Beint í efni

Blanda frá Keldudal er afurðahæsta kýr landsins

15.11.2010

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir október komu út fyrir helgi hjá BÍ. Alls komu 610 bú til uppgjörs og eru það hlufallsleg skil upp á 94%, en í október árið 2009 komu til uppgjörs 96% skýrsluhaldsbúanna. Alls eru skýrslufærðar 22.791,0 árskýr, sem er örlítil fækkun frá fyrri mánuði, en mánuðina tvo þar á undan hafði árskúm fjölgað um rúmlega 500.

 

Meðalafurðir mælast nánast óbreyttar frá því í september, en lækka þó því miður örlítið á milli mánaða eða um 4 kg. Samtals hafa meðalafurðirnar nú lækkað um 16 kg á tveimur mánuðum en sl. 12 mánuði mældist

meðalnytin 5.318 kg/árskú, sem er þó góð hækkun frá því í október 2009 er meðalnytin var 5.119 kg/árskúna 12 mánuðina þar á undan. Afurðaaukningin á einu ári um 199 kg/árskúna nemur 3,9% á ársgrunni. Nú er meðalfjöldi árskúa 37,0 sem er 1 árskú færra en í október 2009.

 

Samtals reiknast nú einungis 12 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er veruleg lækkun frá því í september þegar 18 bú voru yfir 7.000 lítra meðalnyt.
 
– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru á bænum Tröð en þar er meðalnytin 7.945 kg og árskúafjöldinn 24,0. Tröð var einnig afurðahæsta búið í september.
 
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru í Skriðufelli þar sem meðalnytin er 7.530 kg/árskúna og árskúafjöldinn 57,4. Í september var Reykjahlíð afurðahæsta búið í þessum flokki.
 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti, en þar er meðalnytin 7.618 kg/árskúna og eru afurðirnar að aukast um 85 kg/árskúna frá fyrri mánuði og alls um 110 kg á tveimur mánuðum. Árskúafjöldinn er nú 109,6.
 
Afurðahæsta kýr landsins er nú ný á toppnum og það er Blanda Stígsdóttir frá Keldudal með 11. 864 kg sl. 12 mánuði og afurðahæsta kýr landsins undanfarna mánuði, Örk Almarsdóttir frá Egg reiknast nú önnur afurðahæsta kýrin með 11.808 kg.
 
Fram kemur í yfirliti BÍ að 14 kýr á landinu mjólkuðu meira en 11 þúsund kg sl. 12 mánuði og 44 kýr á bilinu 10-11 þúsund kg.
 
Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.