Beint í efni

Frumvarp um Land og skóg samþykkt í ríkisstjórn

13.03.2023

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu matvælaráðherra um að frumvarp um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar verði sent þingflokkum stjórnarflokkanna til umsagnar. Að því loknu verði það síðan lagt fyrir Alþingi. Með frumvarpinu er mælt fyrir um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar með þeim hætti að sett verði á fót ný stofnun sem sinna skuli verkefnum á sviði landgræðslu og skógræktar undir heitinu Land og skógur.

Lög um landgræðslu og lög um skóga og skógrækt muni þó gilda áfram með breytingum í tengslum við nýja stofnun. Báðar stofnanirnar hafa stórt og vaxandi hlutverk á sviði umhverfis- og loftslagsmála og hafa verið í samstarfi á fjölmörgum sviðum. Gæti sameining stofnananna því eflt þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra viðskiptavina.

Heildstæðari nálgun varðandi nýtingu lands getur jafnframt flýtt framgangi verkefna, m.a. í þágu loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Að auki myndast tækifæri til að hagnýta gögn og rekstur landupplýsinga sem stuðlar að öflugra rannsóknarstarfi.

Hér má nálgast skýrslu starfshóps um forathugun á sameiningu Landgræðslu og Skógræktar.