Beint í efni

Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar 2020

28.01.2021

Niðurstöður skýrsluhaldsins í nautgriparæktinni fyrir árið 2020, bæði í mjólkur- og kjötframleiðslunni hafa nú verið reiknaðar og birtar á vef RML.

Hæsta meðalnyt frá upphafi

Þeir mjólkurframleiðendur sem skiluðu upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 541 en á árinu 2019 voru þeir 556. Niðurstöðurnar sýna að 25.649,0 árskýr skiluðu 6.384 kg nyt að meðaltali. Það er aukning um 50 kg frá árinu 2019 en þá skiluðu 25.819,4 árskýr meðalnyt upp á 6.334 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi skráðra mælinga og fimmta árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg á árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.650 kg/árskú.

Meðalbústærð í mjólkurframleiðslu reiknaðist 48,4 árskýr á árinu 2020 en sambærileg tala var 47,6 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 64,1 kýr en 2019 voru þær 62,9. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.696 talsins samanborið við 34.979 árið áður.

Á árinu voru mestar meðalafurðir á Austurlandi, 6.693 kg á árskú, síðan kemur Norðurland eystra með 6.535 kg. Stærst eru búin að meðaltali á Austurlandi, 52,4 árskýr, en næststærst á Suðurlandi 50,4 árskýr.

Meðalinnleggið jókst um 2,5% milli ára

Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 284.363 lítrum samanborið við 277.417 lítra á árinu 2019. Þetta er aukning um 2,5% frá fyrra ári. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um þrettán og voru kúabú í framleiðslu 533 talsins nú um áramótin 2020/21.

Mikli vanhöld á kálfum

Vanhöld kálfa eru mikil og ber þar mest á hve margar fyrsta kálfs kvígur bera dauðum kálfi en ríflega fjórði hver þeirra kálfa fæðist dauður. Þrátt fyrir rannsóknir og athuganir á orsökum þessa hefur engin ein ástæða fundist. RML vinnur nú að athugun á uppeldi, aðbúnaði og meðhöndlun 1. kálfs kvígna sem hugsanlega gæti varpað einhverju ljósi á ástæður þó best sé að fullyrða ekkert þar um. Meðalaldur kvígna við 1. burð var 27,5 mán. á síðasta ári eða nánast sá sami og árið áður. Allt bendir í þá átt að stefna eigi að því að kvígurnar beri 22-24 mánaða gamlar. Þarna munar því um hálfu ári með tilheyrandi rýmiskröfum og auknum uppeldiskostnaði. Enn eru um 33% allra fæddra kálfa undan heimanautum, en ef litið er til nágrannalanda okkar er langt innan við 10% fæddra kálfa undan heimanautum.

Mestar meðalafurðir á Búrfelli í Svarfaðardal

Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2020, var hjá Guðrúnu Marinósdóttur og Gunnari Þór Þórissyni á Búrfelli í Svarfaðardal. Nyt eftir árskú reyndist 8.579 kg sem er aukning um 602 kg frá fyrra ári. Á Búrfelli er að finna legubásafjós með mjaltaþjóni sem tekið var í notkun vorið 2018. Frá þeim tíma hafa afurðir aukist um 1.500-1.600 kg/árskú og voru þó ekki litlar fyrir.

Annað í röðinni var Hurðarbaksbúið ehf. á Hurðarbaki í Flóa eða Villingaholtshreppi hinum forna. Þar stýra búi Fanney Ólafsdóttir og Reynir Þór Jónsson. Þetta bú var með mestar afurðir eftir árskú á árinu 2019 en stendur nú í öðru sæti með 8.445 kg/árskú. Á Hurðarbaki er nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni. Þriðja í röðinni er kunnuglegt meðal afurðahæstu búa en þar er um að ræða bú þeirra Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi. Þetta er þriðja árið í röð sem þetta bú hafnar í þriðja sæti. Þar á bæ mjólkuðu kýrnar 8.357 kg/árskú á nýliðnu ári. Fjósið á Hraunhálsi er básafjós með rörmjaltakerfi og öll umgengni og snyrtimennska utan dyra sem innan til algjörrar fyrirmyndar.

