Beint í efni

Afurðafélag í eigu kúabænda!

05.09.2015

Það virðist vera sama vandamálið í mörgum löndum þegar talið berst að samvinnufélögum bænda en oft er það svo að neytendur trúa því að félögin séu í raun almenn hlutafélög eða jafnvel í einkaeigu. Skýringin felst líklega í því hve fá samvinnufélög eru til í dag, miðað við hin algengu hlutafélög. Fyrir vikið hefur oft vantað upp á stuðning neytenda eða skilning á stöðu bænda og nú þegar afurðastöðvaverð til kúabænda víða um heim er með lægsta móti er enn brýnna en áður að ná til neytenda og fá stuðning þeirra svo unnt sé að toga afurðastöðvaverðið upp á ný.

 

Ein leið til þess að koma skilaboðum til neytenda er að nota umbúðir mjólkurvaranna og það er einmitt það sem Arla, samvinnufélag rúmleg 12 þúsund kúabænda í Norður-Evrópu, er nú að byrja á. Félagið hefur hleypt af stokkunum nýju merki sem sett verður á umbúðir félagsins en nýja merkinu er ætlað að brúa bil á milli neytenda og kúabændanna og vísa til þess að afurðafélagið sé eign bændanna en ekki í einkaeigu. Merkið hefur vakið þónokkra athygli enda stendur m.a. skýrum stöfum í merkinu „Í eigu bænda“. Vissulega áhugavert framtak og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort átakið skili sér í bættri vitund neytenda um framleiðendasamvinnufélög í landbúnaði/SS.