Beint í efni

Bæði framleiðsla og sala mjólkur minni en í fyrra

13.07.2011

Samkvæmt yfirliti frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) nam innvegin mjólk í júní 10,9 milljónum lítra en á sama tíma í fyrra voru 11,2 milljónir lítra innvegnir til afurðastöðvanna eða 2,3% meira. Það sem af er ári hefur heildarframleiðsla kúabúa landsins legið all mikið undir framleiðslu síðasta árs. Fyrstu sex mánuði ársins nam framleiðslan 64,3 milljónum lítra en í fyrra nam hún 65,3 milljónum lítra og er framleiðslan nún 1,6% minni en á sama tíma í fyrra.

 

Júní sl. var alls með 19 virka daga en júní í fyrra með 21 virkan dag eða 9,5% færri daga sem hefur eðlilega mikil áhrif á sölutölur mánaðarins. Þrátt fyrir þetta kemur júní vel út í sölu en skýringuna má að hluta til rekja til hömstrunar vegna hækkunar mjólkurvara 1. júlí sl.

 

Þegar litið er til sölunnar síðustu 12 mánaða kemur fram að salan hefur verið að dragast saman á heildina litið en einstakir vöruflokkar þó verið með söluaukningu s.s. ostar og duft. Sala mjólkurvara á próteingrunni síðustu 12 mánuði var 114,8 milljónir lítra og nemur samadráttur í sölunni 1,1%. Sala á fitugrunni var 111,0 milljónir lítra og nemur samdrátturinn 0,5%. Greiðslumarkið nú eru 116 milljónir lítra og má hverjum kúabónda vera ljóst að ef afurðafyrirtækjunum tekst ekki að auka söluna verulega síðustu mánuði ársins, þá stefnir allt í að skerða þurfi greiðslumark mjólkurinnar.
 
Þessu samhliða er framleiðsla mjólkur á kúabúum landsins töluvert minni það sem af er ári, miðað við árið 2010 og munar 1,4% á milli áranna. Alls hafa kúabú landsins nú framleitt 53,3 milljónir lítra mjólkur á fimm mánuðum ársins, en í fyrra var framleiðslan á sama tíma 54,1 milljónir lítra/SS.