Drápsfýsn í mjólkuriðnaði?
21.03.2007
Í fyrrihluta leiðara Morgunblaðsins 21. mars 2007, er fjallað um meinta ,,SAMKEPPNISDRÁPSFÝSN“ í mjólkuriðnaði. Tilefnið eru ummæli Guðbrandar Sigurðssonar, forstjóra Mjólkursamsölunnar ehf, á aðalfundi MS/Auðhumlu sl. föstudag. Miðað við orðbragðið í leiðaranum er mjög ólíklegt að höfundur hans vilji eiga rökræður um málið. Eigi að síður vil ég benda á nokkur atriði sem skipta miklu máli í þessu samhengi:
1. Það hefur legið fyrir í áratugi að framlegð einstakra tegunda mjólkurvara væri misjöfn.
2. Til að gera mögulegt að einstök mjólkurbú sérhæfðu sig í framleiðslu einstakra vöruflokka, hefur verið haldið úti nokkuð flóknu verðtilfærslukerfi. Það kerfi er nú að hverfa í kjölfar sameiningar í mjólkuriðnaði.
3. Fyrir áratug eða svo var það markmið sett að draga úr umræddum mun á framlegð einstakra mjólkurvara. Þessi fyrirætlan hefur ekki gengið eftir, þvert á móti hefur munurinn farið vaxandi. Þessi munur er of mikill í dag og óhjákvæmilegt að draga úr honum hið fyrsta. Stórir vöruflokkar eins og nýmjólk verða að standa undir sér, án tilfærslu fjármuna frá öðrum vörutegundum.
4. Við gerð samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar vorið 2004, var gert ráð fyrir þeim möguleika að leggja af opinbera verðlagningu á mjólk til framleiðenda, án þess að breyta þurfi lögum. Það hefur ekki verið gert, en það skiptir ekki máli varðandi umræddan mun á framlegð einstakra mjólkurvara.
5. Það er mörgum spurningum ósvarað varðandi hugsanlegt afnám opinberrar verðlagningar á heildsölustigi. Þar má nefna:
• Hvernig verður hægt að tryggja hagsmuni smærri aðila á smásölumarkaði ?
• Hvernig verður tryggt að mjólkurvörur séu á sama verði til neytenda alls staðar á landinu ?
• Hvernig verður tryggt að stuðningur ríkisins við mjólkurframleiðsluna skili sér til neytenda ?
Ég hélt nú að umræða ætti almennt að vera af hinu góða, en ef viðbrögð virtra fjölmiðla eru með þeim ofsafengna hætti sem birtist í forystugrein Morgunblaðsins í dag, verð ég víst að skipta um skoðun.