Danski matvælaráðherrann vill afleggja kvótakerfið sem fyrst
26.09.2007
Í dag er viðtal við nýjan matvælaráðherra Dana, Evu Kjer Hansen (Venstre) í dagblaðinu Jyllandsposten. Þar kemur fram að í dag, 26. september, muni Danir ásamt nokkrum öðrum ESB ríkjum, leggja til að kvótakerfi í mjólkurframleiðslunni verði lagt af sem allra fyrst, svo framleiðslan megi aukast og til að hamla gegn gífurlegum verðhækkunum á mjólkurvörum. Núverandi kvótakerfi er þannig úr garði gert að framleiði bóndi umfram þann kvóta sem hann hefur, þarf hann að greiða sekt (d. superafgift), sem nemur 115% af verðmæti mjólkurinnar sem er umfram kvótann. Þetta er ein af ástæðum þess að aukin eftirspurn á heimsvísu eftir mjólkurvörum hefur leitt til gífurlegra verðhækkana á þeim, á bilinu 80-120%.
„Þegar eftirspurn og verð hækka jafn gríðarlega og raun ber vitni, er það einstaklega óheppilegt að bændum sé meinað að auka framleiðsluna. Þess vegna verður að leggja kvótakerfið af eins fljótt og mögulegt er og ESB verður að hefja niðurlagningu kerfisins nú þegar“ segir Eva Kjer Hansen. Hún mun leggja þetta til á fundi ráðherraráðs ESB í dag. Pólland og Holland hafa gefið út að þau muni styðja tillöguna og líklegt er talið að Írland og Ítalía geri það einnig. Óvíst er þó hvort meirihluti náist í ráðherraráðinu fyrir tillögunni.
Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið það út að kvótakerfið verði lagt niður árið 2015 en hinar miklu verðhækknanir núna hafa aukið þrýsting á að það verði gert mun fyrr, niðurlagning þess verið þegar hafin í áföngum. „Það væri t.d. hægt að auka kvóta bændanna um 3-4% á ári. Það yrði til þess að hamla gegn enn meiri verðhækkunum“ segir matvælaráðherrann. Samkvæmt kvótakerfi ESB fær hvert land sinn kvóta, sem síðan er aftur útdeilt meðal bænda í aðildarlöndunum. Í mörgum af aðildarlöndum hefur mjólkurframleiðslan verið minni en landskvótinn segir til um, t.d. Bretlandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Samhliða heldur kvótinn aftur af löndum – eins og Danmörku – sem hafa möguleika á að auka framleiðsluna.
Í heild leiðir þetta til að framleiðsla mjólkur fer minnkandi í ríkjum ESB. Á sama tíma fer framleiðsla á mjólk í öðrum heimshlutum minnkandi (t.d. í Ástralíu þar sem þurrkar hafa geisað í 7 ár), eftirspurnin fer hins vegar ört vaxandi. Einnig hefur ESB tæmt birgðageymslur sínar, allt þetta leiðir til gríðarlegra verðhækkana sem að framan er lýst.
„Evrópusambandið hefur innleitt aukið frjálsræði hægt og rólega á þessu sviði, við höfum aflagt uppkaup á afurðum inn á lager og nýlega lagt af útflutningsbætur (Ísland lagði þær af 1991). Þegar það er um garð gengið, á einnig að leggja niður kvótakerfið í mjólkurframleiðslunni og gefa framleiðsluna frjálsa, þannig að framleiðendur geti brugðist við skilaboðum markaðarins og aukið framleiðsluna þegar verðið hækkar“ segir Eva Kjer Hansen matvælaráðherra Dana.
Danskir mjólkurframleiðendur og mjólkuriðnaður eru alveg á sama máli og ráðherrann, kvótakerfið verði að leggja af. Danskir mjólkurframleiðendur eru meðal þeirra stærstu og skilvirkustu í ESB og vænta þess að vera í góðri stöðu, þann dag sem að framleiðslunni og samkeppninni í greininni verður sleppt lausri.