Beint í efni

Af varahlutum í DeLaval

24.11.2009

Á síðustu misserum í rekstri Vélavers gekk fyrirtækið afar langt í álagningu á varahluti í mjaltakerfi. Má finna mörg dæmi um að verðhækkanir á varahlutum hafi verið langt umfram það sem gengisfall krónunnar gaf tilefni til. Eitt versta dæmið um okrið á varahlutum var plastbolli í þvottastatíf í VMS mjaltaþjón. Hlutur þessi er á stærð við venjulega undirskál og hefur vörunúmerið AL 92553401. Á búi einu var þessi hlutur keyptur af þrotabúi Vélavers 13. október sl. á kr. 34.051, með vsk, pökkun, sendingarkostnaði og 10% afslætti. Hluturinn sjálfur kostaði kr. 26.342 án vsk. Þar sem mjaltaþjónninn er orðinn fjögurra ára gamall og hafði þurft að skipta um bolla þennan þrisvar sinnum, tók eigandinn á það ráð að láta smíða hann úr ryðfríu stáli í nærliggjandi vélsmiðju.

Kostnaður við að láta smíða eitt eintak, sem mun endast allan líftíma mjaltaþjónsins, var kr 51.911 með vsk, 41.696 án vsk. Sú staðreynd að ekki skuli vera meiri munur á að láta sérsmíða hlutinn og að kaupa plaststykki sem framleitt er í þúsundatali, segir allt sem segja þarf um þetta mál.

 

Nú hefur nýr umboðsaðili, Fóðurblandan hf tekið við umboði fyrir DeLaval eins og kom fram í fréttatilkynningu fyrr í dag. Óskar Landssamband kúabænda því velfarnaðar á þessu sviði. Hefur LK orð starfsmanna fyrirtækisins fyrir því að dæmi eins og nefnd eru hér að ofan muni nú heyra sögunni til og þjónusta við eigendur DeLaval mjaltabúnaðar verði góð framvegis.