Beint í efni

Enn einn samruninn

26.01.2017

Bandarísku samvinnufélögin Prairie Farms Dairy og Swiss Valley Farms eru nú að renna saman í eitt framleiðendasamvinnufélag en tilgangurinn er að styrkja samkeppnisstöðuna, auka hagræðingu og efla sölusvið félaganna segir í tilkynningu frá félögunum. Á bak við Prairie Farms Dairy standa 600 fjölskyldubú og eru höfuðstöðvar félagsins í Illinois fylki. Að Swiss Valley Farms, sem er með höfuðstöðvarnar í nágrannafylkinu Iowa, standa 520 kúabú og eru afurðafélögin því með áþekkan fjölda eigenda en gjörólíkan rekstur. Prairie Farms Dairy er með mjög umfangsmikla vinnslu margskonar afurða og er með um 5.700 starfsmenn en Swiss Valley Farms er að mestu í heildsölu á hrámjólk og þar starfa ekki nema rétt um 300 starfsmenn.

Eftir samrunann verður félagið á meðal stærstu afurðafélaga Bandaríkjanna og mun halda nafni Prairie Farms Dairy. Þar sem hið nýja félag fær sterka stöðu á markaði þarf samrunaferlið að fá samþykki samkeppnisyfirvalda en afar líklegt er að ferlið verði samþykkt og miða áætlanir við að nýtt félag taki til starfa um miðjan maí/SS.