Fagráð í nautgriparækt endurskoðar áherslur í fagstarfinu
30.11.2004
Þriðjudaginn 30. nóvember hélt Fagráð í nautgriparækt fund á Hvanneyri, þar sem m.a. var farið yfir ný drög að nýjum áherslum í fagstarfi nautgriparæktarinnar, en gildandi áherslur eru frá árinu 2000. Á fundinum var ákveðið að halda opinn fund á næsta ári um fagstarfið og gefa bændum landsins þannig tækifæri til að taka virkan þátt í mótun nýrra áherslna. Jafnframt var ákveðið að setja upp spjallsvæði á netinu í sama tilgangi. Gildandi áherslur eru:
Ályktun Fagráðs í nautgriparækt um forgangsverkefni í rannsóknar- og þróunarstarfi í nautgriparækt á næstu þrem til fjórum árum (í gildi frá apríl 2000).
1. Bústjórn.
Mörkuð hefur verið stefna um að koma á gæðastýringu í íslenskum búskap. Ýmsir grunnþættir þeirrar vinnu eru sameiginleg vinna sem hlýtur að hafa nokkurn forgang. Þar má benda á þætti eins og samræmda merkingu gripa (heilstæðan gagnagrunn um íslenska nautgripi, sem byggir á skyldumerkingu) og samræmda sjúkdómaskráningu á kúabúum.
Mikilvægt er að stuðlað sé að því með markvissu ráðgjafastarfi að efla rekstrarvitund hjá íslenskum kúabændum. Þar er ekki síst nauðsynlegt að efla fjárfestingastjórnun því nákvæmt mat á valkostum við endurnýjun eða nýfjárfestingar verður sífellt mikilvægara. Einnig er mikilvægt í umhverfi hraðra breytinga að hafa opinn huga gagnvart öllum möguleikum sem felast í breyttu rekstrar- og eignarformi.
2. Vinna og tækni.
Í þessum efnum er örari og meiri þróun en verið hefur um langt árabil. Í þeim efnum er nærtækast að benda á þróun í mjaltatækni (mjaltaþjónn, m.a.) og fóðrunar- og gjafatækni og nýjum fjósgerðum. Forgangsverkefni við slíkar aðstæður er að tryggð sé markviss öflun upplýsinga um nýtingu nýrrar tækni við íslenskar aðstæður og virk miðlun þeirra reynslu til kúabænda.
Eðlilegt er einnig að beina athygli frekar en verið hefur að vinnu og vinnuferlum á kúabúum. Við slíkar rannsóknir er minnt á þörf þess að hugað sé að vinnuskilyrðum með hliðsjón af heilsufari starfsmanna.
3. Fóður og fóðrun
Á liðnum árum hafa megináherslur verið lagðar á þætti sem snúa að nýtingu gróffóðurs, ásamat nýju fóðurmati, sem átti að stuðla að hagkvæmari nýtingu gróffóðurs í mjólkurframleiðslunni. Í gangi eru nú stór verkefni um heildarúrvinnslu tilraunaflokka síðustu ára og tæpast eðlilegt að hleypt sé af stokkunum nýjum verkefnum á þessu sviði fyrr en umræddar heildarúttektir hafa rennt stoðun undir brýna þörf slíkra verkefna.
Ýmsar vísbendingar hafa verið að koma fram sem benda til að snefilefnaskortur (líklega öðru fremur selenskortur) kunni að vera víðtækara vandamál en talið hefur verið. Fagráðið flokkar sem forgangsverkefni að þessir þættir verði skýrðir sem best sem fyrst.
Á síðasta áratug hefur þróun efnainnihalds mjólkur með hliðstjón til próteins verið verulega neikvæð. Tilgátur hafa komið fram um að breytingar í fóðri og fóðrun kunni þar að eiga talsverðan þátt. Fagráðið telur það forgangsverkefni að sem skýrustu ljósi verði varpað á þessa þætti sem fyrst í ljósi feikimikilla hagsmuna mjólkurframleiðenda, mjólkuriðnaðarins og fyrir íslenskan mjólkurmarkað.
Líklegt er að á næstu misserum fari í gang samræmd vinna á Norðurlöndunum að nýju og nákvæmara fóðurmatskerfi. Fagráðið telur eðlilegt að Íslendingar leggi eins og verið hefur sinn þátt til þessarar vinnu.
Vísbendingar eru um að sumir þættir sem snúa að uppeldi ásetningsgripa og í endurnýjun kúastofnsins hafi þróast á verri veg á síðustu árum. Fagráðið telur brýnt er að snúast við slíkri þróun , sem ef til vill verður frekast gert með markvissu ráðgjafa- og þróunarstarfi, sem byggir á upplýsingum um þróun í þessum efnum og erlendri rannsóknarþekkingu.
4. Ræktunarstarf.
Mikilvægt er að ætíð sé tryggt að haldið sé uppi virku ræktunarstarfi í kúastofninum sem tryggi sem mestar framfarir í stofninum á hverjum tíma, þannig að á komandi árum búi bændur við hagkvæmari bústofn en í dag.
LK og BÍ hafa sótt til landbúnaðarráðuneytis um leyfi til tilraunainnflutnings á nýju erfðaefni. Fáist slíkt leyfi leggur fagráð áherslu á að þar er um forgangsverkefni í þróunarstarfi greinarinnar að ræða.
5. Viðbætir
Fagráð minnir á að nú stendur yfir úttekt á stöðu og framtíðarmöguleikum nautgriparæktarinnar. Vera kann að í kjölfar þeirrar vinnu komi í ljós verkefni er fagráð telur nauðsynlegt að taka á forgangslista. Einnig geta breyttar aðstæður af ýmsu tagi kallað á breytingar á forgangsröð.