Breyting á skattalegri meðferð greiðslumarks í mjólk?
06.11.2010
Í Bændablaðinu sem kom út fimmtudaginn 21. október sl., var greint frá því að ráðherra landbúnaðarmála hafi farið þess á leit við fjármálaráðherra, að heimild um fyrningu greiðslumarks mjólkur verði felld niður. Í greininni kom fram að fjármálaráðuneytið hefði þegar svarað erindi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og að fyrirhugað væri að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 sem sjá má hér. Breytingin snýst um fella niður hluta af 32. grein laganna en í henni segir m.a.: „Stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði má færa niður með jöfnum fjárhæðum á fimm árum“.
Samkvæmt niðurstöðum búreikninga Hagþjónustu landbúnaðarins fyrir árið 2009 sem birtar voru fyrir rúmri viku, nam niðurfærsla greiðslumarks að jafnaði 2.435 þús. kr á þeim 176 kúabúum sem sendu inn reikninga. Ef mið er tekið af umfangi greiðslumarksviðskipta undanfarin ár, má ætla að núverandi fyrningargrunnur greiðslumarks sé rúmir 2 milljarðar króna. Fyrirvaralausar breytingar á afskriftareglum munu því augljóslega hafa mjög neikvæð, fjárhagsleg áhrif á mörg kúabú. Auk þess gætu þessar breytingar stefnt viðskiptum á markaði með greiðslumark þann 1. desember n.k. í uppnám, þar sem forsendur verðlagningar eru mjög óljósar. Að mati Landssambands kúabænda er nauðsynlegt að breytingar af þessu tagi hafi eðlilegan fyrirvara, svo ráðrúm gefist til aðlögunar í þessum viðskiptum.
Í ljósi þessa hefur Landssamband kúabænda óskað eftir upplýsingum frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um eftirtalin atriði:
1. Liggur fyrir mat á áhrif þess að heimild til fyrningar falli niður, á rekstur þeirra kúabúa sem keypt hafa greiðslumark á undanförnum árum?
2. Liggur fyrir mat á hvaða áhrif niðurfellingin muni hafa á verð á greiðslumarki?
3. Hefur ráðuneytið lagt fram tillögur að útfærslu á þeim breytingum sem að framan greinir? Ef svo er, hverjar eru þær?
Einnig hefur Landssamband kúabænda sent fjármálaráðherra bréf þar sem óskað er upplýsinga um eftirfarandi:
1. Hefur verið tekin ákvörðun um að hrinda umræddri breytingu í framkvæmd?
2. Liggja fyrir hjá ráðuneytinu tillögur að útfærslu á þeim breytingum sem að framan greinir? Ef svo er, hverjar eru þær?
3. Liggur fyrir mat á áhrifum þess að heimild til fyrningar falli niður, á afkomu kúabúa?
4. Liggur fyrir mat á hvaða áhrif niðurfellingin muni hafa á verð á greiðslumarki?
Landssamband kúabænda hefði talið mun heppilegra, að fá aðkomu að málinu á fyrri stigum, þar sem málið varðar ríka hagsmuni greinarinnar. Þeir framleiðendur sem ætla sér að eiga viðskipti á fyrsta kvótamarkaðnum 1. des. n.k. skulu hafa skilað öllum gögnum þar að lútandi til Matvælastofnunar, eigi síðar en 25. nóvember n.k. Flestir þeirra þurfa að gera rekstraráætlanir vegna greiðslumarkskaupa, sem fjármálastofnanir þurfa síðan tíma til að fara yfir. Eins og að framan greinir, eru forsendur slíkrar áætlanagerðar í uppnámi, þegar ekki er ljóst hvort eða með hvaða hætti framangreindum hugmyndum verður hrint í framkvæmd. Þeirri óvissu þarf að eyða án tafar.