Beint í efni

Aðalfundur LK 2012

24.03.2012

Aðalfundur LK 23.-24.mars 2012 haldinn á Hótel Selfossi

 

 

1.Fundarsetning

 

Sigurður Loftsson formaður LK setti fund og bauð fólk velkomið til starfa. Kynnti tillögu  að fundarstjórum, þau  Laufey Bjarnadóttir og Jóhannes Torfason og var það samþykkt og tóku þau við stjórn fundarins. Þau kynntu tillögu að kjörbréfanefnd, þau Þóri Jónsson, Anna Jónsdóttir og Guðrún Sigurjónsdóttur. Sömuleiðis kynntu þau fundarritara aðalfundar, Runólf Sigursveinsson auk Snorra Sigurðsson sem skrifstofustjóra fundarins.

 

2. Skýrsla stjórnar – Sigurður Loftsson formaður LK

 

Sigurður ræddi fyrst um veðráttu liðins árs og um þær náttúruhamfarir sem urðu á liðnu ári í formi eldgoss í Grímsvötnum.

 

Fjallaði síðan um framleiðslu og sölu mjólkurvara síðasta árs, heldur dró úr sölu á liðnu ári en sala fer vel af á þessu ári. Útflutningur mjólkurvara var um 11,9 milljónir lítrar á fitugrunni og um 10,7 milljónir lítra á próteingrunni. Talsvert hefur verið unnið í markaðssetningu á skyri og jókst sala þess um 150% á síðasta ári og er nú komið í um 380 tonn. Munar þar mest um sterka innkomu á Finnlandsmarkað, meðan salan til Bandaríkjanna hefur að mestu staðið í stað síðustu ár. Afar nauðsynlegt er að leita leiða til að auka afrakstur útflutningsins og auka hann sem kosturer.

 

Verðlagsgrundvöllur kúabús mælir núna kostnað við mjólkurframleiðslu rúmar 172 krónur á líter, séu allar tekjur búsins færðar til núvirðis, sést að það fær inn tæpa 141 krónu á líter móti þessum kostnaði. Síðasti aðalfundur Landssambands kúabænda ályktaði um að forsendur verðlagsgrundvallar skyldu teknar til endurskoðunar og hefur því verið fylgt eftir innan Verðlagsnefndar. Þegar hefur farið fram endurskoðun á vaxtaútreikningi grundvallarins og var nýtt vaxtaviðmið tekið inn í útreikninginn við framreikning nú 1.mars sl.

 

Ræddi um hagtölur í landbúnaði og nauðsyn þess að efla þá starfsemi en í stefnumörkun Landssambands kúabænda er sérstaklega rætt um mikilvægi góðrar bústjórnar sem lið í að draga úr kostnaði við framleiðsluna. Í framhaldi af því var hrundið af stað í samstarfi við Bændasamtök Íslands verkefni sem nefnt hefur verið „Betri bústjórn“. Þessu verkefni er nú nánast lokið, en það gengur út á að tengja saman og kalla fram lykilupplýsingar með myndrænum hætti úr gagnagrunnum  BÍ,  dkBúbót og Huppu.

 

Sigurður ræddi síðan málefni nautakjötsframleiðslunnar.  Framleiðsla nautgripakjöts var á síðasta ári um 3.800 tonn, að verðmæti um 1,9 milljarðar króna og er það svipuð framleiðsla og árið á undan. Mikil eftirspurn var eftir nautakjöti á síðasta ári sem innlend framleiðsla náði engan veginn að anna. Innflutningur hefur aukist og var á liðnu árium 430 tonn að verðmæti 460 milljónir króna. Ljóst er að hér er um klára söluaukningu á nautakjöti að ræða sem verður að teljast mjög athyglisvert samanborið við söluþróun í öðru kjöti.

 

Þá nefndi Sigurður framkvæmd  mjólkursamnings og þá staðreynd að nú eru einungis tæp þrjú ár eftir af gildistíma hans og því ástæða til að knýja á við stjórnvöld að framlengja enn um sinn þá samninga sem í gildi eru. Það er mikilvægt að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi bænda og þar með áframhaldandi framþróun greinarinnar.

 

 

Mikilvægt er í þessu sambandi að fjölga markaðsdögum vegna aðilaskipta á greiðslumarki   frá því sem nú er. Það mál hefur talsvert verið rætt við bæði fyrrverandi og núverandi ráðherra málaflokksins og má segja að fremur en hitt hafi okkur aukist bjartsýni með að markaðsdögum verði fjölgað. 

 

Sigurður ræddi síðan ræktun íslenska kúastofnsins, nefndi að um 30% kúa í landinu er undan heimanautum og 74 kúabú á landinu taka ekki þátt í skýrsluhaldinu. Gat um grein eftir Jón Viðar Jónmundsson og Ágúst Sigurðsson um árangur ræktunarstarfs á liðnum áratugum. Samkvæmt þeirri rannsókn er einungis nýttar um 11/16 hluta erfðaframfaranna í dag. Þessi niðurstaða hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir framtíð greinarinnar. Þá gat Sigurður um álitsgerð sem unnin var nýlega um mögulega blendingsrækt inn í íslenska kúastofninn. Málefnið verður nánar rætt í nefndarstarfi hér á fundinum.

 

Málefni skuldugra bænda. Mál virðast að vera að þokast til betri vegar í kjölfar Hæstaréttadóma en samt sem áður er enn ýmsilegt óunnið í þessum efnum. Mikilvægt er að sameiginlega verði unnið að úrlausn og meðferð biðlána.

 

Mjólkurframleiðslan er fjármagnsfrek atvinnugrein og nauðsynlegt er að hafa slíkt í huga við endurnýjun innan greinarinnar. Hugsanlega má nýta Lífeyrissjóð bænda í þessum efnum þ.e. sem langtímafjárfesti á 1.veðrétti.

 

Drög að aðbúnaðarreglugerð liggur fyrir og LK hefur unnið að drögum um góða búskaparhætti í samstarfi við mjólkuriðnaðinn.

 

Að lokum ræddi Sigurður málefni Matvælastofnunar. Það er óásættanlegt að ekki sé tryggð ásættanleg heilbrigðisþjónusta við búfé okkar, hvort sem er í dreifðari eða þéttari byggðum. Í þessu efni er ábyrgð Matvælastofnunar stór og mikilvægt að  traust ríki meðal almennings og bænda á því mikilvæga starfi sem henni er ætlað. Því miður hafa komið brestir í þetta traust síðustu misseri vegna ýmissa uppákoma sem tengjast eftirlits- og þjónustuhlutverki stofnunarinnar. Því er óhjákvæmilegt að gerð verði óháð úttekt á starfsemi stofnunarinnar og þess þannig freistað að byggja þetta traust upp að nýju. 

 

3. Ávörp gesta

Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytissjóri flutti kveðju sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en hann komst því miður ekki á fundinn. Sigurgeir gat um nokkur mál sem liggja fyrir varðandi landbúnaðinn. Fyrst nefndi hann endurnýjun búnaðarlagasamnings en ráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum fulltrúa BÍ og fjármálaráðuneytis í vinnu við undirbúning að nýjum samningi. Gat um að ráðherra hefði hug á setja af stað undirbúningsvinnu um framhald allra samninga á milli ríkis og bænda, þ.e. í garðyrkju, sauðfé og mjólkurframleiðslu. Ræddi um nautakjötsframleiðsluna og þann skort sem er á markaði gagnvart innlendu nautakjöti. Gat um mögulegan ávinning á að flytja inn nýtt erfðaefni í því skyni.

