Formaður LK gagnrýndi stjórnvöld harðlega
25.03.2011
Sigurður Loftsson, formaður LK, hefur nú flutt setningarræðu sína á aðalfundi Landssambands kúabænda. Í ræðu sinni fór Sigurður fyrir 25 ára sögu hagsmunabaráttu LK á Íslandi, en samtökin voru stofnuð 4. apríl árið 1986. Þá ræddi hann sérstaklega um það viðburðarríka ár sem er nú að baki, sem var greininni á margan hátt hagstætt. Veðurfar hafi víðast hvar verið með eindæmum gott og uppskera jarðargróða mikil að magni og gæðum og sagði svo áfram: „Eins hefur markaðssetning afurða gengið bærilega og mjólkurvörur haldið nokkuð sínum hlut á sama tíma og verulegur samdráttur er á dagvörumarkaði almennt. Sama gildir hvað nautakjötið varðar en aukning varð á sölu nautakjöts sem nemur nálægt 3% og verð til framleiðenda hækkuðu á árinu sem nemur 8 – 13%. Svipuð þróun hefur verið á nautakjötsverði erlendis og ætti áhrifa þess að gæta gagnvart innflutningi. Í raun er það svo um þessar mundir að eftirspurn eftir nautakjöti er umtalsvert umfram framboð. Þá virðist ásetningur nautkálfa á síðustu 12 mánuðum svipaður og árið á undan, þannig að tæpast er að vænta mikilla breytinga á framboði sláturgripa næstu misseri. Þarna ættu því að geta legið ónýttir vaxtarmöguleikar“.
Þróttlaust Alþingi
Sigurður gagnrýndi harðlega Alþingi vegna meðferðar þess á frumvarpsdrögum um breytingar á búvörulögum. „Forsenda þess að hægt sé að tryggja bændum það lögboðna lágmarksverð sem Verðlagsnefnd ákveður er sú að jafnvægi sé á markaði og þar leikur greiðslumarkskerfið lykil hlutverk. Greiðslumarkskerfið er einn helsti hornsteinn samningsins um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og eru búvörulög afar skýr hvað þetta varðar, þó ákvæði um eftirfylgni hafi þar vantað… Með frumvarpinu var áætlað að styrkja ákvæði 29. og 52. gr. laganna sem snúa að forgangi mjólkur innan greiðslumarks að innanlandsmarkaði. Málið fékk í meðförum Alþingis tvær umræður en var ekki afgreitt… Búvörulög eins og önnur lög landsins eiga að vera skýr og afdráttarlaus og gilda eins gagnvart öllum landsins þegnum. Alþingi Íslendinga ber að tryggja að svo verði, að öðrum kosti er grundvöllur mjólkurframleiðslunnar eins og við þekkjum hana í mikilli hættu. Sé það hinsvegar reyndin að löggjafinn hafi ekki þrótt eða vilja til að setja inn í landslög skilvirk ákvæði um eftirfylgni þeirra laga sem Alþingi hefur sett, hlýtur að leika vafi á getu hans til að sinna verkefni sínu að öðru leyti“.
Gagnrýnir stjórnvöld harðlega
Sigurður ræddi um í ræðu sinni nýgerðar breytingar á lögum um tekjuskatt þegar felld var niður heimild til afskrifta á greiðslumarki í mjólk. Helstu rök Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fyrir breytingunni voru rindinu segir meðal annars þau að að ekki væru talin þörf á jafn örum skipulagsbreytingum í landbúnaði og álitið var á sínum tíma. „Landssambandi kúabænda er ekki kunnugt um að nokkur tilraun hafi verið gerð til að meta áhrif þessara breytinga á rekstur og efnahag kúabænda, nýliðun, eða hvað þá verðþróun í viðskiptum með greiðslumark. Ekkert samráð var heldur haft við hagsmunaaðila vegna málsins og engin umræða hefur farið fram um það innan greinarinnar“. Þá bætti Sigurður við: „Tæplega er von að kúabændur átti sig á því til hvers er ætlast af þeim frá stjórnvöldum þessa lands. Engu er líkara en innan stjórnvalda séu tvennskonar öfl að verki sem togi greinina til sinnhvorrar áttar. Annars vegar eru þeir sem telja eðlilegt að losa allar hömlur og setja greinina í óhefta samkeppni með inngöngu í Evrópusambandið. Hins vegar eru það hinir sem telja minni þörf á skipulagsbreytingum en verið hefur. Það er óneitanlega sérstök staða“.
Hafnar hugmyndum landbúnaðarráðherra
Í ræðu sinni sagði Sigurður einnig: „Annað er að í ávarpi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við setningu nýliðins Búnaðarþings komu fram hugmyndir um að breyta fyrirkomulagi á útdeilingu ónýtts greiðslumarks í lok verðlagsárs. Um þetta sagði ráðherra í ræðu sinni: „Hugsanlega væri ávinningur fyrir greinina í heild sinni að deila þessu ónýtta greiðslumarki út á annan hátt og horfi ég þar sérstaklega til nýliða í greininni eða til eflingar minni framleiðenda“. Hér er um að ræða aðferð við útjöfnum milli framleiðenda sem mjög lengi hefur verið við lýði. Breytingar í þá átt sem þarna eru nefndar munu fyrst og fremst verða til þess fallnar að auka flækjustig uppgjörsins og öðru fremur verða þeim vonarpeningur sem hygla á. Á þessa hugmynd er því ekki hægt að fallast“.
50% samdráttur gangi Ísland í ES!
Sigurður lagði áherslu á starfsöryggi fyrir búgreinina og sagði umsókn íslenskra stjórnvalda um aðild að Evrópusambandinu raski þessu öryggi. „Komi til aðildar er ljóst að það mun hafa veruleg óafturkræf áhrif á greinina. Íslenskur mjólkurvörumarkaður er afar lítill og ekki þarf mikið magn umfram þarfir til að raska mjög afkomu bænda. Ekkert bendir til annars en að markaðssamdráttur mjólkurafurða yrði mjög mikill a.m.k. 40 – 50% komi til aðildar, tekjusamdrátturinn yrði meiri“, sagði Sigurður meðal annarra orða í setningarræðu sinni á aðalfundi LK.