FABA og Viking Genetics sameinast
27.01.2010
Þann 1. janúar sl. sameinaðist FABA (Finnish Animal Breeding Association, finnska búfjárræktarsambandið) og Viking Genetics, nautgriparæktarfélag Danmerkur og Svíþjóðar. Innan vébanda hins sameinaða félags eru nú tæplega 30.000 nautgripabændur, allt frá Suður-Jótlandi norður til Lapplands. Kýr félagsmanna eru um 1,3 milljónir og félagið flytur út erfðaefni til 50 landa. Velta þess verður um 7 milljarðar kr. og starfsmenn um 150.
Nafn hins sameinaða félags er Viking Genetics og er það samvinnufélag í eigu bænda. Í fulltrúaráði þess eru 120 félagsmenn, 60 frá Danmörku, 30 Svíar og 30 Finnar. Stjórnarformaður er Lars-Inge Gunnarsson, kúabóndi frá Svíþjóð. Höfuðstöðvar félagsins eru í Randers í Danmörku, útibú eru í Skara í Svíþjóð og Hollola í Finnlandi.
Ljóst er að félag á borð við þetta mun hafa gríðarlegan slagkraft til rannsókna og þróunar á sviði nautgriparæktar. Líkur standa til að það muni verða eitt af leiðandi félögum á heimsvísu í innleiðingu á nýjustu aðferðum við kynbætur nautgripa; úrval á grunni erfðaprófa (genomisk selektion), kyngreiningu sæðis o.s.frv., sem félagsmönnum stendur nú þegar til boða að hagnýta sér. Þessum tækninýjungum hefur verið líkt við tilkomu sæðinga fyrir tæpum átta áratugum, sem almennt er viðurkennt að olli einhverri mestu byltingu í kynbótum nautgripa sem sögur fara af. Því er eðlilegt að kúabændur hér á landi íhugi vandlega hvort þeir eigi ekki samleið með norrænum kollegum sínum í þessum efnum?