Ræddi hagtölusöfnun og sagði frá því að ráðuneytið hefði hug á að Hagstofa Íslands ynni til framtíðar að hagtölusöfnun og búreikningauppgjöri innan landbúnaðarins.

Loks gat Sigurgeir um stuðning vegna nýliðunar í greininni en von er á niðurstöðum í þeirri vinnu á næstu dögum.

 

Haraldur Benediktsson formaður BÍ þakkaði gott samstarf BÍ og LK á liðnu ári. Búnaðarþing 2012 hefur ályktað um ýmis mál sem verða vegvísar næstu mánaða í vinnu samtakanna. Mikilvægi íslensks landbúnaðar er sífellt betur að koma í ljós. Landbúnaðurinnn er einn fárra atvinnuvega sem hefur náð að fjölga störfum á síðustu misserum. Bændasamtökin munu á þessu ári vekja enn frekar athygli á mikilvægi atvinnuvegarins og mikilvægt er að vinna saman að þeim málum. Eitt af stærri málum næstu mánaða er endurskipulagning leiðbeiningaþjónustunnar, verkefnið er hafið en stjórn BÍ hefur nú skipað verkefnisstjórn og hún fær það hlutverk að ráða verkefnistjóra sem skal á tímabilinu,  apríl til  september á þessu ári, útfæra starfsemina, skilgreina og vinna með starfsmönnum BÍ og búnaðarsambandanna að nánari útfærslu.

Annað verkefni er staða LbHÍ, þar hefur nemendafjöldi stóraukist án þess að fjárframlög hafa fylgt á eftir. Nauðsynlegt er að spyrna við fótum. Þurfum viðhorfsbreytingu gagnvart skólanum ef ekki, þá verður að fækka starfstöðvum.

 

Guðni Ágústsson framkvæmdastjóri SAM þakkaði ræðu formanns um málefni kúabænda. Gat um starf úrvinnslugreina landbúnaðarins innan Samtaka iðnaðarins og mikilvægi þess að rödd þeirra heyrist á þeim vettvangi. Gat um nokkrar vörutegundir sem eru að vinna markaði erlendis. Ræddi mikilvægi landbúnaðarháskólanna, því miður voru þessir skólar færðir undan atvinnuvegaráðuneytinu. Þörf er á að berjast fyrir tilvist þessara skóla innan landbúnaðarins.

Ræddi um komandi kosningar um tillögu stjórnarlagaráðs og hvernig útfærsla spurninga verður. Loks ræddi Guðni um innflutnings á erfðaefni m.t.t. þeirra vinnu sem áður hefur verið unnin.

 

4. Erindi

Kjartan Poulsen formaður Landsforeningen af Danske Mælkeproducenter

Þakkaði boð á fundinn og ræddi fyrst búskap sinn í Danmörku en fjallaði síðan um uppbyggingu LDM í Danmörku en það var stofnað árið 1981. Um helmingur kúabúa í Danmörku eru nú innan LDM. Stjórn samtakanna er skipuð 9 mönnum sem valdir eru til skiptis annað hvert ár. Samtökin eru landsamtök með þátttöku alls staðar að í Danmörku. Núna eru samtökin með 2,5 stöðugildi að störfum. Tilgangur samtakanna er að hafa áhrif á málefni greinarinnar og berjast fyrir hagsmunum félagsmanna. Þau starfa óháð öðrum samtökum bænda. Félagsgjaldið er í dag  1.550 dkr. eða um 35.000 íslenskar krónur. Auk þess kaupa félagsmenn tryggingu upp á 300 dkr sem baktryggir mögulegt tjón sem getur orðið, ef tankmjólk mengast af lyfjum. Útgáfustarfsemi er töluverð, vikulegir tölvupóstar, mánaðarlegt fagtímarit og ársfjórðunglega er gefið út félagsblað sem er með sterkar áherslur  umbjóðenda LDM. Fagtímaritið er fjármagnað með auglýsingum en félagsgjaldið dekkar útgafu tövlupóstanna og blaðaútgáfuna að öðru leyti.

Verkefnin í dag eru m.a. umhverfismál, að gæta réttinda starfandi kúabænda í þeim efnum, Arlagård-gæðastjórnun er eitt viðfangsefni samtakanna, einnig hafa samtökin veitt aðhald gagnvart opinberu eftirliti sem er með kúabúum í Danmörku. Þá hafa samtökin beitt sér í umræðunni um mengunarmál innan landbúnaðarins.

Loks gat hann um þátttöku samtakanna í umræðu um afnám mjólkurkvóta í ESB og hvernig mögulegt er að taka á þeim málum af hálfu framleiðenda.

 

Fjallaði síðan um þróun danskrar mjólkurframleiðslu síðustu ár,  bæði með tilliti til fjölda bænda, afurðastöðva og framleiðslumagns. Arla er með um 95% framleiðslunnar en 11 önnur mjólkursamlög eru starfandi. Alls eru um 3.800 kúabú í Danmörku miðað við árið 2011. Meðalstærð er um 1.250.000 lítrar í greiðslumarki. Um 15% framleiðslunnar er nýtt innanlands en 85% flutt út. Róbótabú framleiða núna um 25% af mjólkurmagninu í Danmörku.

 

Loks greindi hann frá afkomu síðustu ára í dönskum kúabúskap, árið 2009 var mjög erfitt fyrir kúabændur en síðan hefur þetta heldur lagast. Skuldsetning er mjög mikil eða um 3,3-3,4 milljónir króna á hverja árskú. Landverð náði hámarki árið 2008 þegar það náði rúmlega 35.000 evrum á hektara, hefur fallið síðan niður í 22-23.000 evrur/ha. Kjartan fjallaði síðan um þessa miklu skuldsetningu sem er víða að hrjá danska kúabændur og tók dæmi skuldsetningu.

 

Valgerður Kristjánsdóttir  spurði um framtíðina hjá þeim bónda sem Kjartan tók dæmi um, þ.e. mjög skuldsettan bónda.

Kjartan sagði að þetta væri góður bóndi og hann myndi klára sig en þá í samstarfi við sinn banka.

Guðrún Lárusdóttir spurði um tekjur bóndans sem Kjartan nefndi dæmi um.

Kjartan svaraði að brúttótekjur hans væru  ca. 200 milljónir/ári og skuldir 1,7 milljarðar.

 

Valdimar Guðjónsson spurði um framtíðarsýn danskra kúabænda eftir afnám kvótans.

Kjartan sagði að flestir danskir kúabændur væru bjartsýnir á framtíðina en hann sjálfur er ekki eins bjartsýnn þar sem ljóst væri að flestir myndu auka framleiðsluna en þá væri spurning um afurðaverð á móti.

 

Þórir Jónsson spurði um viðhorf danskra að fara erlendis í ódýrara land með framleiðsluna.

Kjartan svaraði því að danskir svínabændur hefðu að hluta flutt starfsemi sína á liðnum árum og þá til A-Evrópu. Kúabændur væru einnig að flytja sig milli landa í átt til lægri framleiðslukostnaðar.

 

Magnús Hannesson spurði um meðalskuldsetningu á kú.

Kjartansvaraði því að hún væri 3,3 til 3,4 milljónir dkr.á kú eins og hefði komið fram í erindinu og hefði aukist mjög eftir  aldamótin. Hins vegar væri þetta meðaltal og einhverjir væru skuldlitlir meðan aðrir væru mjög skuldsettir.

