eignar- og rekstrarform í framleiðslunni gerir það einnig. Því miður hefur landbúnaðarlöggjöfin ekki náð að fylgja þeim breytingum eftir. Það hefur til dæmis dregist of lengi að endurskoða jarða- og ábúðalög. Eignarhald lögaðila svo sem einkahlutafélaga á bújörðum og búrekstri er staðreynd og með hliðsjón af þróun í öðrum atvinnurekstri er full ástæða til að gera ráð fyrir að svo verði í vaxandi mæli í landbúnaðinum. Til þess liggja margar ástæður, m.a. skattalegar. Þegar svo háttar er vandséð hvernig löggjafinn getur gert persónubundnar kröfur eins gert er í jarðalögunum. Í framtíðinni er líklegt að jarðasölur verði í vaxandi mæli sala á hlutabréfum í félögum sem eiga jörð, en ekki sala á jörðum. Þá vakna ýmsar spurningar, svo sem um forkaupsrétt sveitarfélaga.  Fleira mætti nefna svo sem ættaróðölin, en réttarstaða þeirra hefur verið í algjöru uppnámi sl. fjögur ár. Vissulega viljum við að löggjöfin stuðli að vexti og viðgangi landbúnaðar, en lagaákvæði sem var gott og gilt við ríkjandi þjóðfélagsaðstæður fyrir aldarfjórðungi, getur verið orðið dragbítur á eðlilega þróun í dag. Endurskoðun landbúnaðarlöggjafarinnar að þessu leyti má ekki dragast.

Af reglugerðum sem komu til umsagnar á starfsárinu má nefna Reglugerð um skyldumerkingar búfjár og Reglugerð um mjólk og mjólkurvörur. Nú hefur verið sett reglugerð um skyldumerkingar annars búfjár en sauðfjár og er gott að ráðherra skuli hafa tekið af skarið í þessu efni. Í reglugerðinni er kveðið á um að allir kálfar sem fæðast eftir 1. janúar 2004 skuli merktir samkvæmt þeim kröfum sem settar eru í reglugerðinni. Jafnframt að allir nautgripir á Íslandi verði merktir árið 2005.   Í drögum að breyttri reglugerð um mjólk og mjólkurvörur er m.a. gert ráð fyrir verulega hertum kröfum varðandi frumutölu. Þeim drögum hefur verið andmælt en það málið kemur til umfjöllunar hér á fundinum.

Þá fór fram kosning um NRF-tilraunina. Málið var kynnt í Bændablaðinu og á 14 bændafundum. Kjörseðlar voru sendir öllum starfandi kúabændum og þeim sem skráðir voru félagar í aðildarfélög LK eða búnaðarfélög. Þátttaka í kosninunni var mjög góð og niðurstaðan afgerandi.  Já sögðu 334 eða 25,0%, en nei sögðu 995 eða 75 %.  Í samræmi við niðurstöðu kosninganna var hætt við fyrirhugaða samanburðartilraun og  LK hætti öllum rekstri í Hrísey. Má segja að gengið hafi vel að ljúka þeim málum sem þurfti í tengslum við þessa niðurstöðu. Staða íslenska kúakynsins í samanburði við önnur kúakyn á Norðurlöndum hefur ekki breyst. Skýrslufærð meðalnyt íslenskra kúa var rétt um 4900 kg á síðasta ári. Á sama tíma var nokkurn vegin sambærileg meðalnyt í Noregi tæplega 6100 kg, nálægt 8000 kg í Danmörku og Finnlandi og tæplega 9000 í Svíþjóð. Hvaða skoðun sem við höfum á þætti erfða annars vegar og umhverfis hins vegar í þessum mismun í afköstum, þá er óhjákvæmilegt að mismunurinn hefur í för með sér kostnaðarauka, íslensku framleiðslunni í óhag.  En úr því að verið er að bera saman kýrnar, hvað þá um bændurna ?  Í umræðum um NRF-tilraunina var stundum á það bent að rétt væri að senda þá bændur til Noregs sem áhuga hefðu á afkastameira kúakyni. Þótt þetta væri í gamni sagt, þá er það nú eins og nunnan sagði þegar hún átti barnið; Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Fagleg hæfni bænda ræður úrslitum um þróun og viðgang atvinnugreinarinnar til lengri tíma litið, rétt eins og í öðrum atvinnurekstri. Það er enginn einfaldur mælikvarði til á faglega hæfni íslenskra kúabænda í samanburði við norræna stéttarbræður okkar en tilfinningin segir mér að fagmennska í nautgriparækt á Íslandi hafi aukist umtalsvert síðusta áratug. Þar vegur mjög þungt að festa með frjálsræði hefur ríkt hefur í framleiðslustýringunni, en slíkar aðstæður eru að mörgu leyti forsenda faglegra framfara. Fyrir kúabændur skiptir það mestu nú að geta tileinkað sér nýja þekkingu því annars er stöðnunin vís.

Sala mjólkurvara hefur gengið mjög vel og því voru forsendur til að hækka greiðslumark í 106 milljónir lítra fyrir næsta verðlagsár. Ef þær spár sem þessi greiðslumarksákvörðun byggir á, ganga eftir, þarf innanlandsmarkaðurinn prótein úr 109 milljónum lítra mjólkur á næsta verðlagsári. Hafa verður í huga að ekki liggur fyrir hver birgðastaðan verður um næstu verðlagsáramót. Ástæða er til að minna á að eins og þetta viðbótargreiðslumark kom ,,hægt og hljótt“, þá getur það horfið með sama hætti. Greiðslumarkið fer eftir því hvernig okkur gengur að markaðssetja afurðirnar. Það hefur gengið vel og yfir því getum við glaðst, en jafnframt þarf að sækja fram til að halda fengnum hlut.

Sala nautakjöts hefur vissulega gengið nokkuð vel en þar er verðið of lágt. Í kjölfar ráðstefnu sem haldin var um málefni nautakjötsins voru teknar upp viðræður við landbúnaðarráðuneytið um hvernig hægt væri að greiða götu þessarar atvinnugreinar og tryggja neytendum aðgang að íslensku nautakjöti. Niðurstaða þessara viðræðna liggur ekki fyrir. Sú nýbreytni var tekin upp á  starfsárinu að opnaður var vefurinn kjöt.is, en það er tilraun til að ná með beinum hætti til neytenda. Kristín Linda Jónsdóttir sér um vefinn. Reynslan mun skera úr um það hverju þessi tilraun skilar, en viðbrögðin eru jákvæð.

Verðlagning mjólkur var ekki mikið rædd á síðasta aðalfundi okkar. Ekki var það vegna þess að málið væri ekki brýnt, heldur vegna þess að fulltrúar voru sammála þá nýlegri ályktun stjórnar LK um nauðsyn þess að leiðrétta mjólkurverð vegna verðhækkana á aðföngum. Verðlagningin varð óvenjulega erfið síðasta haust. Kom þar einkum tvennt til; Annars vegar kom upp réttaróvissa um stöðu búvörulaga gagnvart samkeppnislögum að því gefnu að opinberri verðlagningu á heildsölustigi væri hætt svo sem búvörusamningur mælti fyrir um að gerast ætti 30. júní 2001. Hins vegar var verðbólga meiri en verið hafði mörg undangengin ár og hækkunartilefni því meiri en svo að gerlegt væri að bíða til áramóta með leiðréttingu á mjólkurverði. Þar var hins vegar þungt fyrir fæti.

Að því er réttaróvissuna varðar, þá var þar brugðist við með því að gera viðauka við búvörusamninginn. Með þessum viðauka var því frestað til 30.6.2004 að hætta verðlagningu mjólkur á heildsölustigi. Er ástæða til að þakka stjórnvöldum og öðrum sem að málinu komu fyrir þeirra þátt í lausn málsins. Það verður þó að segjast að þetta er biðleikur og eftir er að finna það form samspils búvörulaga og samkeppnislaga sem tryggir  þá verkaskiptingu sem er svo nauðsynleg í mjólkuriðnaðinum. Þessi óvissa tengist mjög hugsanlegum viðræðum um nýjan mjólkursamning nú á haustdögum.

Hvað varðar leiðréttingu mjólkurverðs vegna kostnaðarhækkana, þá varð það niðurstaðan að hækka mjólkurverð um 7 % frá 1. nóvember sl. Mjólkursamlögin tóku á sig hækkunina til áramóta. Umrædd hækkun dugði ekki til að mæta öllum kostnaðarauka við framleiðsluna sem orðið hafði vegna verðbólgu, og var mismunur í grundvellinum sem nemur ca. 50 aurum á líter.

