
Félagsgjöld BÍ árið 2018
23.03.2018
Á næstu dögum verða sendir út greiðsluseðlar til félagsmanna BÍ vegna félagsgjalda þessa árs. Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt lítilsháttar hækkun á gjaldinu. Auk þess var samþykkt að innheimta framlag í nýjan Velferðarsjóð Bændasamtaka Íslands við sama tækifæri.
Með samþykktinni er nú skilyrði að allir félagsmenn, sem eru með aðild sem tengd er við rekstur, leggi framlag í Velferðarsjóðinn. B-aðild að samtökunum er undanþegin, en sú aðild er ætluð ef fleiri en tveir einstaklingar standa fyrir búi.
Árgjaldið 2018
• A-aðild er kr. 47.000. Þar af renna kr. 2.000 í Velferðarsjóð BÍ.
• B-aðild er kr. 13.000.
• C-aðild, þ.e. þeir sem sótt hafa um undaþágu vegna lágrar veltu, verður kr. 15.000. Þar af renna kr. 2.000 í í Velferðarsjóð BÍ.
Ertu félagi?
Aðeins þeir sem eru nú þegar í samtökunum fá send boð um áframhaldandi félagsaðild. Þeir sem ekki eru í BÍ, en óska eftir að gerast félagar, geta skráð sig á bondi.is eða haft samband við þjónustufulltrúa. Nánari upplýsingar um félagsgjaldið og uppbyggingu þess eru veittar í síma 563-0300 eða í netfangið bondi@bondi.is.
Velferðarsjóður tekur til starfa
Nýstofnaður Velferðarsjóður BÍ tekur til starfa í vor. Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja fjárhagslega við félagsmenn Bændasamtaka Íslands er þeir verða fyrir meiriháttar áföllum í búrekstri sínum, s.s. vegna veikinda og slysa. Sjóðurinn styður einnig forvarnarverkefni tengd vinnuvernd og slysavörnum eða önnur verkefni sem hafa það að markmiði að bæta velferð sjóðsfélaga.
Miðað er við að félagsmenn geti sótt um í Velferðarsjóðinn síðar á árinu og ekki síðar en 1. júní næstkomandi. Starfstímabil sjóðsins verður frá 1. janúar 2018 þannig að hægt verður að sækja um stuðning vegna áfalla sem orðið hafa frá og með þeim tíma. Hægt er að kynna sér samþykktir sjóðsins og úthlutunarreglur hér, en það verður kynnt sérstaklega hvenær opnað verður fyrir umsóknir. Umsóknareyðublöð verða á félagsmannasíðu Bændatorgsins þegar þar að kemur.