 

Ólafur Helgason  spurði um verðþróun á afurðaverði og neytendaverði. Hafði innganga Dana í ESB einhver áhrif á verðþróunina.

Kjartansvaraði því til að það væri ekki skýringin. Þetta skýrist meira af því að verðhlutföll hefðu breyst í almennri neyslu. Vægi matvælanna væri í raun minna í heildarneyslu en áður var.

 

Sæmundur Jón Jónsson spurði mögulega endurnýjun í dönskum kúabúskap við svona mikla skuldsetningu einstakra búa og stór bú. Hvernig getur bóndi hætt sem er mjög skuldsettur ?

Kjartan svaraði því að mikill áhugi væri hjá fólki að starfa í tengslum við dýrí Danmörku. Möguleikarnir eru helstir þeir að bankarnir ráða miklu um það og horfa þá á bakgrunninn, hvaða faglega hæfni fólk hefur.  Þróunin yrði væntanlega sú að búum fækkar t.d. niður í 2.000  innan nokkurra ára. Ljóst að þörf er að fá nýtt fjármgan í atvinnuveginn.

 

Sigurgeir B. Hreinsson spurði þátttöku bænda í samtökunum og af hverju er bara helmingur kúabænda í samtökunum.

Kjartan sagði að þetta væru frjáls félagsamtök og þetta teldist góð þátttaka út frá þeim grunni. Þátttökugjaldið hefur í sjálfu sér ekki verið vandamál hingað til. Töluverð hreyfing er á félgsaðildinni milli ára. Sumir kúabændur eru einfaldlega ánægðir með heildarsamtökin (Kvæg). Kjartan sagði að sín samtök væru gagnrýnin bæði á mjólkurvinnslufyhrirtækin og heildarsamtök bænda.

 

Matarhlé

 

Að loknu matarhléi minntist Sigurður Loftsson Harðar Sigurgrímssonar í Holti sem lést á liðnu ári. Hörður gegndi formennsku í fyrstu stjórn LK frá 1986 og var formaður til ársins 1989. Sigurður bað fundarmenn minnast Harðar með því að rísa úr sætum.

 

Erindi: Magnús B. Jónsson og Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir Framtíðarhorfur í kynbótastarfi nautgriparæktar.

Magnús flutti fyrri hluta erindisins. Sameiginlegt kynbótastarf í nautgriparækt hér á landi  hófst þegar farið var að djúpfrysta nautasæði. Árið 1980 hefst sameiginlegt kynbótaskipulag, grunnþættirnir eru skýrsluhaldið og sæðingastarfsemin, frekar strangt úrval nautsmæðra (4%) en á nautfeðrum um 10%. Upphaflega, frá 1974, var fyrst og fremst miðað við afurðamagn en síðan tekur þetta breytingum árið 1993 þegar farið er að velja fyrir fleiri eiginleikum. Ræddi notkun á heimanautum sem hefur aukist frá því sem var í byrjun hins sameignlegs ræktunarstarfs. Árangurinn í ræktunarstarfinu er um 11/16 þess sem mögulegt væri ef allir tækju þátt í starfinu. Hlutfall dauðfæddra kálfar er allt of hátt hér á landi í samanburði við önnur lönd.  Veikleikarnir eru,  skyldleikaþróunin sem þarf að bregðast við, sömuleiðis er minnkandi virkur erfðhópur. Samstaða þarf að ríkja um ræktunarmarkmiðin og kynbótastefnuna meðal ábyrgðaraðila verkefnisins.

 

Gunnfríður ræddi verkefni nautgriparæktar framtíðarinnar, áhersla á að viðhalda ásættanlegum erfðbreytileika, samstaða umræktunarstarfið þarf að vera fyrir hendi. Árangur byggist á uppsettu ræktunarskipulagi og þátttöku bænda í öllum hlutum starfsins. Skoða þarf  hvað þarf að gera betur til að ná enn betri árangri í framtíðinni. Skipulagið byggir á fjórum meginþáttum; gagnasöfnun í gegnum skýrsluhaldið, prófun ungnauta, ræktun úrvalsgripa og ræktun stofnsins í heild sinni. Næsta kynslóð gripa þarf að vera betri en núverandi kynslóð.

 

Tæplega 600 bú skráð í skýrsluhald af um það bil 670 búum. Tæplega 90% framleiðenda en með um 92% af kúnum. Um 96% kúabúa skila fullnægjandi fjölda kýrsýna yfir árið og 94% skýrslna skila sér á réttum tíma í hverjum mánuði. Hins vegar standa utan skýrsluhalds um 2000 árskýr; spurning hvort eigi að leggja meiri vinnu í þennan þátt. Líklega skilar það  meiri árangri að styrkja og efla gagnasöfnun núverandi skýrsluhaldara, efla kýrsýnatöku og efla skráningu ýmissa þátta eins og frjósemi og sjúkdóma.

 

Uppsett ræktunarkerfi gerir ráð fyrir að bændur taki þátt í afkvæmaprófunum ungnauta. Þrátt fyrir mikla notkun ungnauta eru dætrahópar fremur litlir. Um 30% ásettra kvígukálfa er undan heimanautum, þetta hlutfall er stöðugt síðustu fimm ár og er allt of hátt.  Meðalaldur kvígna var 29,4 mánuðir árið 2011 við fyrsta burð. Þetta þýðir seinkun á afkvæmaprófun nauta um hálft ár.

Ræktun úrvalsgripa gerir ráð fyrir að bændur rækti og leggi til sameiginlega kynbótagripi í ræktunarstarfið. Árið 2011 kom 61 kálfur frá 53 búum. Framboð kálfa þarf að vera meira og pörun nautsmæðra þarf að vera markvissari.

 

Ræktun stofnsins í heild sinn þarf að gera ráð fyrir að ný kynslóð gripa verði betri en núverandi gripir. Heildarverkefni okkar er að búa til hagkvæmari framleiðslugripi til framtíðar.

 

Upppsett skipulag er ódýrt en til að hámarks árangur náist þurfa allir að taka þátt, bændur, ráðunautar og rannsóknageirinn. Lykill að árangri eru öguð vinnubrögð allra sem að verkinu koma.

 

Erindi: Daði Már Kristófersson

Kostnaðarþróun, verðlagning mjólkur og vöktun afkomu

Verðlagning mjólkur er háð opinberri nefnd. Opinber verðlagning tengir tekjur við kostnaðarþróun, hlutverkið er að mæla kostnaðarbreytingar á „dæmigerðu“ kúabúi. Það er hins vegar ekki til í raun.  Á að lýsa vegnum meðalkostnaði miðað við fasta aðfangasamsetningu. Þessi aðferðafræði er háð sömu takmörkunum og aðrar vísitölur. Vandamál við mælingu verðbreytinga eru m.a. hvaða magn á að miða við og hvernig má leiðrétta fyrir; gæðabreytingum aðfanga, breytingum á framboði aðfanga, tækniframförum og tilraunum bændum á hverjum tíma að takmarka kostnað. 

