Beint í efni

Bændasamtökin hafa skilað umsögn um matvælafrumvarpið

12.09.2008

Bændasamtökin skiluðu umsögn til landbúnaðarnefndar Alþingis vegna matvælafrumvarpsins í vikunni. Sem kunnugt er var frumvarpið ekki afgreitt á hinu stutta septemberþingi heldur frestað til haustþings en það hefst 1. okt. næstkomandi. Það þýðir að matvælafrumvarpið verður endurflutt í þinginu og því erfitt að spá fyrir um lyktir málsins.

Umsögnin verður nú kynnt innan félagskerfis bænda en við vinnslu hennar var m.a. leitað eftir áliti frá Lagastofnun Háskóla Íslands og Margréti Guðnadóttur fyrrverandi prófessors í sýklafræði. Auk þess fóru sérfræðingar BÍ í kynnisferð til Noregs og kynntu sér hvernig staðið var að innleiðingu löggjafarinnar þar í landi.

Bændasamtök Íslands (BÍ) sendu ekki inn umsögn um matvælafrumvarpið í vor. Samtökin sendu þess í stað greinargerð þar sem farið var yfir hvers vegna BÍ álitu frumvarpið ekki umsagnarhæft. Einkanlega vegna þess að meiri tíma þyrfti til að fara yfir málið þar sem áhrif þess á dýra- og lýðheilsu og atvinnugreinina væru óljós.

Í áliti Lagastofnunnar Háskóla Íslands er bent á leiðir til þess að vernda sjúkdómastöðu með beitingu 13. gr. EES-samningsins og með öðrum úrræðum sem eiga sér stoð í Evrópurétti. Í álitinu er staðfest að gjaldtökuheimildir frumvarpsins eru óþarflega rúmar og yrðu á óbreyttu íþyngjandi fyrir greinina. Lagastofnun telur ennfremur að áhættumat þurfi að vera með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Niðurstaða Margrétar Guðnadóttur er m.a. að sú Alþingi eigi að fella frumvarpið og taka þurfi upp nýjar samningaviðræður við EES. Hún bendir á mæðu-, riðu- og garnaveiki í löndum ESB og hvernig við höfum útrýmt eða takmarkað mjög þessa sjúkdóma. Hún fjallar um árangur hérlendis gegn salmonellusýkingum og tiltekur sérstaklega að frysting geti dregið úr hættu á salmonellu. Margrét varar við afsali á réttindum til þess að þjóðin ráði sínum sóttvarnarmálum sjálf. Í áliti sínu rekur Margrét sögu vandræðagangs innan ESB vegna kúariðunnar og tekur skýrt fram að innflutningur á ófrosnu hráu kjöti sé mjög varasamur. Fjallað var um rökstuðning Margrétar hér á bondi.is fyrir skömmu og er þá umfjöllun og álit hennar í heild sinni að finna hér.

Í ferð sérfræðinga BÍ til Noregs var gerður var samanburður á frumvarpinu og matvælalöggjöfinni í Noregi. Hann virðist gefa tilefni til þess að einfalda verði ýmislegt í frumvarpinu, breyta og glæða það jákvæðari anda gagnvart landbúnaðinum. Gerð var athugun á tollavernd á landbúnaðarafurðum bæði fyrir Ísland og Noreg og sýnir sú athugun að tollar á kjöti eru almennt hærri þar en hér á landi.