Við það er miðað að næsta leiðrétting á mjólkurverði verði um næstu áramót. Hafa ber í huga að við verðlagningu undangengin missiri hefur mjólkuriðnaðurinn ekki fengið uppi bornar allar hækkanir sem framreikningur á verðlagsmódeli iðnaðarins hefur mælt. Afkoma iðnaðarins hefur hins vegar verið  það góð að hægt hefur verið að láta hann taka á sig hluta af hækkunarþörfinni. Ekki liggur fyrir samræmt uppgjör iðnaðarins fyrir árið 2001, en telja verður líklegt að það sýni versnandi afkomu frá árunum 1999 og 2000 sem nemur hundruðum milljóna. Því er ólíklegt að við næstu verðlagningu verði hægt að ganga mikið lengra í að láta mjólkuriðnaðinn taka á sig verðhækkanir. Viðhorf gagnvart verðbreytingum hefur breyst talsvert síðustu mánuði og því ekkert gefið um það hvernig gengur með leiðréttingar á mjólkurverði um næstu áramót. Það er hins vegar ljóst að kúabændur lenda í miklum erfiðleikum ef mjólkurverð verður ekki leiðrétt í samræmi við kostnaðarhækkanir. Fjárhagslegt þanþol flestra kúabænda er mjög takmarkað.

Í framhaldi af ályktun síðasta aðalfundur og raunar fyrri funda, um fyrirkomulag beinna greiðslna og útreikning greiðslumarks, hélt stjórnin áfram umfjöllun um málið. Gerð var tillaga um málið til Framkvæmdanefndar búvörusamninnga og síðan var sú skipan fest í reglugerð. Svokölluð C-greiðsla er áfram 15 %, en skiptingu á mánuði breytt til að stuðla að jafnari innvigtun. Þá var einnig gerð tillaga um breytingu á reglugerð þess efnis að sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn. Landbúnaðarráðuneytið taldi ekki fært að verða við þeirri beiðni.

Eftir útkomu RANNÍS-skýrslunnar sl. haust ákvað stjórn LK að gangast fyrir vinnu að stefnumörkun fyrir nautgriparæktina. Stjórn félagsins og fulltrúar LK í fagráði nautgriparæktar hafa unnið að verkinu og einnig var það rætt á formannafundi sl. vetur. Segja má að til hliðar og í framhaldi af þeirri vinnu hafi komið fram sú skoðun að rétt væri að óska eftir nokkurri flýtingu á gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Málið var rætt á vettvangi Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Einnig fóru fram nokkrar viðræður við stjórnvöld. Í sumar var síðan sent formlegt erindi þar sem óskað er eftir því að viðræður um næsta mjólkursamning hefjist sem fyrst og stefnt að því að ljúka samningagerð fyrir áramót. En hvers vegna nýjan samning nú ?

Meginrökin eru þau að það skiptir nautgriparæktina mjög miklu máli að hafa á hverjum tíma sem skýrasta framtíðarsýn.  Í samningi bænda við ríkisvaldið er samið um stuðning ríkisins við mjólkurframleiðsluna, tollvernd, og helst leikreglur framleiðslustýringar í greininni, en þetta eru grundvallaratriði fyrir bændur í allri ákvarðanatöku sinni. Í allri ákvarðanatöku sinni þurfa kúabændur að horfa til mjög langs tíma og öll vitum við að gerðar eru kröfur til þess að ákvarðanatakan sé vönduð. Til þess að svo geti orðið þurfa helstu forsendur að vera til staðar og þar eru þau atriði sem ákveðin eru í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar tvímælalaust mikilvægust. Ekki liggur fyrir hver afstaða stjórnvalda er til málsins og því ekki ljóst hvert framhaldið verður. Það er þó ljóst að tíminn til að gera þetta með þessum hætti er naumur og í reynd er spurningin um það hvort samkomulag næst um nánast óbreyttan samning. Það er líka rétt að gera sér grein fyrir því að ef þau sjónarmið sem að framan voru rakin um nauðsyn þess að semja í haust verða ekki þau sem ráða ferðinni, þá eru litlar líkur á að samið verði á næsta ári heldur. Líklegast er þá að ferlið fari í svipað horf og var í síðustu samningum þegar gengið var frá samningi í desember 1997 með gildistöku 1. september 1998. Þessi mál skýrast kannski strax með ræðu landbúnaðarráðherra hér síðar á fundinum, í öllu falli á allra næstu vikum.

Þau atriði sem um er samið í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar eru svo þýðingarmikil fyrir marga grundvallarþætti mjólkurframleiðslunnar að stjórn LK taldi einsýnt að ekki væru efni til að afgreiða á þessum fundi stefnumörkun nautgriparæktarinnar að öðru leyti en því sem felst í þeirri samþykkt sem gerð verður um áherslur í nýjum samningi. Stefnumörkunarvinnu verði að öðru leyti frestað.

Í tillögu þeirri sem stjórn LK leggur fyrir þennan aðalfund segir m.a.;
“Lögð er áhersla á að samningurinn verði framlengdur óbreyttur hvað varðar stuðning við mjólkurframleiðsluna og tollvernd. Sama gildir um leikreglur framleiðslustýringar, en fundurinn telur ástæðu til að skoðaðar verði eftirfarandi breytingar:

 Viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til endurskoðunar.
 Sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn.
 Heimilaður verði samrekstur greiðslumarkshafa þannig að hægt sé að nýta greiðslumark eins lögbýlis að hluta eða öllu leyti með framleiðslu á öðru lögbýli.

Sett verði ákvæði í samninginn um að nefnd samningsaðila geti gert breytingar innan rammans, ef um það næst full samstaða (samningsaðilar eru: Landbúnaðarrráðneyti, Fjármálaráðneyti, Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands). Með þessu fyrirkomulagi væri óvissu kúabænda að mestu eytt og jafnframt haldið opnum þeim möguleika að gera breytingar innan rammans ef samningsaðilar verða sammála um það.”

Í þessari síðust málsgrein er viðrað það nýmæli að semja um heildarrammann en að síðan verði hægt að gera breytingar innan hans á samningstímanum. Í ljósi þess að enn er nokkuð eftir af gildistíma núverandi samnings og margt óljóst um framhaldið hvað varðar alþjóðasamninga ofl., er eðlilegt að hafa möguleika á slíkum breytingum ef samningur verður gerður nú fljótlega.

Í aðdraganda þess að óskað var eftir viðræðum um nýjan samning hefur eðlilega verið skipst á skoðunum um það hvar nautgriparæktin stendur og hvert hún stefnir.

Eðlilega kemur upp spurningin hvort þörf sé á að viðhalda kvótakerfinu í mjólkurframleiðslunni. Hvort mjólkurframleiðslan geti ekki farið “fjárgötuna”,  það er lagt af framleiðslustýringu eins og gert hefur verið í sauðfjárræktinni ?  Gróflega reiknað er áætlaður framleiðslukostnaður hvers kílós af algengasta flokki kindakjöts hátt á fimmta hundrað krónur. Fyrir þann hluta framleiðslunnar sem fer á erlendan markað hefur bóndinn fengið að meðaltali ca. 170 – 180 kr/kg. Þegar gæðastýring í sauðfjárræktinni verður komin í umsamið hámark gæti greiðsla ríkisins á hvert útflutt kíló dilkakjöts sem þannig er framleitt numið nálægt 60 kr/kg. Gróft reiknað gæti sauðfjárbóndinn því fengið samanlagt fyrir útflutt dilkakjöt, um helming af reiknuðum framleiðslukostnaði. Þar sem ekki er í gangi reglubundinn útflutningur mjólkurafurða, eru ekki tiltæk sambærileg verð. Þó er ljóst að því fer fjarri að útflutningur mjólkurafurða skili þetta háu hlutfalli af framleiðslukostnaði enn sem komið er. Þar til betri markaðir finnast verðum við að horfast í augu við að framleiðsla mjólkur til útflutnings er ekki skynsamleg. Af því leiðir að óhjákvæmilegt virðist að viðhalda kvótakerfinu, enda hefur það vissulega tryggt einstaklega vel jafnvægi framleiðslu og sölu þann áratug sem það hefur verið notað.  Jafnframt er að sjálfsögðu nauðsynlegt að leyta áfram arðgæfra markaða erlendis fyrir sérvöru úr íslenskri mjólk.

Þá er líka eðlilegt að velta fyrir sér hvort betra sé að beina stuðningi ríkisins í annan farveg en nú er. Er þá horft til þess að greiða stuðning á hvern grip, ræktarland eða býli.

