Dagur nautgriparæktarinnar á Hvanneyri 6. október
19.09.2007
Landbúnaðarháskólinn verður með opið hús í kennslu- og rannsóknafjósum og Bútæknihúsi LbhÍ að Hvanneyri í Borgarfirði þann 6. október nk. kl. 12 til 18.
Undanfarin ár hefur skapast afar góð reynsla af því að hafa opið hús í kennslu- og rannsóknafjárhúsum LbhÍ að Hesti og hafa gestir skipt hundruðum. Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri búrekstrarsviðs LbhÍ, segist vona að Dagur nautgriparæktarinnar festi sig í sessi og verði árlegur viðburður hér eftir.
Meðal annars er ætlunin að kynna rannsóknaverkefni í nautgripa- og jarðrækt á vegum LbhÍ og samstarfsaðila, auk fyrirhugaðra verkefna á komandi misserum. Þá er ráðgert að hafa nokkrar hressilegar uppákomur yfir daginn ætlaðar bæði börnum og fullorðnum.
„Fjöldi bænda og áhugafólks um sauðfjárrækt hefur komið á opin hús að Hesti á liðnum árum og er von okkar að ná megi upp álíka aðsókn á Degi nautgriparæktarinnar. Í fyrra var skipulagi opna dagsins á Hesti breytt og fyrirtækjum og stofnunum gefið tækifæri til að kynna sig og sínar vörur með skýrari hætti en áður var gert og gaf það góða raun. Með sama hætti verður nú staðið að Degi nautgriparæktarinnar og verður góð aðstaða fyrir ýmiskonar kynningar enda verður bæði s.k. nýja fjós notað á þessum degi, auk Bútæknihúss og útihússins í Þórulág en þar er m.a. nýuppgerð aðstaða til nautaeldis,” segir Snorri.
Fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á að kynna sig er bent á að panta pláss fyrir 25. september n.k. Vakin er sérstök athygli á því að ekkert gjald er tekið fyrir pláss fyrir kynningar – svo lengi sem það er fyrir hendi. Nánari uppl. gefur Snorri Sigurðsson í síma 843-5341 – tölvupóstur: snorri@lbhi.is
Af www.lbhi.is