Beint í efni

Alþjóðleg ráðstefna um landbúnað á norðurslóð

06.09.2010

Í dag og næstu tvo daga stendur yfir alþjóðleg ráðstefna um landbúnað á norðurslóð. Ráðstefnan er haldin á vegum samtakanna CAA (Circumpolar Agriculture Association) en það eru einskonar landbúnaðarsamtök landa sem eiga land að heimskautsbaug. Ráðstefnan er haldin í bænum Alta í Norður-Noregi og koma þátttakendur víða að, m.a. frá Íslandi. Á Ráðstefnunni verður m.a. fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað, gæði matvara og landbúnaðarframleiðslu á norðurslóð, heimavinnslu og ferðaþjónustu. Þátttakendur á ráðstefnunni fá jafnframt að kynnast

landbúnaðarframleiðslunni í Alta og svæðinu þar í kring, þar sem m.a. Samar búa með hreindýr.

 

Það eru samtökin Bioforsk Nord sem standa fyrir ráðstefnunni að þessu sinni og í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar er m.a. einn Íslendingur, Sigríður Dalmannsdóttir, en hún vann áður hjá Landbúnaðarháskólanum. Tvö erindi frá Íslandi verða flutt á ráðstefnunni að þessu sinni, annarsvegar um möguleika á sameiginlegri vottun landbúnaðarvara frá löndum sem eiga aðild að CAA en það erindi flytur Torfi Jóhannesson og hinsvegar um hönnun fjárhúsa á svæðum þar sem innistaða er löng en það erindi flytur Snorri Sigurðsson.