Í fjórða sæti varð bú þeirra Eggerts, Jónu, Páls og Kristínar á Kirkjulæk í Fljótshlíð. „Fögur er hlíðin“ var einhvern tíma haft á orði og víst er að kýrnar á Kirkjulæk hafa lengi mjólkað vel. Búið hefur verið meðal afurðahæstu búa landsins um langt skeið, í sjöunda sæti 2019, en á síðasta ári skilaði hver árskú 8.353 kg. Þar er að finna legubásafjós með mjaltabás. Fimmta búið í röð afurðahæstu búa er á Göngustöðum í Svarfaðardal en þar mjólkuðu kýrnar 8.312 kg/árskú. Á Göngustöðum er nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni. Sjötta afurðahæsta bú ársins 2020 var svo bú Guðbjargar Albertsdóttur og Rúts Pálssonar á Skíðbakka 1 í Austur-Landeyjum. Kýrnar skiluðu 8.268 kg/árskú en á búinu er legubásafjós með mjaltaþjóni.

Þessum búum til viðbótar náðu átta bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú.

Smuga 465 í Ytri-Hofdölum í Skagafirði mjólkaði mest

Nythæsta kýrin á landinu árið 2020 var Smuga 1464861-0465 í Ytri-Hofdölum í Viðvíkursveit í Skagafirði, undan Síríusi 02032 og móðurfaðir hennar er Þollur 99008. Smuga mjólkaði 14.565 kg með 4,89% fitu og 3,34% próteini. Burðartími hennar féll ágætlega að almanaksárinu en hún bar sínum sjötta kálfi 3. nóvember 2019. Hæsta dagsnyt Smugu á nýliðnu ári var 52 kg og hún var í yfir 40 kg dagsnyt fram á sumar eða til loka júnímánaðar. Smuga er fædd á Skúfsstöðum í Hjaltadal í maí 2011 en var keypt að Ytri-Hofdölum rétt fyrir sinn fyrsta burð, 3. ágúst 2013. Skráðar æviafurðir hennar voru 67.865 kg um síðustu áramót en á yfirstandandi mjólkurskeiði er hún komin í 17.322 kg mjólkur.

Önnur í röðinni árið 2020 var Ösp 1280 í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, undan Sóla 1667281-1016, Ássyni 02048 og móðurfaðir er Gustur 09003. Ösp mjólkaði 14.062 kg með 4,54% fitu og 3,61% próteini en sínum fjórða kálfi bar hún þann 29. janúar 2020. Hún fór hæst í 53,7 kg dagsnyt á árinu 2020 en skráðar æviafurðir hennar eru 36.477 kg.

Þriðja nythæsta kýrin var Merlin 2268 í Lambhaga á Rangárvöllum, undan 1645281-2018, syni Húna 07041 og móðurfaðir er Lögur 07047. Nyt hennar á árinu var 13.898 kg með 4,19% fitu og 3,50% próteini. Hún bar sínum öðrum kálfi 28. nóvember 2019, fór hæst í 50,0 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 20.370 kg.

Fjórða í röðinni var Píla 1288 í Garði í Eyjafirði, dóttir Afla 11010 og móðurfaðir Kraki 09002. Hún mjólkaði 13.650 kg með 3,30% fitu og 3,15% próteini. Hún bar fjórða sinni 14. desember 2019, fór hæst í 52,8 kg dagsnyt á árinu og skráðar æviafurðir eru 52.760 kg. Svo skemmtilega vill til að þetta er annað árið í röð sem Píla er fjórða afurðahæsta kýrin á landsvísu.