Að því er varðar stuðning á hvern grip eða hverja flatareiningu lands, þá virðist hvort tveggja óskynsamlegt. Þeirri grunnspurningu er ósvarað hvort verðlauna eigi fyrir fáa eða marga gripi, og fyrir fáa eða marga hektara lands. Þar fyrir utan þyrfti að setja upp sérstakt eftirlitskerfi ef nota ætti landið sem greiðslugrunn. Slíkt stuðningsform yrði augljóslega flóknara og ómarkvissara en það stuðningsform sem notað er í dag.

Hvað varðar hugsanlegan stuðning á hvert býli, sem yrði þá væntanlega sama upphæðin á þau öll, þá verður ekki séð að slíkt form leysi neinn vanda. Slíkur stuðningur yrði að sjálfsögðu að vera framseljanlegur milli jarða. Að því gefnu yrði það einvörðungu til skapa flækjur um hvaða jörð ætti rétt og hver ekki.  Þessu til viðbótar er veruleg hætta á að stuðningsformi af þessu tagi fylgi minnkuð tilfinning fyrir nauðsyn hagræðingar í greininni. Það gildir það sama um mjólkurframleiðsluna og Guðmundur Harðarson sagði nýlega um sundmennina: “Þeir sem ekki batna, dragast afturúr”.

Líklega eru þó þýðingarmestu rökin fyrir núverandi formi stuðnings við mjólkurframleiðsluna, að tryggt er að hver króna sem til þessa verkefnis er varið, kemur til lækkunar á vöruverði til neytenda. Það er sú grunnforsenda sem samkomulag varð um í þjóðarsáttinni um 1990 og hefur haldist svo síðan. Væri farið að greiða stuðning með einhverjum þeim hætti sem hér var nefndur, er vandséð hvernig tryggja ætti að slíkur stuðningur komi neytendum að fullu til góða.
 Niðurstaðan er þessi: Við búum við skipulag sem tryggir gott jafnvægi framleiðslu og sölu, skipulag sem tryggir þróunarmöguleika greinarinnar án handstýringar, skipulag sem tryggir að stuðningurinn kemur allur neytendum til góða. Á þessu er mikill skilningur á meðal bænda og góður stuðningur meðal þeirra við að fara fram á óbreytt skipulag í komandi samningum við ríkisvaldið.

Í tengslum við stefnumörkunina hefur að sjálfsögðu einnig verið litið til þess hvað aðrar þjóðir eru að gera. Samandregið má orða niðurstöðuna af því með þessum hætti;  Það er mikil óvissa um framtíðina. Það er óvissa um með hvaða hætti heimsviðskipti með búvörur munu fara fram og hvaða sameiginlegar skorður verða settar um stuðning einstakra þjóðríkja við sinn landbúnað. Það er mikil óvissa um hvaða leið Evrópusambandið fer með málefni landbúnaðar innan sinna vébanda. Stækkun sambandsins til austurs virðist óhjákvæmilega kalla á breytingar en hverjar þær verða er ekki ljóst. Áherslur einstakra ríkja eru breytilegar. Þannig fylgir Noregur talsvert annarri stefnu en Danmörk svo dæmi sé tekið. Raunar hafa verið verulegar umræður í Noregi um  norsku landbúnaðarstefnuna og virðist þeim fara fjölgandi sem telja að hún sé að sumu leyti komin í sjálfheldu stöðnunar. Þróun í mjólkurframleiðslu í Danmörku hefur verið mjög hröð og atvinnugrein öflug. Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir okkur að svo virðist sem danskir starfsbræður okkar sjái framtíðina þannig að afurðaverðið geti bara lækkað. Spurningin sé um hversu mikilli framleiðniaukningu sé mögulegt að ná í búrekstrinum, og hversu mikilli hagræðingu sé hægt að ná í mjólkuriðnaðinum. Aðeins þeir bændur sem séu nokkuð góðir fyrir og haldi áfram að bæta sig, geti haft von um viðunandi afkomu. Þetta sjónarmið er þess alvarlegra að danskir bændur virðast vera miklir raunsæismenn.

Í framhaldi af þessu er óhjákvæmilegt að minna á þá miklu umræðu sem orðið hefur síðustu mánuði um hugsanalega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Enginn vafi er á því að slík aðild myndi kollvarpa núverandi forsendum nautgriparæktar á Íslandi og liggur þá í augum uppi hver hlýtur að vera afstaðan til málsins. Hitt hefur raunar farið miklu hljóðar að í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sem Ísland er aðili að, kemur fram sá vilji að ræða frekari tollalækkanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli aðila samningsins. Því má segja að þótt okkur gangi heldur vel nú, þá er óvissa um framtíðina.

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2002, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Einnig þeim félögum mínum í stjórninni, þeim Birgi Ingþórssyni, Agli Sigurðssyni, Gunnari Sverrissyni, Kristínu Lindu Jónsdóttur, og varamönnunum, þeim Sigurgeir Pálssyni og Gunnari Jónssyni, sem og  Snorra Sigurðssyni, framkvæmdastjóra,  fyrir gott samstarf á liðnu starfsári.

Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

Þórólfur Sveinsson


Reikningar Landssambands kúabænda 2001
Snorri Sigurðsson lagði fram endurskoðaða reikninga L.K. og kynnti þá fyrir fundinum. Helstu liðir þeirra voru svohljóðandi:

Rekstrartekjur: 15.551.494,-
Rekstargjöld:17.499.521,-
Tap fyrir fjármagnsliði: 1.948.027,-
Fjármagnsliðir: 1.445.768,-
Tap ársins: 502.259,-

Niðurstaða efnahagsreiknings: 18.818.050,- (skuldir og eigið fé)
– þar af eigið fé: 17.845.156,-
Skuldir: 972.894,-

Heildargjöld afleysingasjóðs:  2.219.394
Vaxtatekjur: 515.545,-
Gjöld afleysingasjoðs umfram tekjur: 1.703.849.-
Skuldir og eigið fé í árslok: 4.296.111,-

Hann sagði afleysingasjóðinn ekki í góðri stöðu og sjóðurinn væri smásaman að éta sig upp.

Að endingu voru reikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða.

Ávörp gesta

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra
Guðni lýsti ánægju sinni yfir að vera staddur hér í Dölunum með kúabændum og hversu snyrtilegt væri um að litast hér um slóðir. Hann talaði um að samhugur væri í bændum á svæðinu þrátt fyrir varnarbaráttu. Hann óskaði Landssambandinu til hamingju með 16 ára farsælt starf og sagði félagsmenn baráttuglaða. L.K. hefði unnið mikla stefnumótun innan greinarinnar og hefði langa framtíðarsýn. Mikil þróun og uppbygging hefur átt sér stað kringum kúabúin og yngri hluti stéttarinnar framsýnn. Hann sagði miklivægt að trúa á framtíðina því landbúnaðurinn yrði alltaf undirstaða matvælaframleiðslu og við yrðum að hlúa og huga að lífskjörum framtíðarinnar. Leiðarljós greinarinnar í heild skiptir miklu en ekki síður samstaða kúabænda sjálfra. Allt annað væri að vinna með atvinnugrein sem markar sér stefnu síðan standa allir saman sem einn. Uppbygging greinarinnar lofar góðu en búin eru sífellt að stækka, þó þau séu reyndar ekki stór á heimsmælikvarða. Spurningin er hversu stórt má búið verða án þess að fólkið verði að þrælum þess en ekki hamingjusamar fjölskyldur í sveitum landsins.

Þessi þróun leiddi aftur til þess að kynslóðaskipti á jörðum verða  erfiðari. Er Lánasjóður landbúnaðarins nógu sterkur til að aðstoða bændur við kynslóðaskipti? Staða kúabænda er góð, samt misjöfn. Ungu bændurnir eru skuldugir en þeir eldri síður. Mikilvægt er að ganga svo frá málum að kynslóðaskipti geti átt sér stað. Afurðastöðvar, bankar, peningastofnanir eru að eignast bú, það er þróun sem hann vill síður sjá.

Landbúnaðarráðherra lýsti einnig áhyggjum af þróun nautakjötsframleiðslu og ljóst að hún þarf að standast samkeppni við til að mynda svína og kjúklingakjöt. Það þarf að finna út hvernig skal stýra nautakjötsframleiðslu í gæðastýrðu framleiðslukerfi.

Spurningum LK varðandi framlengingu á samningi var vel tekið innan ríkisstjórnarinnar en er ekki einfalt mál heldur flókin aðgerð. Það þarf að setja niður samstarfsnefndir, hefja viðræður og gæta samræmis við alþjóðasamþykktir; bæði þær sem nú eru í gildi og þær sem fyrirhugaðar eru.