Fjallaði síðan um samanburð verðlagsgrundvallarbúsins annars vegar og niðurstöður úr gögnum Hagþjónustunnar hins vegar. Að jafnaði er heildarkostnaður verðlagsbúsins hærri en mælist i gögnum Hagþjónustunnar, mun lægri breytilegur kostnaður á Hagþjónustubúunum eftir hrun, enginn munur sölumegin. Verðlagsgrundvallarbúið hefur tilhneigingu til að ofmeta kostnað og munurinn er vaxandi, sérstaklega er það launaliðurinn og afskriftir sem eru hærri í verðlagsgrundvallarmódelinu.

 

Þá ræddi Daði um vöktun afkomunnar í kúabúskap. Hvernig er heppilegast að vinna að þessum málum. Búið er að koma upp haggagnagrunni hjá BÍ og hann er gagnlegur í leiðbeiningum og afkomuvöktun. Geysimikilvægt að hagtölusöfnun verði viðhaldið í landbúnaði. Að hans mati ætti Hagstofan að sjá um opinberar tölur úr landbúnaði. Hins vegar þarf að vera vöktun á afkomunni hjá hagsmunasamtökunum. Verkefnið heitir „Betri bústjórn“ og er vistað hjá BÍ. Hægt að samnýta rekstrarhluta gagnasafnsins og gagna úr Huppunni. Síðan þurfa notendur að vera vakandi um hvað þeir vilja fá út úr þessu verkfæri. Rekstrargögn gegna lykilhlutverki í bústjórn og í umræðu um verðlagningu og mati á þróun.

 

5. Niðurstöður kjörbréfanefndar – Þórir Jónsson

Formaður kjörbréfanefndar, Þórir Jónsson, kynnti eftirtalda fulltrúa til setu á aðalfundinum:

 

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Jóhanna Hreinsdóttir             Káraneskoti

Magnús Hannesson                E-Leirárgörðum

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi

Pétur Diðriksson                     Helgavatni

Jón Gíslason                           Lundi

Guðrún Sigurjónsdóttir          Glitstöðum

Laufey Bjarnadóttir                Stakkhamri

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Hallur Pálsson                        Nausti

Hörður Grímsson                   Tindum

Félag kúabænda í Ísafjarðasýslum

Sigmundur H. Sigmundsson   Látrum

Nautgriparæktarfélag V-Húnavatnssýslu

Valgerður Kristjánsdóttir       Mýrum 3

Pétur Sigurvaldason               Neðri-Torfustöðum (varamaður)

Félag kúabænda í A-Húnavatnssýslu

Brynjólfur Friðriksson            Brandsstöðum

Jóhannes Torfason                 Torfalæk 2

Félag kúabænda í Skagafirði

Sævar Einarsson                     Hamri

Guðrún Lárusdóttir                Keldudal

Valdimar Sigmarsson             Sólheimum

Félag eyfirskra kúabænda

Trausti Þórisson                     Hofsá

Sigurgeir Hreinsson               Hríshóli

Elín Stefánsdóttir                   Fellshlíð

Anna Jónsdóttir                      Svalbarði

Gunnhildur Gylfadóttir           Steindyrum (varamaður)

Félag þingeyskra kúabænda

Friðgeir Sigtryggsson             Breiðumýri

Sif Jónsdóttir                          Laxamýri

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Halldóra Andrésdóttir                        Grænalæk

Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum

Halldór Sigurðsson                 Hjartarstöðum (varamaður)

Gunnar Jónsson                      Egilsstöðum

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Sæmundur Jón Jónsson          Árbæ

Félag kúabænda á Suðurlandi

Þórir Jónsson                          Selalæk

Valdimar Guðjónsson             Gaulverjabæ

Elín Sveinsdóttir                     Egilsstaðakoti

Ólafur Helgason                     Hraunkoti

Bóel Anna Þórisdóttir             Móeiðarhvoli

Guðbjörg Jónsdóttir               Læk

Ásmundur Lárusson               Norðurgarði

Sævar Einarsson                     Stíflu

Jórunn Svavarsdóttir              Drumboddsstöðum

Björn Harðarson                    Holti

Pétur Guðmundsson               Hvammi

Katrín Birna Viðarsdóttir       Ásólfsskála (varamaður)

Sigríður Jónsdóttir                  Fossi (varamaður)

 

6. Umræður

Valgerður Kristjánsdóttir ræddi ræktunarstarfið í nautgriparæktinni, meðal annars um áhrif einstakra nauta eins og Stígs. Saknar fulltrúa frá MAST á fundinum og gagnrýndi hennar störf. Ræddi stöðu bænda með hliðsjón af skuldsetningu búanna hér á landi og hins vegar í Danmörku út frá erindi Kjartans fyrr í dag

Magnús I. Hannesson ræddi kynbótastarfið í nautgriparæktinni og m.a. mat ráðunautanna á einstökum eiginleikum, nota þarf skalann eins og hann er til staðar. Stórir aukaspenar áberandi í hjörðinni hjá sér og eru á stundum að trufla mjaltirnar. Finnst vanta meiri skráningu á 1.kálfs kvígur, t.d. með júgur og hvernig gripurinn er í mjöltum fyrstu vikurnar.  Síðan mætti skoða gripi hjá þeim bændum sem eru ekki í mjólkurskýrsluhaldi en eru samt að nota sæðingar. Spurning hvort 172 krónur er sú viðmðun sem er rétt varðandi verðlagsgrundvöllinn eða er hún lægri. Spurning einnig hvort þörf sé á mikilli nýliðun í ljósi þessara stöðu í framleiðslumálum.

Guðrún Lárusdóttir þakkaði störf stjórnar og framkomnar skýrslur, ræddi aðkomu Lífeyrissjóðs bænda að fjármögnun í landbúnaði út frá orðum formanns í upphafi fundar. Leggur til að fundurinn beini ályktun til Lífeyrisjóðs bænda um mögulega meiri aðkomu Lífeyrissjóðsins í langtímafjármögnun í landbúnaði.

Sigmundur H. Sigmundsson þakkaði framkomnar skýrslur og störf stjórnar. Ræddi nautakjötsmál og ræktunarstarfið og m.a. nýútgefna nautaskrá, þar eru 23 naut undan Stíg og þrjú undan Stígsdætrum af 31 nauti alls. Svo eru menn hissa á þróun skyldleikaræktar. Eins varðandi naut sem geta gefið hnýflótta og hyrnda gripi. Skoða þarf málin upp á nýtt með vali á nautkálfum. Hversu margir af þessum rúmlega 60 kálfum koma til nota og hvað verður um hina ? Eins  saknar hann  upplýsinga um fóðurgjöf nautanna.

Gunnar Jónsson þakkaði skýrslur og ræddi kynbótastarfið. Gagnrýndi Magnús B. fyrir hans málflutning varðandi hvað væri að, þar hefði beint hann gagnrýni sinni  á bændur en liti ekki í eigin barm. Íslenska kýrin getur framleitt en það þarf að taka verulega á varðandi t.d. júgur  og spena. Vinnan í fjósunum er mikil vegna þess að ýmsir þættir varðandi gerð kúnna eru ekki í lagi. Val á nautmæðrum; þetta val þarf að vera strangara, mat bóndans virðist ráða litlu og því ekki nema eðlilegt að bændur séu ekki allir tilbúnir að láta nautkálfa frá sér inn í hið sameiginlega ræktunarstarf þó svo að viðkomandi nautkálfur sé talinn hæfur út frá kynbótagildi. Spurning Gunnfríðar í lokin var góð – að vinna saman bæði ráðunautar og bændur.