Fimmta í röðinni var Rauðsól 616 á Skíðbakka 1 í Landeyjum, dóttir Laufáss 08003 og móðurfaðir er Salómon 04009. Hún bar þriðja kálfi sínum 4. desember 2019 og fór hæst í 45,3 kg dagsnyt en hún skilaði samtals 13.413 kg á árinu með 4,74% fitu og 3,60% próteini. Skráðar æviafurðir eru 31.063 kg.

Alls skiluðu 126 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 34 yfir 12.000 kg. Árið 2019 náðu 130 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Flækja 376 í Viðborðsseli með mestar æviafurðir

Af núlifandi kúm stendur Flækja 376 í Viðborðsseli á Mýrum í Hornafirði efst allra í æviafurðum. Flækja er fædd í Árbæ í sömu sveit í desember 2006 en flutti sig um set í byrjun síðasta árs. Hún er dóttir Fonts 98027 og móðurfaðir hennar er Soldán 95010. Hún hafði nú um áramótin mjólkað 91.803 kg á 11 mjólkurskeiðum en fyrst bar hún 28. október 2008 og síðast þann 1. desember 2019. Flækja er glæsikýr en hún hlaut á sínum tíma 89 stig í útlitsdómi, hálfsystir Jökuls 09001 að móðurinni til.

Skammt á hæla Flækju kemur Gullbrá 357 á Hóli við Dalvík en hún er fædd á Hrafnsstöðum í Svarfaðardal í apríl 2004 en seld að Hóli sem smákálfur. Þessi kýr er dóttir Hvítings 96032 og móðurfaðir er Klinton 1513611-0921, sonur Búanda 95027. Gullbrá bar fyrst í október 2006 og síðast nú í desember síðastliðnum en hefur á ævi sinni, nú komin á 10. mjólkurskeiðið, náð að mjólka 89.471 kg.

Afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi var felld á síðasta liðnu ári eftir ákaflega farsælan feril. Hún komst í hóp þeirra örfáu íslenskra kúa sem rofið hafa 100 tonna múrinn í æviafurðum undir lok ársins 2019. Jana 432 var fædd 8. mars 2005, dóttir Stígs 97010 og móðurfaðir hennar var Kaðall 94017. Hún bar sínum fyrsta kálfi þann 18. september 2007 og níu sinnum eftir það, síðast 28. desember 2017. Mestum afurðum á einu ári náði Jana árið 2013 þegar hún mjólkaði 10.372 kg en æviafurðir hennar enduðu í 101.359 kg. Að lokum fór svo að Jana festi ekki fang og var felld vegna elli þann 13. maí síðastliðinn. Afkomendur Jönu eru fjölmargir víða um land en hún skilaði nauti á stöð sem fékk dóm til framhaldsnotkunar sem reynt naut. Þar er um að ræða Öllara 11066 en faðir hans var Ófeigur 02016.

Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg.

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2020

Undir árslok 2018 var byrjað að birta uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna og nær það uppgjör til þeirra búa þar sem haldnar eru holdakýr. Þessar niðurstöður ná ekki yfir þær holdakýr sem eru á búum þar sem einnig er mjólkurframleiðsla, sem er bæði kostur og galli. Kosturinn er sá að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.

Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2020 nær til 112 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 79 búum. Búunum fjölgar um fimm milli ára en búum þar sem er að finna holdakýr ef erlendu kyni fjölgar um sex. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 2.851 talsins, sem er fjölgun um 480 frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 25,5 samanborið við 22,2 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 21,7 árskýr á bú en voru 18,1 árið 2019. Alls voru skráðir 2.380 burðir á þessum búum á árinu 2019 sem jafngildir 0,83 burðum/kú. Þetta er fjölgun um 436 burði og aukning um 0,1 burð á kú milli ára.

Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2020

Heildarframleiðsla ársins á þessum 112 búum nam um 608 tonnum sem er aukning um 48 tonn milli ára. Þetta þýðir að þar eru framleidd nálægt 18% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 5.432 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 2.395. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 5.237 kg og 2.278 gripir. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 211,5 kg, en hann reyndist 205,9 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 262,0 kg en þau vógu til jafnaðar 252,6 kg 2019. Til jafnaðar var þeim fargað 734,8 daga gömlum eða 4,8 dögum yngri að meðaltali en á árinu 2019. Það jafngildir vexti upp á 342,0 g/dag, reiknuðum út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 325,8 g/dag. Til samanburðar var slátrað 9.051 (9.721) ungneytum á landinu öllu sem vógu 250,3 (243,8) kg að meðaltali við 745,3 (744,3) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2019. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum heldur þyngri við lægri aldur að jafnaði. Heilt yfir eru ungneyti þyngri en árið áður enda alin heldur lengur.

Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 5,6 (5,0) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 4,5 (4,2). Flokkun er því mun betri á þessum búum til jafnaðar, rétt eins og árið áður. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á búunum í yfirlitinu er því nálægt því að flokkast í O.

Frjósemi

Eins og áður getur fæddust 2.380 kálfar á þessum búum á árinu 2020 og reiknast meðalbil milli burða 460 (463) dagar. Það þýðir að meðalkýrin nær ekki einum burði á ári sem hlýtur að skipta miklu máli í búrekstri sem þessum. Þegar við bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 15,4% (16,1%), við aðra burði 5,8% (5,9%) og vanhöld frá 0-6 mánaða 3,1% (2,6%) verður fjöldi kálfa til nytja töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári.

Sæðingum á þessum búum fjölgar nokkuð frá fyrra ári en teljast þó enn frekar undantekning en regla. Þannig voru sæddar 349 kýr á árinu 2020 samanborið við 280 kýr árið áður. Hlutfall sæddra kúa hækkar því í 12,2% úr 11,9%. Uppistaðan í sæddum kúm er kýr af erlendu kyni sem telja 222 af þessum 349 sem sæddar voru. Til jafnaðar voru þessar kýr sæddar 1,7 (1,6) sinnum og að meðaltali liðu 134,7 (137,6) dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar svo löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili. Aukin notkun sæðinga, þó lítil sé, er vegna sæðis úr nýjum Angus-nautum tilkomnum með innflutningi fósturvísa frá Noregi. Hlutfall fæddra kálfa undan sæðinganautum nær ekki nema 8,2% en greinin hlýtur að hafa meira að sækja í þetta erfðaefni en þessar tölur gefa til kynna. Meiri vaxtarhraði, betri flokkun auk betri móðureiginleika eru þeir þættir sem hafa hvað mest áhrif á afkomu greinarinnar, en horft var sérstaklega til þeirra hluta við val nauta þegar fósturvísarnir voru keyptir frá Noregi.

Mestur þungi og vöxtur

Þyngsta ungneytið sem slátrað var árinu var naut nr. 2369 í Gunnbjarnarholti í Eystrihrepp. Sá gripur var holdagripur, 62,5% Angus og 25% Limousine, undan Anga 95400 og vóg 515,7 kg er honum var slátrað við 28,8 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN U4-. Í töflunni hér á eftir má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 450 kg fallþunga á árinu 2020 en þau voru fimm talsins og frá þremur búum, Gunnbjarnarholti í Eystrihrepp, Breiðabóli á Svalbarðsströnd og Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Hér eru ungneyti talin vera gripir sem fargað er við 12-30 mánaða aldur. Athygli vekur gripur númer 1244 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd sem var alíslenskur, sonur Tanks 15067. Segja má að tvennt komi til, búið er þekkt fyrir gott eldi gripa og afkvæmi Tanks virðast búa yfir mikilli vaxtargetu.

Þyngstu ungneyti á árinu 2020 (yfir 450 kg fall).

