Beint í efni

Breskir bændur fá stuðning úr óvæntri átt

19.07.2010

Bændur í Bretlandi, rétt eins og hér á landi, hafa ekki farið varhluta af ástandinu í efnahagslífinu. Mjög erfið staða breska ríkisins hefur m.a. leitt til þess að opinber stuðningur við landbúnað hefur verið minnkaður. Nú hefur breskum bændum óvænt borist góður stuðningur í baráttu sinni við bresk yfirvöld, en það eru umhverfisverndarsamtökin Wildlife and Countryside Link, sem eru landssamtök umhverfissamtaka. Samtökin og bændur í Bretlandi hafa á liðnum áratugum ekki alltaf verið sammála um notkun og nýtingu landsins, en nú hafa

umhverfisverndarsamtökin ítrekað lýst opinberlega hinni dökku mynd af fjársveltum landbúnaði og áhrifum niðurskurðar á styrkjum til landbúnaðar.

 

Ljóst þykir að fjársveltir bændur verji ekki miklum tíma eða fjármunum í mikilvæg umhverfismál, að mati samtakanna, eins og að viðhalda fjölbreyttu fuglalífi ofl. en á Bretlandseyjum geta landeigendur sótt um sérstaka styrki til þess að hlúa að fjölbreytileika í dýraríkinu.

 

Formaður samtakanna Paul de Zylva hefur nú hvatt breska forsætisráðherrann til þess að hugsa sig tvisvar um áður en niðurskurðarhnífurinn fer á loft gagnvart umhverfis- og verndarstyrkjum í landbúnaði. Samtökin muni ekki láta slíkt óátalið, enda telji þau niðurskurð í málaflokknum skammsýna og valda miklum skaða til lengri tíma litið, bæði fjárhagslega og þjóðhagslega. Þá myndu slíkar aðgerðir að líkindum ganga mjög nærri sjaldgæfum fuglum, hungangsflugum og fiðrildum á landsbyggðinni, eitthvað sem ómögulegt væri að sætta sig við. Til viðbótar yrðu bændur að nota allt mögulegt ræktarland sem myndi eyða upp þeim litlu landskikum sem eftir eru með villigróðri og sjaldgæfum plöntum.

 

FWI