Dexter kúakynið – smávaxið en vinsælt!
12.07.2010
Dexter kúakynið er írskt dvergkúakyn og það smæsta í Evrópu, u.þ.b. helmingi minna en t.d. holdakynið Aberdeen Angus og um þriðjungi minna en stóra mjólkurkúakynið Holstein Friesian. Dexter var afar sjaldgæft kúakyn þar til það komst í tísku að rækta þetta smávaxna og skemmtilega kúakyn.
Uppruni og útlit
Dexter kúakynið kemur upphaflega frá suð-vestur Írlandi en hvarf um tíma og var jafnvel talið útdautt. Kynið fannst þó á ný í nokkrum smáhjörðum í
Englandi þaðan sem það hefur nú verið ræktað upp.
Kynið er afar smávaxið og eru fullorðnar kýr um 270–320 kg og fullorðin naut í kringum 450 kg. Þyngdin segir þó ekki allt, þar sem hæð gripanna er mjög lítil enda útlögumiklir en smáfættir.
Dexter eru oftast svartir að lit, en eru einnig til sem dökkrauðir og leirljósir. Hreinræktaðir eru þeir eingöngu örlítið hvítir á júgra og kvið. Hornin eru frekar stutt en breið og vaxa fram á við á nautum en upp á við á kúm. Fyrir um 50 árum tókst að rækta kollótta Dexter gripi og eru þeir vinsælir í dag.
Eiginleikar
Dexter kynið er flokkað sem tvínytja kyn, þ.e. nýtist í bæði mjólkur og kjötframleiðslu. Fjölhæfni Dexter kynsins eru all verulegir og það skýrir vafalítið vinsældir þessa sérstæða kúakyns, enda má orðið finna Dexter gripi um allan heim. Nautgripirnir eru harðgerðir en með ágætlega meyrt og fitusprengt kjöt. Mjólkin frá Dexter er nokkuð fiturík og líkist um margt Jersey-mjólk, en 305 daga nyt þessa smáa stofns er í kringum 3,7 tonn.
Afhverju eru Dexter vinsælir gripir?
Í ljósi þess sem að framan greinir, er ekki úr vegi að velta fyrir sér af hverju þessu sérstæða kúakyni fjölgar ár frá ári. Skýringin virðist liggja í því að þeir sem eiga lítið land en vilja vera með einhverskonar „hobbý“ búskap, kjósa margir að hafa Dexter. Gripirnir eru vissulega viðráðanlegri en hefðbundnir holdagripir og þar sem þetta er tvínytja kyn geta hobbý-ræktendur bæði framleitt mjólk og kjöt fyrir sig og sína.
Samantektin um Dexter kúakynið er hluti af kynningum naut.is á hinum fjölbreyttu kúakynum heimsins sem mun birtast lesendum á næstu mánuðum og misserum. Samantektin byggir á upplýsingum af veraldarvefnum, mest frá Wikipedia og heimasíðu Dexter samtakanna í Stóra-Bretlandi www.dextercattle.co.uk.