GripurFaðirStofnAldur, mán.Þungi, kgFlokkun
2369 (naut)GunnbjarnarholtAngi 95400AA x Li28,8515,7UN U4-
1218 (naut)BreiðabólÁlfur 95401AA x IS29,8489,3UN U3+
1250 (naut)BreiðabólArður 95402AA x IS28,5457,5UN U2+
1244 (naut)BreiðabólTankur 15067IS28,5456,3UN U2
1018 (naut)Nýibær0835 (AA x IS)AA x IS x Li22,6453,4UN R3-

Í töflunni sem hér fylgir á eftir má sjá þau ungneyti sem náðu mestum daglegum vexti reiknuðum út frá fallþunga. Miðað er við að gripirnir hafi náð a.m.k. 15 mánaða aldri við slátrun og reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestan vöxt ársins átti naut númer 505 í Lækjartúni í Ásahreppi. Því  var slátrað rúmlega 17 mánaða og vóg fallið þá 389,9 kg. Nautið var 25% Limousine, 19% Angus, 25% íslenskt, 7% Galloway og 24% óskráð og flokkaðist í UN U3-.

Ungneyti með mestan daglegan vöxt á árinu 2020 (tíu efstu).

GripurFaðirStofnAldur, mán.Þungi, kgFlokkunVöxtur, g fall/dag
0505 (naut)Lækjartún1935 (Li x AA x IS)AA x Li x IS17,5389,9UN U3-721,7
0639 (naut)Lækjartún1935 (Li x AA x IS)Li x AA x IS18,6410,4UN R+3699,6
0651 (naut)Lækjartún1935 (Li x AA x IS)Ga x Li x AA x IS18,6403,8UN U3-686,6
1203 (naut)Sogn0825Óvíst holda13,4286,3UN R-2+660,8
0637 (naut)Lækjartún1935 (Li x AA x IS)AA x Li x IS18,1382,4UN R+3-667,4
1234 (kvíga)Kúskerpi1074 (IS)IS15,6321,7UN R2643,3
1009 (naut)Leirulækur0696 (Li x AA x IS)Li x Ga x IS x AA16,5336,6UN R+2+639,6
0640 (naut)Lækjartún1935 (Li x AA x IS)Li x Ga x AA x IS18,7379,6UN R+3-639,9
0551 (naut)Arakot0491 (Ga x AA x Li x IS)Ga x AA x IS x Li20,6416,9UN R+3-642,2
1018 (naut)Nýibær0835 (AA x IS)AA x IS x Li22,6453,4UN R3-640,2

Þessar tölur og listar yfir þá gripi sem eru þyngstir og vaxa mest sýna glöggt að holdablendingarnir skara fram úr. Eðlilega taka gripir af kynjum sem hafa verið ræktuð m.t.t. vaxtar og kjötgæða, gripum sem eingöngu eru ræktaðir til mjólkurframleiðslu fram í þessu tilliti. Þetta ætti hins vegar að vera þeim sem stunda framleiðslu nautakjöts mikil hvatning til þess að nýta það erfðaefni sem nú stendur til boða úr gripum fæddum á einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Þar er um að ræða gripi sem taka gömlu Angus- og Limousine-gripunum mikið fram hvað snertir vaxtargetu og kjötgæði auk þess sem þeir voru valdir m.t.t. mæðraeiginleika. Þeir sem halda holdakýr ættu því eindregið að notfæra sér sæðingar ef nokkur kostur er. Þá er full ástæða til þess fyrir mjólkurframleiðendur að skoða hvort svigrúm er til þess að nota holdasæði í hluta kúnna og selja blendingana kjötframleiðendum nýfædda. Margt bendir til þess að nú sé lag, nægur fjöldi kvígna til endurnýjunar auk þess sem brýnt er að draga úr endurnýjunarhraðanum með arðsemi að leiðarljósi. Ending kúnna þarf að aukast því uppeldi kvígna er kostnaðarsamt auk þess sem kýr á 4.-6. mjólkurskeiði eiga að standa á hápunkti í framleiðslu en meðalkúnni er nú fargað um þriðja burð.

Á meðfylgjandi grafi má sjá fallþungadreifingu ungneyta á árinu 2020. Nálægt 20% allra ungneyta sem fargað var á árinu vógu innan við 200 kg og meðalaldur þessara gripa var 24,6 mán.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar