
Framtíðin vinnur með norskum bændum – ekki á móti
11.06.2008
Aðalfundur norsku bændasamtakanna, Norsk Bondelag, stendur nú yfir í Lillehammer. Alls eru um 300 manns á fundinum, frá búnaðarsamböndum og öðrum félögum auk fjölda gesta.
Bjarne A. Undheim formaður samtakanna sagði í setningarræðu sinni að norskir bændur standi á krossgötum um þessar mundir. Þrátt fyrir miklar sviptingar á mörkuðum og hækkandi aðfangaverð sagði Bjarne að möguleikarnir væru miklir á þessum breyttu tímum. Hann telur að bændur eigi að nýta sér þau sóknarfæri sem felast í stóraukinni eftirspurn eftir mat í heiminum. Ef þeim tekst það vinnur framtíðin með norskum bændum en ekki á móti.
Formaðurinn ræddi um norska búnaðarsamninginn sem hefur verið í endurskoðun um nokkurt skeið. Stór meirihluti félagsmanna samþykkti samninginn á dögunum en Bjarne lagði áherslu á að vel skipulagt félagskerfi og mikil vinna hefði skilað þeim góðum árangri í samningum við norska ríkið. Bjarne sagði að m.a. hefði náðst samkomulag til að mæta miklum verðhækkunum á tilbúnum áburði og kjarnfóðri.
Bjarne Undheim sagði í ræðu sinnu að ríkar kröfur yrðu gerðar til bænda á næstu árum og vinnuumhverfi þeirra kæmi til með að breytast. Nefndi hann í því sambandi kröfu samfélagsins um öfluga matvælaframleiðslu, loftslagsbreytingar, áherslu á umhverfismál, alþjóðasamninga og breytta landnotkun, m.a. vegna framleiðslu á lífrænu eldsneyti.
Aðalfundur Norsk Bondelag stendur yfir í tvo daga. Fyrirferðarmestu mál fundarins varða landbúnaðarpólitíkina innanlands, WTO- samninga, stöðu matvælaframleiðslu í heiminum og loftslagsbreytingar. Þá er stjórnar- og formannskjör fyrirliggjandi en Bjarne A. Undheim lætur af störfum eftir 6 ára formannstíð. Arftaki hans verður Pål Haugstad sem er meðlimur í Oppland Bondelag.
Í Norsk Bondelag, sem eru frjáls félagasamtök, eru rúmlega 61 þúsund bændur. Í fyrra jókst fjöldi bænda í samtökunum um rúmlega fimmhundruð.
Myndin er af Bjarne Undheim í ræðupúltinu.
/TB