
DMK lokar fjórum vinnslustöðvum
02.08.2017
Þýska afurðafélagið DMK (Deutsche Milchkontor GmbH), sem er stærsta afurðafélag Þýskalands og er samvinnufélag 8.600 þýskra kúabænda, hefur átt í töluverðum vandræðum undanfarin misseri. Þannig reyndist árið 2016 félaginu sérlega erfitt og til þess að bæta rekstur þess hefur stjórnin nú tekið þá erfiðu ákvörðun að loka fjórum vinnslustöðvum félagsins.
Þessi ákvörðun byggist fyrst og fremst á þeirri staðreynd að framleiðsla mjólkur eigenda félagsins hefur dregist verulega saman að undanförnu og margir hreinlega hætt kúabúskap m.a. vegna lágs afurðastöðvaverðs. Fyrir vikið hefur þegar orðið gríðarlega mikill samdráttur í innvigtun mjólkur til DMK og heldur sú þróun áfram. Þannig er t.d. fyrirséð að félagið muni á næsta ári vanta 1,7 milljarða lítra í samanburði við árið 2016. Það hefur því verið ljóst í nokkurn tíma að taka þyrfti á málinu og nú liggur s.s. fyrir að félagið muni loka fjórum vinnslustöðvum og segja upp 270 starfsmönnum í tengslum við þá lokun/SS.