Við skipum okkur á bekk með þjóðum sem vilja landbúnað í sínu landi og komum til með að halda því áfram. Íslensk stjórnvöld eru aftur á móti komin að efri mörkum þess sem hægt er að veita bændum í beinan framleiðslustuðning og geta ekki gengið lengra án þess að eiga kæru yfir höfði sér. Aðalatriðið er þó að nýr samningur verði sem hagstæðastur kúabændum. Það gæti þurft að beina framleiðslustuðningnum yfir á önnur svið, grænni og grænni.

Ráðherra vék einnig að samanburðatilraun kúastofna sem stóð til að framkvæma og taldi að það hefði orðið hollt tímabil. Búkolla hefði ekki þurft að verða undir þótt tilraunin hefði verið framkvæmd, hún hefði bara orðið enn sterkari. Ráðherra taldi að óhjákvæmilegt hafi verið að hafna umsókn NRFÍ um innflutning fósturvísa þar eða sú tilraun hefði orðið náttúrulegt slys og hann vildi ekki vera sá landbúnaðarráðherra sem leyfði slíkt. Hann varð því að hafna beiðni þessara framsýnu manna. Hann vill halda áfram að styrkja íslensku kúnna og sér ekki fyrir að innflutningur á öðru erfðaefni verði leyfður í bráð. Að endingu bað hann þess að heill og hamingja myndi fylgja íslenskum kúabændum.

Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar Alþingis
Þakkaði boðið og það að fá að fylgjast með fundinum. Veit það sem kúabóndi að mikið brennur á fólki. Undanfarið hafa orðið miklar breytingar í greininni og aldursamsetning í salnum sýni það að ungum kúabændum sé að fjölga. Það sé farsæl þróun. Metnaður í mjólkuriðnaði hérlendis er mikill og einstætt hvað hann er framarlega. Mjólkurafurðir eru líka í tísku hjá ungu fólki og má þar helst nefna skyr. Hún telur mikilvægt að hafa óbreyttan samning til langs tíma og ekki ástæða til að breyta því sem vel gengur og er farsælt. Óskar fundarmönnum alls góðs og farsældar handa kúabændum.

Ríkharð Brynjólfsson, prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri
Byrjaði á að flytja fundinum kveðju Magnúsar B. Jónssonar rektors Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Hann greindi frá þeim breytingum sem hafa orðið á starfsemi  Landbúnaðarháskólans á síðustu árum. Aðsókn að skólanum er góð og má nefna að nám umhverfisskipulagi annar ekki eftirspurn. Skólinn býður upp á námskeið fyrir starfandi bændur og eru þau nauðsynlegur þáttur í tengingu milli skólans og atvinnuvegarins. Allir starfsmenn geirans undir einu eyki. Mikið er unnið að því að efla samstarf fagstofnana landbúnaðarins og það kemur til að verða nánara á næstu misserum. Samstarfssamningur milli Rala og LBH miðar að því að stofnanirnar starfi saman sem ein heild, þó sem tvær stofnanir. Að endingu óskaði hann fundinum árnaðar í starfi.

Bjarni Guðmundsson formaður stjórnar Framleiðnisjóðs
Þakkaði fyrir boð á fundinn og samstarf við L.K. fyrir hönd Framleiðnisjóðar. Ræddi um framtíðarsýn og vill sjá hana lengra fram á veginn því enginn efast um árangur framtíðarinnar. Ræddi stuðning við leiðbeiningarþjónustuna og flutning Búnaðarsamtaka Vesturlands að Hvanneyri. Óskaði fundinum heilla.

Haraldur Benediktsson. Formaður Búnaðarsamtaka Vesturlands
Bauð fundargesti velkomna á Vesturlandi, þakkaði samstarfið við L.K. á liðnum árum og vonar að það verði meira í framtíðinni. Fagnar flutningi L.K. að Hvanneyri og ræddi flutning Búnaðarsamtaka Vesturlands að Hvanneyri.

Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands
Þakkaði boðið á fundinn og samstarfið við L.K. Ræddi um athyglisverð umskipti sem hafa átt sér stað í verðlagsnefnd. ASÍ fór út fyrir 5 árum en er nú komið inn aftur. Mikilvægt fyrir landbúnaðinn að traust samstaða haldist. Það er þó ekki sjálfgefið að samstaða náist um hærra mjólkurverð en víst er að samstaða um teknar ákvarðanir verður meiri.

Ari lagði til að áfram verði unnið faglega að samanburði íslenska kúakynsins við önnur kúakyn. Næsta skrefið yrði að leita að rétta kyninu, flytja það inn í samvinnu við Rala og gera rannsóknir á því. Hann nefndi svartskjöldóttar írskar kýr sem dæmi um hugsanlegan stofn til innflutnings. Að minnsta kosti ljóst að það þarf að velta þessu fyrir sér upp á nýtt. Starfsumhverfi greinarinnar er það sem skiptir mestu máli. Hann benti á að ákveðið ákvæði er snýr að kvótaviðskiptum í núverandi samningi sé ekki fullfrágengið og mikilvægt sé vinna að því máli. Spurningin er hvort fullrúar ríkisins hefðu haft ástæðu fyrir þessu á sínum tíma, sem sagt að kvótinn yrði of dýr. Það hefur reyndar reynst svo því í dag er hann á um 200 krónur lítrinn. Ef þetta yrði framtíðarfyrirkomulag þá yrði varanlegur kostnaður á lítra 14 krónur (m.v. 7% vexti). Ef að þetta snéri aðeins að hagræðingu þá væri þetta í lagi en ef þetta er framtíðarsýnin þá er þetta einfaldlega of erfitt fyrir greinina. Í dag á sér stað alvarleg skuldasöfnun kúabúa. Það er í lagi svo framarlega sé um að ræða varanlegar eignir og góða nýtingu á fjármunum. Ari ræddi einnig kvótaviðskipti í samhengi við byggðaþróun og taldi mikilvægt að kúabændur gerðu sér grein fyrir þeim afleiðingum sem frjáls kvótaviðskipti gætu haft á byggðamál til lengri tíma litið. Hann taldi hugsanlegt að huga að því að færa hluta ríkisstuðnings til mjólkurframleiðenda frá beinum greiðslum til svokallaðra grænna greiðslna. Að lokum óskaði hann fundinum alls góðs í störfum sínum.

Hádegishlé
 
Niðurstöður kjörbréfanefndar
Arnar Bjarni Eiríksson gerði grein fyrir áliti nefndarinnar. Eftirtaldir fulltrúar voru mættir:
Frá Mjólkursamlegi Kjalarnesþings:
Magnús Hannesson, Eystri Leirárgörðum
Ásthildur H. Skjaldardóttir, Bakka, varamaður

Frá Mjólkurbúi Borgfirðinga:
Ásbjörn Pálsson, Syðri Haukatungu II
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Jón Gíslason, Lundi

Fá Mjólkursamlaginu í Búðardal:
Lára Hansdóttir, Á
Bragi Konráðsson, Galtartungu

Frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga:
Árni Brynjólfsson, Vöðlum

Frá Nautgriparæktarfélagi Vestur Húnavatnssýslu:
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka

Frá Félagi kúabænda í Austur Húnavatnssýslu:
Magnús Sigurðsson, Hnjúki

Frá Félagi kúabænda í Skagafirði:
Þórarinn Leifsson, Keldudal
Sævar Einarsson, Hamri
Pálmi Ragnarsson, Garðakoti, varamaður

Frá Búgreinaráði BSE í nautgriparækt:
Þorsteinn Rútsson, Þverá
Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku
Guðbergur E. Eyjólfsson, Hléskógum
Jóhannes Jónsson, Espihóli, varamaður

Frá Félagi þingeyskra kúabænda:
Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum
Erlingur Teitsson, Brún
Marteinn Sigurðsson, Kvíabóli, varamaður

Frá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:
Jón Steinar Elísson, Hallfreðarstöðum II
Halldór Sigurðsson, Hjartarstöðum, varamaður

Frá Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar:
Halldór Georgsson, Síreksstöðum

Frá Nautgriparæktarfélagi Austur Skaftafellssýslu:
Eiríkur Egilsson, Seljavöllum

Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi:
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Sveinn Ingvarsson, Reykjum
Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti
Kristinn Guðnason, Þverlæk
Grétar Einarsson, Þórisholti
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru Mástungu I
Sigulaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Jóhann Nikulásson, Stóru Hildisey, varamaður


Umræður um skýrslur og reikninga
Sigurlaug Leifsdóttir bað um skýringar á greiðslum viðkomandi afleysingasjóðnum

Pétur Diðriksson þakkaði stjórn L.K. vel unnin störf á síðastliðnu ári. Hann talaði um að stjórnvöld væru hliðholl greininni og kúabændur yrðu að standa sig innan þess ramma. Hann lítur svo á að niðurstöður varðandi NRF eigi aðeins við þetta eina verkefni og ekki sé þar með sagt að hætta eigi að þróa nautgriparæktina. L.K. verði að halda áfram að tala um hvað skuli gera í áframhaldandi þróun og hagræðingu. Er á því að hlutaðeigandi aðilar verði að tala saman með opnum hug því hagræðing verði að eiga sér stað. Hann telur núverandi styrkjafyrirkomulag það hagstæðasta og velti því upp að við erum hreint ekki samkeppnishæf við aðrar þjóðir hvað varðar verð á mjólk til útflutnings. Einnig vék hann að nautakjötsframleiðslu og sagði greinina þurfa styrki ef hún ætti að lifa.

Jón Steinar Elísson
Þakkaði L.K. fyrir vel unnin störf á síðastliðnu ári. Vill beina því til fundarstjóra að halda dagskrá.

Fundarstjóri gerði grein fyrir ástæðum seinkunar.

Sigurður Loftsson
Þakkaði stjórn L.K. vel unnin störf á síðastliðnu ári. Hann fagnar umræðum formanns landbúnaðarnefndar um óbreyttan samning og kveðst vera sama sinnis. Hann ræddi stöðuna gagnvart WTO og það skipti máli hvað kemur frá okkur. Þurfum að finna út starfsskilyrði íslenskrar mjólkurframleiðslu. Hann lýsti áhyggjum sínum varðandi þróun í sölu á nautgripakjöti. Spurningin er viljum við framleiða úrvals nautakjöt eða ekki, ef til vill ætti að skipta smásölukökunni öðruvísi upp.

Jón Gíslason
Talaði um að þær umræður sem þegar hefðu farið fram varðandi framlengingu á samningnum vektu hjá honum meiri bjartsýni á því að svo gæti orðið. Hann sagði viðbrögð stjórnvalda skiljanleg og taka þyrfti tillit til WTO í þessu samhengi. Hann taldi að markaðurinn myndi sjálfur sjá um hagræðingu. Finna þarf stuðningi við greinina annan farveg og sér ekki hvernig núgildandi samningur getur haldið þegar WTO samningar koma til. Hagræðing í stækkun búa er erfið en mun skila sér og kvótakerfið á að hans mati ríkan stuðning meðal bænda. Hann telur að þessi fundur eigi að senda frá sér skýr skilaboð varðandi kvótamál. Að lokum varpaði hann fram tveim fyrirspurnum, annars vegar varðandi litla ásókn í þróunarfé og hins vegar varðandi stöðu mála í ræktunarátaki á íslensku kúakyni.

Bragi Konráðsson
Kom með fyrirspurn varðandi reikninga

Guðbergur Egill Eyjólfsson
Taldi óþarfa svartsýni í mönnum og vék örlítið að NRF málum.

Snorri Sigurðsson
Svaraði framkomnum fyrirspurnum varðandi reikninga.

Þórólfur Sveinsson
Lagði áherslu á að áherslur fagráðs rúmuðu mun fleiri verkefni. Vilja koma í gang vinnuverkefni, vantar til þess fleiri fagmenntaða! Hann hefur, eins og fleiri fundarmenn áhyggjur af framtíð nautakjötsframleiðslu og ekki bæti það stöðuna þegar verð á bestu flokkunum á að lækka.

Guðni Ágústsson
Svaraði fyrirspurn Jóns Gíslasonar varðandi ræktunarátak á íslensku kúakyni og skýrði hvernig það leit út í hans huga. Hann ítrekaði einnig atriði úr ræðu sinni fyrr um daginn varðandi stöðu greinarinnar og komandi samningamál.

Afkoma kúabænda 2001 samkvæmt búreikningum.
Jónas Bjarnason forstöðumaður Hagþjónustu Landbúnaðarins flutti erindið.
Hann svaraði síðan þeim fyrirspurnum sem honum bárust.

Kaffihlé

Kynbótamat fyrir endingu mjólkurkúa
Baldur Helgi Benjamínsson, Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn flutti erindið.Hann svaraði síðan þeim fyrirspurnum sem honum bárust (tengdust flestar kynbótamarkmiðum greinarinnar).

Fyrirspurnir og umræður
Engin tók til máls

Tillögur kynntar og skipað í nefndir
Þórólfur Sveinsson kynnti þær tillögur sem lágu fyrir fundinum.

Skipan í nefndir:
Í starfsnefnd I voru eftirtaldir fulltrúar: Þórarinn Leifsson (formaður), Arnar Bjarni Eiríksson, Eiríkur Egilsson, Magnús Hannesson, Marteinn Sigurðsson, Pétur Diðriksson, Sveinn Ingvarsson og Þorsteinn Rútsson.

Í starfsnefnd II voru eftirtaldir fulltrúar: Sigurður Loftsson (formaður), Jóhannes Jónsson, Ásbjörn Pálsson, Kristinn Guðnason, Ásthildur H. Skjaldardóttir, Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Sævar Einarsson og Valdimar Guðjónsson.

Í starfsnefnd III voru eftirtaldir fulltrúar: Magnús Sigurðsson (formaður), Erlingur Teitsson, Grétar Einarsson, Lára Hansdóttir, Pálmi Ragnarsson, Sigurlaug Leifsdóttir, Skúli Einarsson og Gunnsteinn Þorgilsson.

Í starfsnefnd IV voru eftirtaldir fulltrúar: Jón Gíslason (formaður), Bragi Konráðsson, Guðbergur E. Eyjólfsson, Halldór Georgsson, Jóhann Nikulásson, Árni Brynjólfsson, Jón Steinar Elísson og Sigrún Ásta Bjarnadóttir.

Nefndir hófu störf um kl. 17.40 og fundi frestað til morguns.
 
Fundi framhaldið 21. ágúst kl. 13.00

Afgreiðsla mála
Tillögur frá starfsnefnd 1.
1.1 Ályktun um nýjan framleiðslusamning.
Framsögumaður Þórarinn Leifsson.
“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, leggur mikla áherslu á að sem fyrst verði gerður nýr samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, með gildistöku 1.9.2005”.

Greinargerð:
Núgildandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var gerður í desember 1997 og gildir fyrir tímabilið frá 1.9.1998 til 31.8.2005.
Í samningnum segir:
“Að fjórum árum liðnum frá upphafi gildistíma samningsins skulu samningsaðilar kanna framkvæmd hans og í framhaldi af þeirri könnun hefja viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings. Við þá vinnu skal m.a. lagt sérstakt mat á stöðu kvótakerfisins og hvort, hvernig og þá hvenær leggja á það niður og hvað taki þá við”.

Samkvæmt þessu ákvæði samningsins á vinna við könnun á framkvæmd samningsins að hefjast í haust og í framhaldi af þeirri könnun skal hefja vinnu við gerð nýs samnings. Nú hafa Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands óskað formlega eftir því að þessu ferli verði nokkuð flýtt og að því stefnt að nýr samningur liggi fyrir á þessu ári.

Í samningi bænda við ríkisvaldið er samið um stuðning ríkisins við mjólkurframleiðsluna, tollvernd, og helstu leikreglur framleiðslustýringar í greininni, en þetta eru grundvallaratriði fyrir bændur í allri ákvarðanatöku sinni og að sjálfsögðu skiptir það nautgriparæktina mjög miklu máli að hafa á hverjum tíma sem skýrasta framtíðarsýn.

Margt virðist óljóst varðandi starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar  á komandi árum. Þannig ríkir veruleg óvissa um hvernig staðið verður að heildsöluverðlagningu mjólkurvara eftir 30. júní 2004 og hvaða áhrif  áformuð niðurfelling opinberrar verðákvörðunar hefur á stöðu mjólkuriðnaðarins gagnvart samkeppnislögum. Í því sambandi er mikilvægt að ljóst sé hvaða möguleika mjólkuriðnaðurinn hefur á verkaskiptingu sín í milli með þeirri hagræðingu sem því getur fylgt.

Þá er óvissa  um þróun WTO samninga og því óljóst um áhrif þeirra  varðandi stuðning við landbúnað. Einnig fer nú fram víðtæk umræða um landbúnaðarstefnu Evrópusambandsinsins. Allt þetta eykur þá óvissu sem íslenskir mjólkurframleiðendur standa frammi fyrir þegar núgildandi samningur um starfsskilyrði rennur út.

Lögð er áhersla á að samningurinn verði framlengdur óbreyttur hvað varðar stuðning við mjólkurframleiðsluna og tollvernd. Sama gildir um leikreglur framleiðslu-stýringar, en fundurinn telur ástæðu til að skoðaðar verði eftirfarandi breytingar:

 Viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til skoðunar.
 Sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn.
 Heimilaður verði samrekstur greiðslumarkshafa þannig að hægt sé að nýta greiðslumark eins lögbýlis að öllu leyti með framleiðslu á öðru lögbýli.

Sett verði ákvæði í samninginn um að nefnd samningsaðila geti gert breytingar innan rammans, ef um það næst full samstaða (samningsaðilar eru: Landbúnaðarrráðneyti, Fjármálaráðneyti, Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands). Með þessu fyrirkomulagi væri óvissu kúabænda að mestu eytt og jafnframt haldið opnum þeim möguleika að gera breytingar innan rammans ef samningsaðilar verða sammála um það.

Til máls tóku: Jón Gíslason (leggur til viðbót við greinargerðina; viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til skoðunar en viðskipti með það áfram heimil), Þórarinn Leifsson (skýrði betur niðurstöður nefndarinnar, stóð aldrei til að banna kvótaviðskipti), Kristín Linda (hvatti til frekari umræðna um tillöguna), Jón Gíslason (velti því upp hvar nýr samningur myndi helst stranda; á kvótakerfið fullan stuðning hjá valdhöfum?), Egill Sigurðsson (vill halda sig við að endurnýja samninginn eins og hann er, ekki byrja með annað í farteskinu), Sigurður Loftsson (setur spurningarmerki við annan lið án athugasemdar, stefna að óbreyttum samningi), Kristín Linda (vill vita hversu langt fundarmenn vilja ganga í breytingum á samningum ef til þeirra kemur), Þórólfur Sveinsson (minnir á ágreining um fyrirkomulag í kvótaviðskiptum í núverandi samn. gæti komið upp sem ágreiningsmál. Einnig alþjóðasamningar. Telur ólíklegt að nýr samningur með einhverjum meiriháttar breytingur náist fyrir þingslit næsta vor. Sammála viðbót Jóns Gíslasonar við greinargerðina), Valdimar Guðjónsson (jákvætt hjá Guðna að það ætti ekki að stórminnka framlög, gætu aftur á móti orðið á öðru formi en nú er).

Breytingartillaga: liður 1 í greinargerð hljóðar svo: viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til skoðunar en viðskipti með það áfram heimil. Að öðru leyti er tillagan óbreytt.

Samþykkir: 30, engin á móti.
Tillagan samþykkt samhljóða.

1.2. Ályktun um stefnumörkun fyrir nautgriparæktina
Framsögumaður: Þórarinn Leifsson

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, felur stjórn að vinna áfram að stefnumörkun fyrir nautgriparæktina. Byggt verði á RANNÍS-skýrslunni, innsendum athugasemdum og þeirri vinnu sem unnin hefur verið nú þegar. Málið verði síðan tekið fyrir á næsta aðalfundi”.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillögur frá starfsnefnd 2:

2.1. Ályktun um eflingu á þjónustu við nautgriparæktina
Framsögumaður: Sigurður Loftsson

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, leggur áherslu á að Bændasamtök Íslands efli þjónustuna við nautgriparæktina með hliðsjón af hlutdeild hennar í verðmætum búvöruframleiðslunnar, t.d. með því að nýta fagstofnanir landbúnaðarins og einkaaðila.
Jafnframt ítrekar fundurinn fyrri ályktanir um mikilvægi þess að sameina leiðbeiningaþjónustuna þannig að allir kúabændur sitji við sama borð”.

Til máls tóku: Pétur Diðriksson (ítrekar mikilvægi þessarar tillögu)
Tillagan samþykkt samhljóða

2.2 Ályktun um endurskoðun á lagaumhverfi landbúnaðarins
Framsögumaður: Sigurður Loftsson.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, telur nauðsynlegt að endurskoða allt lagaumhverfi landbúnaðarins vegna þeirra breytinga sem eru að verða á eignarhaldi og rekstrarformi í búgreininni, þar sem það er í auknum mæli að færast í hendur lögaðila. Þá telur fundurinn óeðlilegt að Lánasjóður landbúnaðarins sé skyldaður til að krefjast 1. veðréttar í eignum sem veðsettar eru vegna óniðurgreiddra lánveitinga”.

Engin tók til máls.
Tillagan samþykkt samhljóða

2.3 Ályktun um reglur um meðhöndlun greiðslumarks ríkisjarða
Framsögumaður: Sigurður Loftsson.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að hún hlutist til um að mótaðar verði skýrar reglur um meðhöndlun greiðslumarks ríkisjarða, falli framleiðsla þar niður við lok ábúðar eða með öðrum hætti og þeim jafnframt fylgt fast eftir”.

Til máls tóku: Sveinn Ingvarson (vill sleppa síðari hluta tillögunnar).
Henni breytt á þann veg að: “og þeim jafnframt fylgt fast eftir” er fellt út.

Tillagan samþykkt
 
 2.4. Ályktun um innvigtun mjólkur í mjólkurbíla.
Framsögumaður: Sigurður Loftsson.
 
“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði að beita sér fyrir því  að öll mjólk frá framleiðendum sé innvigtuð með rafrænum hætti við dælingu í mjólkurbíl”.

Engin tók til máls.

Tillagan samþykkt samhljóða.
 
Tillögur frá starfsnefnd 3.

3.1. Ályktun um útboð á tryggingum og fella niður gjald til Bjargráðasjóðs
Framsögumaður: Skúli Einarsson

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að kanna hagkvæmni þess að bjóða út tryggingar vegna stóráfalla hjá kúabændum á frjálsum markaði en á móti komi að búnaðargjald til Bjargráðasjóðs verði fellt niður”.

Til máls tóku: Sigurður Loftsson (er einhvers konar uppsöfnun á fé kúabænda í sjóðnum og er þá hægt að nýta hana?), Snorri Sigurðsson (bjargráðasjóður hefur allt sundurliðað en veit ekki hvort það er geymt á milli ára), Ari Teitsson ( upplýsti fundinn um að svo væri, benti á að gjaldið hefði lækkað um helm.), Sigurður Loftsson (reglugerð um tjónabætur, þarf fyrst og fremst að vera gegn stóráföllum), Ari Teitsson(skýrði betur uppbyggingu Bjargráðasjóðs), Snorri Sigurðsson (L.K. hefur fengið reglurnar árlega; hafa breyst frá ári til árs).

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.2. Ályktun um verð á nautgripakjöti til bænda.
Framsögumaður: Sigurlaug Leifsdóttir

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, lýsir óánægju sinni með að ekki skuli hækkað verð á bestu flokkum kýrkjöts og nautakjöts. Líkt og spáð var í vor er framboð nú mjög lítið og lýsir aðalfundurinn furðu sinni á því að lögmál framboðs og eftirspurnar skuli ekki gilda í viðskiptum með nautgripakjöt.
Fundurinn krefst þess að sláturleyfishafar endurskoði verð til bænda, þar sem um allnokkurt skeið má ætla að skilaverð til bænda standi ekki undir framleiðslukostnaði”.

Til máls tóku: Jón Gíslason (leggur til breytingu; “hækkað” en ekki “hækkuð” verð), Pétur Diðriksson (finnst að fólk sé ekki að átta sig á lögmáli framboðs og eftirspurnar; markaðurinn vill ekki borga meira fyrir kjötið! Vill sameina greinina til frekari styrkingar henni. Vandi greinarinnar sundrun afurðastöðvanna), Snorri Sigurðsson (ísl. nautgripakjötsframl. er eina í Evrópu sem er ekki ríkisstyrkt, erum í annarri stöðu en nágrannaþj), Sigurður Loftsson (megum ekki gleyma að það eru bændur sjálfir sem stjórna afurðastöðvum), Kristín Linda (ræddi áherslur stjórnarinnar varðandi nautgripakjöt; þarf að taka framleiðsluferlið alveg í gegn), Sigurlaug Leifsdóttir (vill ekki tengja kjötið og mjólkina saman ef til kæmu styrkir á kjötið), Þórólfur Sveinsson (helm. af nautgripakj. verið fylgifiskur mjólkuframl. Mikil fækkun kúa undanfarin ár hefur áhrif á framboð. Biðlistar oft verið ofmetnir. Spurning: hvað græðum við á að hætta framleiða nautakjöt, hvar liggja þessi mörk? þurfum að sýna lit varðandi stuðning við greinina), Kristinn Guðnason (maðmarupphenging á kjöti; vill að stjórnin beiti sér fyrir að þessi aðferð verði notuð í afurðastöðvum, betri flokkun á kjötinu), Snorri Sigurðsson (leggur til að formuð verði tillaga beint til stjórnar með þann þátt sem felldur var út úr uppjaflegu tillögunni)
Afgreiðslu tillögu frestað.

3.3. Ályktun um breyttan fundartíma á aðalfundi L.K.
Framsögumaður: Grétar Einarsson

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, ákveður að aðalfundur næsta árs verði haldinn fyrir miðjan apríl 2003. Stefna skal jafnframt að því að halda árshátíð kúabænda í beinu framhaldi af fundinum”.

Til máls tóku: Sigrún Ásta Bjarnadóttir (benti á að dagskráin yrði að vera markviss, annars góð tillaga), Snorri Sigurðsson (skýrði betur tilgang breytingar; t.a.m. pressa á aðildarfélög varðandi tímasetningar þeirra á fundi), Erlingur Teitsson (hugmynd um að flytja fundinn fram, hér ætti líka að fylgja fastari staðsetning fundarins; 1-2 staðir), Gunnar Sverrisson (skólarnir pressa svo í ágúst, nauðsynlegt að færa), Þórólfur Sveinsson         (nauðsynlegt að færa fundartíma. Kemur til með að breyta vinnutempói félaganna til hins betra), Jón Gíslason (annmarki vegna greinar í lögum um kjör fulltrúa á fundinn), Kristín Linda (aðildafélögin geta þess vegna kosið um fulltrúa árið áður, ekki fyrirstaða).

Með:31
Á móti: 1
Tillagan samþykkt 

3.4. Ályktun um fundalaun vegna aðalfundar.
Framsögumaður: Erlingur Teitsson.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, ákveður að fundalaun vegna aðalfundar 2002 hækki um 5% og verði kr. 18.375,-“.

Til máls tók: Guðbergur Egill Eyjólfsson.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.5. Ályktun um laun stjórnarmanna L.K.
Framsögumaður: Erlingur Teitsson.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, ákveður að laun almennra stjórnarmanna skuli vera virði 100 ltr. mjólkur á mánuði auk 50.000,- króna eingreiðslu á ári. Laun stjórnarformanns skulu vera virði 950 ltr. mjólkur á mánuði”.

Til máls tóku: Þórólfur Sveinsson (skýrði innihald tillögunnar betur), Pétur Diðriksson (velti fyrir sér vinnuálagi á stjórnarmenn), Þórólfur Sveinsson.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.6. Ályktun til stjórnar um nautgripakjötsframleiðslu.
(Viðbótartillaga við tillögu 3.2.).
Framsögumaður: Sigurlaug Leifsdóttir.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst beinir því til stjórnar L.K. að leita leiða, í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið, til að tryggja nautgripakjötsframleiðslu í landinu”.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.2. var lesin upp á ný og borin upp til samþykktar með breytingu þeirri sem Jón Gíslason lagði til á orðavali.

Samþykkt samhljóða.

Snorri Sigurðsson lagði fram og kynnti fjárhagsáætlun Landssambandsins. Engar athugasemdir voru gerðar við hana og hún samþykkt samhljóða.

3.6. Ályktun um samræmingu við mat á nautakjöti.
Framsögumaður: Magnús Sigurðsson.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til Yfirkjötmats ríkisins að mat á nautgripakjöti verði betur samræmt á landsvísu heldur en nú er. Ljóst virðist að óeðlilegt misræmi er á milli sláturhúsa hvað þetta varðar”.

Tillagan samþykkt samhljóða

Tillögur starfsnefndar 4.

4.1. Ályktun um viðbragðsáætlun gagnvart smitsjúkdómum í búfé
Framsögumaður: Jón Gíslason.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002,  leggur mikla áherslu á að jafnan sé tiltæk viðbragðsáætlun um hvað gera skuli ef grunur kemur upp um smitsjúkdóma í búfé, eða ef alvarlegur smitandi sjúkdómur er staðfestur. Slík viðbragðsáætlun þarf að taka til allra þátta málsins s.s. viðkomandi bónda, nágrennis, opinberra aðila, afurðastöðva og þjónustuaðila”.

Til máls tóku: ÞorsteinnRútsson ( mikilvægt að gæta vel að þrifnaði og hann eigi sér stað sem næst viðkomandi sláturhúsi), Kristín Linda (vill sjá fleiri tillögur í þessu samhengi frá fundinum), Jón Gíslason (tillagan fjallar eingöngu um viðbrögð við hættuástandi, á móti viðbót við hana á þessum nótum), Þórarinn Leifsson (styður tillöguna; slíkt ástand flókið því ekki nógu ljóst hver á að gera hvað, bóndans að sanna að búið sé hreint á ný, hvernig skal standa að því?).
Tillagan samþykkt samhljóða.

4.1. Ályktun um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Framsögumaður: Jón Gíslason.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, telur aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki koma til greina, hvorki af viðskiptalegum ástæðum né menningarlegum”.

Til máls tóku: Guðbergur Egill Eyjólfsson (spurði hvað átt væri við með menningarleg), Jón Gíslason (skýrði frekar), Pétur Diðriksson (ekki sammála þessari framsetningu, finnst sem verið sé að loka hurðum…), Þórólfur Sveinsson (minnti á þær ályktanir landbúnaðarins sem hafa áður verið gerðar í þessu samhengi), Gunnar Sverrisson (erum ekki mikið nær með að meta okkar stöðu, höfum ekki forsendur til annars en að vera á móti), Snorri Sigurðsson ( telur vænlegra að greinargerð fylgi þessari tillögu), Jón Gíslason, Ari Teitsson (skýrði frá nefnd sem utanríkisráðherra skipaði til að fjalla um þau áhrif sem Evrópusambandaðild kæmi til með að hafa á íslenskan landbúnað. Þurfum að nota hvert tækifæri til að setja fram okkar afstöðu á sem skýrastan hátt), Gunnsteinn Þorgilsson (skilgreina tillöguna betur, fella út seinni hluta hennar; hvorki af viðskiptalegum ástæðum né menningarlegum).

Ákveðið að fella út hluta tillögunnar og semja greinargerð með henni.
Afgreiðslu tillögu frestað.

4.3. Ályktun um framkvæmd búvörusamninga.
Framsögumaður: Jón Gíslason.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002,  beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands og Landbúnaðarráðuneytis að skoða það sérstaklega hvort eðlilegt sé að Bændasamtökin hafi með höndum framkvæmd búvörusamninga”.

Greinargerð:
Á síðastliðnu hausti komu upp lögfræðileg álitamál um framkvæmd mjólkuruppgjörs verðlagsársins 2000-2001 sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi mál hafa vakið upp spurningar um stöðu Bændasamtakana sem í þessu máli hafði stöðu stjórnvalds gagnvart umbjóðendum sínum.

Til máls tóku: Sigurður Loftsson (skýrði frekar innihald tillögunnar), Birgir Líndal Ingþórsson ( skýrði einnig forsendur tillögunnar), Egill Sigurðsson    (mælir með samþykkt tillögunnar), Ari Teitsson (skýrði stöðu Bændasamtakanna í málum sem þessum), Eiríkur Egilsson (á móti tillögunni, samningurinn á  milli bænda og ríkisvaldsins), Sigurður Loftsson, Magnús Sigurðsson (sammála Eiríki, hlutaðeigandi aðilar verða að vinna saman), Egill Sigurðsson (bendir á að tillagan fjalli um skoðun á þessum málum), Þórólfur Sveinsson (leggur til breytingu á greinargerð:
” þegar upp kemur ágreiningur af þessu tagi” í stað “sem í þessu máli hafði stöðu stjórnvalds gagnvart umbjóðendum sínum”.
Með tillögunni: 24
Á móti: 2

Tillagan samþykkt með breytingu Þórólfs á texta greinagerðarinnar.

4.4 Ályktun til stjórnar um tilfærslu á verðlagsáramótum.
Framsögumaður: Jón Gíslason

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að skoða kosti og galla þess að færa til verðlagsáramótin”.

Engin tók til máls.
Með tillögunni: 14.
Á móti:3.

Tillagan samþykkt.

4.5. Ályktun til stjórnar um ríkisfjármuni til jöfnunar ferðakostaðar dýralækna.
Framsögumaður: Jón Gíslason

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar að kannaðar verði ástæður þess að fjármunir sem settir voru af ríkinu til jöfnunar ferðakostnaðar dýralækna kláruðust í júlí í ár, en dugðu mun lengur á síðasta ári”.

Til máls tóku: Pétur Diðriksson (velti fyrir sér framkvæmd af hendi dýralæknisins), Bragi Konráðsson (svaraði vangaveltum Péturs), Kristín Linda ( hvatti til að þessi mál yrðu skoðuð nánar), Ari Teitsson (greiðslur byggjast á akstursskýrslum dýralækna).

Tillagan samþykkt samhljóða

4.6. Ályktun til stjórnar um virkt eftirlit með birgðahaldi dýralyfja.
Framsögumaður: Jón Gíslason

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, samþykkir að beina því til stjórnar LK að sent verði formlegt erindi til Heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytis varðandi nauðsyn á virku eftirliti með birgðahaldi dýralyfja hjá umboðs og innflytjendum”.

Greinargerð
Þar sem lyfjafyrirtækið Delta HF. hefur hætt framleiðslu á bórkalki og magnesíumsúlfati varð skortur á þessum lyfjum á liðnu vori. Samkvæmt gildandi verkreglum um innflutning lyfja þarf að koma beiðni til lyfjastofnunar frá notendum viðkomandi lyfs í þessu tilfelli frá dýralæknum til að stofnunin veiti leyfi til innflytjanda um innflutning. Þar sem enginn aðili virðist hafa á hendi eftirlit með lagerstöðu lyfja kláraðist lager íslensku framleiðslunnar áður en beiðni barst Lyfjastofnun. Þar er því ljóst að með óbreyttu fyrirkomulagi muni Lyfjastofnun ganga illa að uppfylla ákvæði lyfjalaga en í 1. kafla um markmið og yfirstjórn segir: “Markmið laga þessara er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum…”.
Engin tók til máls.

Tillaga samþykkt samhljóða.

4.7. Ályktun til stjórnar varðandi háan lyfja- og dýralæknakostnað.
Framsögumaður: Jón Gíslason.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, lýsir áhyggjum sínum af háum lyfja- og dýralæknakostnaði. Af því tilefni beinir fundurinn því til stjórnar að kanna verðmyndun í dýralyfjum, svo og að gera verðkannanir á þjónustu dýralækna”.
Engin tók til máls.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.2. um aðild Íslands að Evrópusambandinu tekin fyrir á ný með greinargerð og áður framkominni breytingartillögu.
Til máls tóku: Kristín Linda (varast ber að vera of sjálfhverf, þarf að virka vel í almenning, kom með tillögu að nýrri greinargerð), Guðbergur Egill Eyjólfsson ( benti á óskýrt orðalag í tillögunni), Valdimar Guðjónsson, Pétur Diðriksson (breytingartillögur Kristínar Lindu góðar).
Kristín Linda Jónsdóttir bar fram endanlega greinargerð með tillögu 4.2.

4.2. Ályktun um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, telur aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki koma til greina við núverandi aðstæður”.

Greinargerð:
Mikil óvissa er framundan um marga þætti í starfi og framtíðarstefnu Evrópusambandsins og jafnframt er ljóst að aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á starfsumhverfi íslenski landbúnaðar og þar með aðgengi íslenskra neytenda að innlendum matvælum. Í því sambandi má benda á:
 Fyrirhuguða stækkun Evrópusambandsins til austurs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
 Mörg alvarleg vandamál hafa komið upp innan Evrópusambandsins varðandi búfjársjúkdóma og matvælaöryggi neytenda.
 Að uppi eru misvísandi hugmyndir innan Evrópusambandsins um breytingar á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Ályktun til stjórnar.
Þorsteinn Rútsson bar fram tillögu til stjórnar varðandi þrifnað kringum eftirlits- og flutningsmenn á kúabúum.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að hún leiti samstarfs við Embætti yfirdýralæknis um setningu umgengnisreglna fyrir þá aðila sem sinna þjónustu á kúabúum”.

Tillagan samþykkt samhljóða    

Kosningar.

Gunnsteinn Þorgilsson kynnti fyrirkomulag kosninga stjórnarmanna.
Arnar Bjarni Eiríksson kynnti tillögur upptillingarnefndar að stjórn og skoðunarmönnum og síðan var kosið leynilegri kosningu.
Kosningu hlutu:
Formaður til eins árs:
Þórólfur Sveinsson Ferjubakka með 31 atkvæði
Meðstjórnendur til eins árs:
Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi með 31 atkvæði
Egill Sigurðsson, Berustöðum II með 32 atkvæði
Sigurður Loftsson Steinsholti með 32 atkvæði
Jóhannes Jónsson Espihóli með 27 atkvæði
1.varamaður til eins árs:
Gunnar Jónsson Egilsstöðum með 15 atkvæði
2.varamaður til eins árs:
Skúli Einarsson Tannstaðabakka með 14 atkvæði
Ógildir seðlar alls 6
Skoðunarmenn til eins árs kjörnir með lófataki:
Aðalmenn: Pétur Diðriksson Helgavatni og Magnús Hannesson Eystri-Leirárgörðum
Til vara: Kristján Finnsson Grjóteyri

Önnur mál
Arnar Bjarni vék að tillögu sem fékk ekki afgreiðslu í gær og vill beina henni eftir sem áður til stjórnar. Tillagan varðar flokkun nautakjöts.

“Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar að hún hlutist til um að kjötmat verði endurskoðað m.t.t. mismunandi kjötprósentu gripa af ólíkum kynjum”.

Engin tók til máls.
Samþykkir voru:12
Á móti: 8

Tillagan samþykkt með 12 atkvæðum.

Jón Steinar Elísson
Ræddi dagskrá gærdagsins og hvað hefði betur mátt fara. Vék að tillögu stjórnar frá síðasta stjórnarfundi (sem varðar frárennslismál) og talaði um að þessi mál séu fyrst og fremst mál bændanna sjálfa og þeirra nauðsyn að hafa þau á hreinu. Nauðsynlegt að huga að málum er snúa að þrifum og áróðurinn á fyrst og fremst að snúa að kúabændum sjálfum. Ræddi stefnumörkun í nautgriparækt og hans félag samþykkti að boða til fundar í haust til að skoða þessi mál í sameiningu. Ræddi NRF mál og mismunandi viðhorf/skoðanir manna. Ef innflutningur hefði verið samþykktur hefði án efa fengist fjármagn til að rannsaka íslensku kúna í þaula.

Kristín Linda Jónsdóttir
Þakkaði fulltrúum traustið varðandi stjórnarkosningu og góðan fund. Taka þarf allt fyrirkomulag fundarins til endurskoðunar og endurskipuleggja dagskrá hans. Gott að láta sem flesta nefndarmenn bera upp tillögur. Eru menn tilbúnir til að hafa haustfundi heima í héruðum? Á þeimværi hægt að fjalla um stefnumótun í nautgriparækt. Hvetur fundarmenn til að senda línur/myndir á vefina sem L.K. heldur úti.

Snorri Sigurðsson
Þakkaði fyrir góðan fund, fráfarandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og bauð nýja stjórnarmenn velkomna til starfa. Tók undir orð Jóns Steinars varðandi smithættu og varnir gegn smiti og ræddi það frekar.

Sigrún Ásta Bjarnadóttir
Velti upp hvort forritið Ískýr væri að virka eins og skyldi.

Snorri Sigurðsson
Svaraði Sigrúnu Ástu og útskýrði hvernig málin gagnvart Ískýr standa og hver framtíðarþróunin mun verða. Merkingar koma til með að liggja á netinu, skráningar og sæðingar einnig.

Sigurður Loftsson
Þakkaði Birgi og Gunnari fyrir þeirra störf i þágu kúabænda og það traust sem honum er sýnt með kosningu til stjórnarsetu.

Egill Sigurðsson
Þakkar traust í sinn garð við kosningu. Ræddi ástæðu þess að stjórn L.K.  ályktaði um frárennslismál.

Jón Gíslason
Talaði um að umræður þurfi að eiga sér stað, jafnvel þótt það sé innan fyrirspurnartíma um ákveðin mál. Sammála Kristínu Lindu um að það þurfi að styrkja vefina. Þakkaði að lokum fyrir góðan fund.

Ekki tóku fleiri til máls.

Þórólfur Sveinsson þakkaði traust í formannskjöri og býður nýja stjórnarmenn velkomna. Hann þakkaði Birgi og Gunnari fyrir samstarfið á liðnum árum. Þakkaði starfsmönnum fundarins fyrir þeirra störf og reiknar með að næsti aðalfundur verði 10. og 11. apríl næsta vor. Nauðsynlegt að ákveða fljótt. Þakkaði öllum fundarmönnum kærlega fyrir fundinn og sleit honum þar með kl. 18.50.

Þórunn Pétursdóttir, ritari Aðalfundar LK 2002