Þórir Jónsson þakkaði formanni og stjórn góð störf á liðnu ári.  Ræddi framtíð ræktunarstarfsins m.t.t. framtíð íslensku kýrinnar, hvort þetta yrði varðveislugripur eða framtíðarkýr í íslenskri mjólkurframleiðslu. Varar við að menn séu með yfirlýsingar um bætta afkomu bænda eins og virtist koma fram í orðum Sigurgeirs Þorgeirssonar í morgun, víða hefðu menn þrengt að sér á undanförnum árum í viðhaldi og kostnaði þar sem afkoman leyfir ekki eðlilegt viðhald.

Sæmundur Jón Jónsson þakkaði ágætan fund fram að þessu, hafði punktaði niður ákveðin atriði varðandi ræktunarstarfið,  þetta  væri svipuð umræða og var fyrir 6-7 árum.  Sagði að hann hefði haldið að gera ætti skoðanakönnun um viðhorf kúabænda til kúakynsins.

Saknaði að ráðherra mætti ekki og ráðuneytisstjóri dvaldi stutt við á fundinum. Ræddi heimaframleiðslu mjólkur og vinnslu eins og ísgerð. Hann hafi skilað inn framleiðsluskýrslum um mjólk til heimavinnslu og í kjölfarið verið skertur um sama magn  varðandi framleiðslurétt á þessu ári.

Saknar þess að hagsmunatök bænda beiti sér fyrir leiðréttingar á skuldum bænda sem fóru varlega og voru með innlend lán.

Taldi að nýliðun ætti að beinast að vaxtaniðurgreiðslum og/eða koma ónýttum beingreiðslum til ungra bænda, lýst illa á framkomnar tillögur um stuðning.

Staða kúabænda misjöfn með tilliti til framleiðslukostnaðar eftir búsetu sem taka þarf tillit til.

 

Sveinbjörn Sigurðsson velti fyrir sér ræktunarstarfinu í greininni. Eru nægar framfarir í ræktuninni, dreg það stórlega í efa. Þegar verið er að skoða kvígur, þá er komið í fjósin einu sinni á ári. Hins vegar er árlega fargað hluta kvígustofnsins og sá hluti kemur aldrei  til skoðunar. Ræddi skuldastöðu greinarinnar og nýliðun í samanburð við danskt umhverfi. Ljóst væri að fleiri væru að koma inn í búgreinarnar t.d. í gegnum aðild að einkahlutafélögum.

Jón Gíslason ræddi kjaramál og saknaði umræðna um þau mál á fundinum, vandséð að við getum sótt kjarabætur til ríkisins og tæplega á markaðinn en við getum gert betur innan frá. Til dæmis varðandi heimanautanotkun, þetta er bara leti hjá okkur, þurfum að beina beingreiðslum í þá veru að hætta notkun heimanauta. Við eigum að vinna saman að ræktunarstarfinu eins og Gunnfríður lagði áherslu á.  Hins vegar efaðist Jón um að allir eiginleikar væru í lagi. Til dæmis varðandi júgurhæð  og júgurgerð, afurðir hafa aukist sem virðast þá valda því að júgur endast verr en áður.

Hallur Pálsson þakkaði stjórn fyrir góð störf. Ræddi erindi Kjartans um stöðu danskra kúabænda, greinilegt að bankarnir þar eru ráðandi um kúabúskapinn. Gaman að heyra viðhorf ráðunautanna til stöðu ræktunarstarfsins. Gott  væri þó að þeir kæmu oftar í fjósin, ekki síst á mjaltatíma.

Valdimar Guðjónsson þakkaði störf stjórnar á liðnu ári. Ræddi heimasíðuna og taldi þörf á að endurnýja þar útlit og að hluta efni. Þakkaði sérstaklega framlag Snorra í fréttaskrifumm á síðuna. Ræddi ESB-umsóknina og hversu erfitt er að koma  viðhorfum t.d. sjávarútvegs og landbúnaðar til einstakra fjölmiðla eins og ríkisútvarpsins. Kvótamarkaðurinn virðist vera að virka vel en það þyrfti þó að fjölga markaðsdögum, ef þetta kerfi hefði ekki komið til, væri verðið mun hærra. Umræðan um kúakynið er sígild. Skýrslan um blendingsræktunina er áhugaverð.

Pétur Diðriksson þakkaði störf stjórnar. Vakti athygli á þeim innflutningi sem er á nautakjöti, framleiðslu sem hægt væri sinna af íslenskum bændum. Möguleikar í íslenskri mjólkurframleiðslu er að framleiða mjólk fyrir íslenska neytendur og eins nautakjöt með þeim tólum og tækjum sem eru í boði. Þakkaði erindi Kjartans um danskar aðstæður í mjólkurframleiðslu. Varðandi ræktunarstarfið, hver er staðan í samanburði við kollega okkar erlendis, þarna vantar samanburðinn. Skyldleikarækt er ávallt erfið í litlum stofni og þá þarf að beygja af og það þýðir þá minni framfarir í ákveðinn tima. Sammála Gunnfríði um að standa saman í ræktunarstarfinu, hvernig getum við dregið úr heimanautanotkuninni. Er það mögulegt að hægt sé að taka hluta beingreiðslna í þennan þátt, gæti verið spurning um atvinnufrelsi.

Guðni Ágústsson ræddi framtíðina með tilliti til matvælaframleiðslu, þörfin á matvælim mun aukast á næstu ár. Jafnframt ræddi hann starf ráðunautanna, Magnúsar og Gunnfríðar, nauðsynlegt að halda því öfluga starfi áfram. Skyldleikaræktun er ef til vill ekkert meiri en hjá öðrum kynjum sem eru þó í stærri ræktunarhóp.

Sigurgeir Hreinsson  þakkaði störf stjórnar á liðnu ári. Afkoman er sígilt viðfangsefni, við þurfum að skoða  rekstur okkar sjálf, til dæmis í gegnum eigin rekstrartölur og þá í samanburði við aðra. Nauðsynlegt er að taka á í nautakjötsframleiðslunni og koma EUROP-kerfinu á sem fyrst, jafnframt að fá nýtt blóð inn í þá grein. Þrengingar Landbúnaðarháskólans koma beint niður á rannsóknastarfinu í atvinnuveginum, á atvinnuvegurinn að koma meira að fjármögnun þessa hlutar?  Þetta er spurning sem eðlilegt er að spyrja út frá stöðunni.

Jóhann Nikulásson ræddi framsögurnar og þakkaði fyrir þær. Sérstaklega hjá Kjartani, ávallt gott að skoða hlutina í samhengi , skoða þarf landverð, framleiðslu á árskú o.s.frv.

Kjarabætur þarf að sækja inn á við, mikið hægt að laga í rekstri búanna. Ekkert eitt atriði vegur þar meira en kúakynið.

Halldór Sigurðsson þakkaði störf stjórnar og framsöguerindi. Ástæða er til að greinin markaðsetji sig meira, þarf að vekja athygli á því sem vel er gert, bæði meðal bænda og afurðavinnslunnar. Auðhumla er fyrirtækja bændanna.

Guðrún Sigurjónsdóttir ræddi ræktunarmálin og mismun í áhuga t.d. milli sauðfjárbænda  þegar hrútaskráin kemur út og kúabænda þegar nautaskráin kemur út. Þá hvatti Guðrún bændur að skrá rekstrargögn beint inn í gagnagrunn BÍ. Þá taldi Guðrún nauðsynlegt að öll mjólkuframleiðsla Beint frá Býli sé skráð  eins og skylt er og hvetur LK að fylgja því eftir.

Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir nefndi skyldleikaræktunina og áhrif Stígs undanfarin ár. Nauðsynlegt er  að bæta skráningu einstakra eiginleika, m.a. á 1.kálfs kvígum. Ráðunautar þurfa gefa sér meiri tíma í fjósunum þegar þeir koma á annað borð í fjósin. Vinna meira með viðkomandi bónda með markvissum ræktunaráætlunum. Lykilatriði er að vinna þessi mál saman, bændur og ráðunautar. Spurning hvort hægt er að tengja ákveðnar greiðslur meira við ræktunarstrfið út frá mjólkursamningi og búnaðarlagasamningi. Varðandi val á ungnautum, þá er í raun gert ráð fyrir að bændur velji þá ekki heldur farið valið í gegnum reyndu nautin hjá bændum.

Magnús B. Jónsson þakkaði góðar umræður og þær eru nauðsynlegar í þessu starfi. Skyldleikaræktunin er sígilt viðfangsefni og núna beinist þetta að afkomendum Stígs og áhrifum hans. Þetta er einnig vel þekkt í stærri erfðahópum þar sem geysimikil notkun getur orðið á einstökum nautum. Staðan hjá okkur er ekki í sjálfu sér hættuleg en við verðum að vera á varðbergi eigi að síður. Varðandi mjaltaeiginleika þá er þar verk að vinna, júgurgerðin er að batna en þó of hægt. Fleiri gögn eru núna nýtt til að meta mjaltir en áður m.a. mjaltahraða ef slíkt er mögulegt.

Daði Már Kristófersson  sagði að kostnaður mældur skv. verðlagsgrundvelli væri 171 króna en þó vilja allir þessir kúabændur halda áfram starfi sínu og fá einungis um 140 kr fyrir líterinn, því er nauðsynlegt að skoða enn frekar kostnaðinn í framleiðslunni og lækka hann

Nauðsynlegt er jafnframt að jafna afkomu milli vörutegunda, þ.e. neyslumjólkinni og vinnslumjólkurinnar því tollmúrarnir eru ekki beysnari  en svo að þeir eru allir núna í krónutölum en ekki í prósentum.

Sigurður Loftsson velti fyrir sér hvernig umfjöllunarefni fundarins kæmi út. Ljóst er þó að kjarabarátta næstu missera hlýtur að beinast inn á við í rekstur búanna.

Þá ræddi Sigurður vinnu við að koma málum heimavinnsluaðilum í betra horf, þar hefur strandað á atriðum varðandi pólitíska stöðu málsins.

Ræddi jafnframt skuldamálin og þann mun sem verður sífellt meira áberandi á stöðu lántaka, eftir því hvort þeir voru  í innlendu lánaumhverfi eða fóru í erlenda lántöku.

Varðandi stuðning við nýliðun taldi Sigurður að eðlilegra væri að nota stuðningskerfið samkvæmt áliti nefndar sem var skipuð um þessi mál. Að fara í ónýttar beingreiðslur yrði einfaldlega erfitt tæknilega í framkvæmd.

Ræddi loks mögulega aðkomu Lífeyrissjóðs bænda að t.d. jarðakaupum og gagnvart nýliðun, aðkoman yrði væntanlega á 1.veðrétti. Fundurinn getur tekið málið einfaldlega upp í starfsnefndum.

 

7. Starfsnefndir

Fundarstjóri kynnti formenn þriggja starfsnefnda en áður var búið að skipa í starfsnefndir.

1.      Starfsnefnd, Sigurgeir Hreinsson formaður

2.      Starfsnefnd, Valdimar Guðjónsson formaður

3.      Starfsnefnd, Jóhanna Hreinsdóttir formaður

 

Að svo mæltu var fundi frestað og nefndarfundir hófust um kl. 16 föstudaginn 23. mars og en fundur hófst að nýju kl. 13 laugardaginn 24.mars með afgreiðslu tillagna.

 

8. Tillögur starfsnefnda

Tillögur frá starfsnefnd 1

Sigurgeir Hreinsson kynnti  tillögur starfsnefndar 1.

 

1.1 Efling ræktunarstarfs íslenska kúastofnsins

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og  24. mars 2012 leggur áherslu á að efla ræktun íslenska kúastofnsins og auka virkni bænda í því starfi. Í því sambandi bendir fundurinn á eftirfarandi:

·                    Auka þarf gerð sæðingaáætlana þar sem valin eru saman reynd naut og kýr, án þess þó að draga úr notkun óreyndra nauta.

·                    Flýta þarf hönnun á pörunarforriti í Huppu til að efla framfarir í stofninum og lágmarka skyldleikaræktaraukningu.

·                    Ræða þarf hvort stuðningsgreiðslur eigi í auknum mæli að tengjast virkni í ræktunarstarfi.

·                    Auka þarf áhuga bænda á ræktunarstarfi í nautgriparækt m.a. með reglulegri útgáfu Nautaskrárinnar og ungnautaspjalda.

·                    Hvetja þarf bændur til að sæða bestu kýrnar og álitlegar kvígur með nautsfeðrum og láta ráðunauta vita þegar nautkálfur fæðist.

·                    Bændur fái upplýsingar um hvaða ungnaut eru hverju sinni í kútunum hjá sæðingamönnunum á hverju svæði.

·                    Vefmiðlar verði nýttir til að koma fjölbreyttari niðurstöðum skýrsluhalds á framfæri og á líflegan hátt.

Jafnframt felur fundurinn stjórn LK í samstarfi við BÍ að vinna sem fyrst áætlun um innskot annars erfðaefnis í íslenska kúastofninn til að hraða erfðaframförum í þeim eiginleikum sem hafa lágt arfgengi og litlar framfarir hafa náðst í, en skipta þó kúabændur verulegu máli.

 

Sigmundur H. Sigmundsson ræddi tillöguna og sérstaklega síðustu málsgreinina. Við erum bundnir alþjóðlegum samningum um varðveislu kynsins. Hvernig hafa menn hugsað þann þátt ef til kemur innblöndun.

Jón Gíslasonvelti því fyrir sér hvað væri hreinn stofn. Þarf að fá svör við því hvar mörkin liggja í því.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

1.2 Erfðaefni í nautakjötsframleiðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og 24. mars 2012 átelur harðlega að ekki liggi fyrir niðurstöður starfshóps Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hvernig standa megi að því að endurnýja og styrkja holdanautastofninn á Íslandi. Fundurinn skorar á starfshópinn að ljúka störfum sem fyrst svo unnt sé að huga að endurnýjun erfðaefnis holdanautakynja.

 

Jóhann Nikulásson ræddi orðalagsbreytingu í lokamálsgrein tillögunnar, að taka út “að huga að”…

Arnheiður D. Einarsdóttir ræddi tillöguna og hvatti til þess  að gera tillöguna ákveðnari í þá veru endurnýjun yrði sem fyrst. Eins velti hún fyrir sér hvernig yrði staðið að innflutningnum og hvaðan erfðaefni yrði fengið.

Jón Gíslason svaraði Arnheiði á þá leið að ef leitað yrði leitað til Noregs þá yrði væntanlega leitað í sömu kyn og var gert á sínum tíma. Hins vegar yrði að koma til önnur aðferðafræði en var notuð á sínum tíma, einfaldlega vegna kostnaðar og tímaþáttar.

 

Starfsefndin ákvað að breyta tillögunni í ljósi tilmæla um breytingu á síðustu málsgrein. Tillagan borin upp þannig undir atkvæði:

 

1.2 Erfðaefni í nautakjötsframleiðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og 24. mars 2012 átelur harðlega að ekki liggi fyrir niðurstöður starfshóps Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hvernig standa megi að því að endurnýja og styrkja holdanautastofninn á Íslandi. Fundurinn skorar á starfshópinn að ljúka störfum sem fyrst svo unnt sé að endurnýja erfðaefnis holdanautakynjanna.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

1.3 Landbúnaðarháskóli Íslands

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. – 24. mars 2012 skorar á Menntamálaráðuneytið að veita Landbúnaðarháskóla Íslands fjármagn til að standa undir öflugri kennslu í nautgriparækt og öðrum landbúnaðargreinum.

 

Jafnframt lýsir fundurinn miklum vonbrigðum með hversu lítið rannsóknastarf er nú stundað í nautgriparækt við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ríkisvaldið þarf að sjá til þess að háskólinn hafi fjármagn til að standa að öflugum rannsóknum í nautgriparækt sem og öðrum landbúnaðargreinum. Einnig þarf háskólinn að hafa á að skipa öflugu starfsliði sem stendur að þeim þáttum.

 

Fundurinn leggur áherslu á að fjárhagsstöðu háskólans verði komið á réttan kjöl svo skólinn geti farið að horfa til framtíðar, íslenskum landbúnaði og samfélagi til góða.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

1.4 Nautakjöt

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og 24. mars 2012 leggur ríka áherslu á að nú þegar verði ráðist í átak til að styrkja innviði og stöðu íslenskrar nautakjötsframleiðslu.

 

Í því sambandi verði horft til eftirfarandi atriða:

·                    Endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna nái fram að ganga sem allra fyrst.

·                    Faglegur styrkur greinarinnar verði aukinn með fræðslu og ráðgjöf til nautakjötsframleiðenda.

·                    Öflugri stoðum verði skotið undir þekkingu á hjarðeldi holdanautgripa hér á landi.

·                    Fundnar verði hagkvæmar leiðir til að búa nautgripunum góð skjól og húsvist, þannig að sem bestum árangri megi ná án þess að gengið sé á gæði lands og velferð og þroska gripanna.

·                    Komið verði á EUROP-kjötmati fyrir nautgripi. Við upptöku þess mats verði það um tíma keyrt samhliða eldra kjötmati.

·                    Unnið verði markvisst að því að auka svigrúm til framleiðslu holdablendinga samhliða

mjólkurframleiðslunni.

 

Með þessu móti verði markvisst unnið að því að auka hagkvæmni greinarinnar svo að hún bjóði upp á viðunandi afkomu. Þannig verði stefnt að því að innlend framleiðsla uppfylli þarfir innanlandsmarkaðar fyrir nautakjöt.

 

Jóhannes Jónsson spurði um hvort nefndin hefði velt fyrir sér síðasta þætti tillögunnar og hvernig mætti útfæra þann lið.

Sigurgeir Hreinsson sagði að þetta hefði verið rætt í nefndinni. Ef næðist betri árangur í mjólkurframleiðslunni t.d. varðandi minnkun kálfadauða, þá gæti skapast svigrúm til að nýta einhvern hluta mjólkurkúnna til sæðinga með holdasæði.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

1.5 Kúasæðingar

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og 24. mars tekur undir ályktun Búnaðarþings um að skoða kosti og galla þess að sameina starfsemi kúasæðinga á landinu öllu með það að markmiði að ein og sama gjaldskrá verði látin gilda fyrir alla.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

1.6 Tilraunaniðurstöður

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og 24. mars 2012 beinir því til Landbúnaðarháskóla Íslands að ljúka uppgjöri og útgáfu á niðurstöðum tilrauna sem þegar hafi farið fram. Jafnframt verði allar niðurstöður settar inn í greinasafn landbúnaðarins á netinu og það gert sem aðgengilegast.

 

Sigurður Loftsson ræddi tillöguna og lagði til orðalagsbreytingu á hennI, orðalagsbreytingin samþykkt og tillagan í heild borin þannig upp.

 

1.6 Tilraunaniðurstöður

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. og 24. mars 2012 beinir því til Landbúnaðarháskóla Íslands að ljúka uppgjöri og útgáfu á niðurstöðum tilrauna. Jafnframt verði allar niðurstöður settar inn í greinasafn landbúnaðarins á netinu og það gert sem aðgengilegast.

Tillagan þannig samþykkt samhljóða.

 

Tillögur frá starfsnefnd 2

Valdimar Guðjónsson kynnti tillögur starfsnefndar 2

 

2.1 Eftirlitsmál

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars. 2012 skorar á MAST að sameina eftirlitsþætti sem varða mjólkur- nautakjöts- og fóðurframleiðslu eins og kostur er. Sameinað eftirlit felur í sér lægri kostnað fyrir framleiðendur.

 

Jafnframt verði gefin út leyfi til lengri tíma að öllum skilyrðum uppfylltum.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

2.2  Úttekt á Matvælastofnun

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 leggur til að úttekt verði gerð á starfsháttum og verklagsreglum Matvælastofnunar í ljósi undangenginna atburða.

Greinargerð:

Það er sjálfsögð og skýlaus krafa að aðgerðir starfsmanna hjá opinberri eftirlitsstofnun sem Matvælastofnun er, séu hafnar yfir allan vafa þegar kemur að viðbrögðum gagnvart brotum á reglugerðum. Vert er að benda á að aðgerðarleysi stofnunarinnar vegna of hás kadmíuminnihalds áburðar og notkunar iðnaðarsalts í unnin matvæli hefur skaðað orðspor íslensks landbúnaðar og verður því ekki unað að ámóta vinnubrögð viðgangist. Mikilvægt er að Matvælastofnun öðlist traust matvælaframleiðenda, afurðastöðva og neytenda, í þeirri vissu að hér á landi séu framleiddar góðar og hreinar afurðir.

 

Pétur Diðriksson ræddi tillöguna og vitnaði til tillögu Búnaðarþings um svipað efni og lagði til að nefndin kæmi saman aftur til að endurskoða tillöguna.

Guðný Helga Björnsdóttir kynnti ályktun Búnaðarþings um eftirlitsmál.

Í samráði við formann starfsnefndar 2 samþykkt að nefndin taki ofangreinda tillögu aftur til skoðunar.

 

Að lokinni endurskoðun hjá nefndinni var eftirfarandi tillaga lögð fram:

 

2.2  Úttekt á Matvælastofnun

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 leggur til að úttekt verði gerð á starfsháttum og verklagsreglum Matvælastofnunar í ljósi undangenginna atburða. Mikilvægt er að Matvælastofnun öðlist traust matvælaframleiðenda, afurðstöðva og neyrenda, í þeirri vissu að hér á landi séu framleiddar góðar og hreinar afurðir.

Tillagan þannig breytt samþykkt samhljóða

 

2.3 Um dýralæknaþjónustu

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 krefst þess að Matvælastofnun sjái til þess nú þegar  að umráðamenn búfjár geti nálgast dýralæknaþjónustu innan skynsamlegra tímamarka um land allt.

Einnig verði bændum heimilt að halda lyf til notkunar í bráðatilfellum.

 

Greinargerð:

Víða um land eru þjónustusvæði dýralækna orðin svo stór að virk neyðarþjónusta er tæpast fyrir hendi.  Af sömu ástæðu hefur kostnaður við dýralækningar aukist. Verði ekki bætt úr er dýravelferð í landinu stefnt í hættu, á sama tíma og stjórnvöld hyggjast setja ný og strangari lög um velferð dýra. Slíkt er ekki í anda dýraverndunarlaga.

 

Í reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum verði bætt við heimild til dýralækna að gera þjónustusamninga við bændur að norrænni fyrirmynd. Það felur í sér að bændur megi eiga lyf og hefja lyfjameðferð í samráði við sinn dýralækni að undangengnu námskeiði í sjúkdómsgreiningu, meðferð og geymslu lyfja.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

2.4 Um hreina náttúru

Aðalfundur  Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 bendir á þau miklu verðmæti sem felast í hreinni náttúru landsins. Það á við bæði um flóru og fánu. 

Fundurinn skorar  á stjórnvöld að slaka hvergi á kröfum um sóttkví vegna flutnings lifandi dýra til landsins. Einnig lýsir fundurinn áhyggjum yfir flutningi jarðvegs til landsins vegna hættu á sjúkdómum.

 

Jón Gíslason ræddi tillöguna og efnisþætti hennar, spurning um túlkun þessarar tillögu með tilliti til fyrri tillögu um innflutnings á erfðaefnis í nautgriparækt

Valdimar Guðjónsson óskaði eftir að nefndin kæmi aftur saman til að ræða tillöguna í ljósi athugasemda Jóns. Nefndin kom aftur saman, flutti tillöguna aftur með orðalagsbreytingu

 Tillaga endurskoðuð og samþykkt skv. ofangreindu

 

2.5 Um innflutning á hráu kjöti

Aðalfundur  Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 hvetur  stjórn LK til að fylgjast vel með stefnu stjórnvalda hvað varðar innflutning á hráu kjöti og standa vörð um hagsmuni íslenskra nautgripabænda.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

2.6 Um veffræðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. og 24. mars 2012 beinir því til stjórnar að beita sér fyrir því að setja upp á vef LK veffræðslusvæði í þeim tilgangi að gefa kúabændum landsins tækifæri til þess að fá reglubundna og lifandi fræðslu um fjölbreytt málefni búgreinarinnar.

 Greinargerð:

Veffræðsla, sem hluti af miðlun þekkingar til bænda erlendis, er vel þekkt aðferð en hefur ekki verið nýtt hér á landi svo nokkru nemi. Tæknin er þó afar aðgengileg og einföld og í ljósi þess hve margir kúabændur hér á landi eru nettengdir er lagt til að setja af stað lítið tilraunaverkefni til tveggja ára sem hafi það að markmiði að vera með reglulega en stutta fyrirlestra á vef LK. Komið verði upp sérstöku lokuðu vefsvæði þar sem fyrirlestrarnir verði settir inn með reglubundnu millibili og verði kúabændum og öðru áhugafólki um íslenska nautgriparækt gert kleift að skrá sig inn án endurgjalds á meðan tilraunaverkefninu stendur. Að loknu tilraunaverkefninu verði miðað við að aðgengi að vefsvæðinu verði kostað af notendum þess eða kostendum sé það talið vænlegt.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

2.7 Um varasjóð LK

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. og 24. mars 2012, leggur til að stofnaður verði varasjóður Landssambandsins, sem verði aðgengilegur ef til þess kemur að verulegar breytingar verði á fjármögnun samtakanna, til dæmis ef innheimta og ráðstöfun búnaðargjalds leggst af í núverandi mynd. Lagt er til að í sjóðinn verði lagðar 30 milljónir króna af handbæru fé samtakanna.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

 

2.8 Um hönnun vörumerkis

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 23 og 24 mars 2012 beinir því til stjórnar LK að hún láti hanna vörumerki á allar afurðir íslenskra nautgripabænda svo þær verði sérmerktar og gefi skýrt til kynna að um íslenska vöru sé að ræða.

 

Gunnar Jónsson ræddi tillöguna og hvort ekki ætti að skoða sameiginlegt merki fyrir alla bændur.

Katrín Birna Viðarsdóttir taldi að núverandi merki LK sé gott og því óþarft að leggja út í hönnun sérstaks merkis.

Sif Jónsdóttir ræddi tillöguna og hver yrði kostnaðurinn, sbr. merki garðyrkjubænda

Arnheiður D. Einarsdóttir ræddi tillöguna og hvort það þyrfti að lagafæra núverandi merki LK.  Ræddi afskipti Búnaðarþings af sameiginlegu merki landbúnaðarins en það mál hefði ekki náð í gegnum stjórnsýsluna á sínum tíma.

Sigurður Loftsson sagði að á sínum tíma hefðu verið miklar umræður milli garðyrkjubænda og BÍ um sameiginlega notkun fánarandarinnar. Garðyrkjubændur vildu halda fánaröndinni fyrir sig enda búnir að leggja í mikinn kostnað á sínum tíma.

Guðbjörg Jónsdóttir  nefndi að eitt er að hanna merkið og síðan annað að móta reglur um notkun þess. Óskaði eftir að nefndin skoði málið aftur.

 

Samþykkt að nefndin skoði tillöguna aftur með tilliti til umræðna um tillöguna.

Að loknu fundarhléi var hún lögð aftur fyrir þannig:

 

2.8 Um hönnun vörumerkis

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 23 og 24 mars 2012 beinir því til stjórnar LK að hún láti hanna vörumerki á allar afurðir íslenskra nautgripabænda svo þær verði sérmerktar og gefi skýrt til kynna að um íslenska vöru sé að ræða. Einnig að mótaðar verði skýrar reglur um notkun merkisins.

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillögur frá Starfsnefnd 3

Jóhanna Hreinsdóttir kynnti tillögur nefndarinnar

 

3.1 Breytingar búvörulaga

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 skorar á Alþingi Íslendinga að gera þær breytingar á búvörulögum sem tryggja  að ákvæði um forgang mjólkur sem framleidd er innan greiðslumarks að innanlandsmarkaði. Fundurinn telur að einungis með slíkum breytingum sé mögulegt að tryggja bændum lögbundið lágmarksverð fyrir mjólk framleidda innan greiðslumarks.

 

Þórir Jónsson ræddi tillöguna og lagði til orðalagsbreytingu.

Ákveðið að nefndin skoði tillöguna aftur í ljósi athugasemda. Hún þannig samþykkt skv. ofangreindu.

 

3.2 Búvörusamningurinn

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 beinir því til stjórnar LK að beita sér strax fyrir framlengingu á núgildandi búvörusamningi.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.3 Ráðgjafaþjónustan

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012 lýsir yfir stuðningi við þá niðurstöðu búnaðarþings að sameina skuli ráðgjafaþjónustu Búnaðarsambandanna og Bændasamtaka Íslands í eina ráðgjafaþjónustu. Þá leggur fundurinn til að stefnt verði að því að dregið verði úr vægi búnaðargjalds í rekstri þjónustunnar og að innan 5 ára verði staðið undir rekstri með framlögum af fjárlögum og þjónustugjöldum.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.4 Betri bústjórn

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012, lýsir ánægju sinni með það verk sem unnið hefur verið við verkefnið „Betri bústjórn“ og hvetur til að uppsetningu þess verði lokið sem fyrst. Þá hvetur fundurinn bændur til að senda gögn inn í gagnagrunninn.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.5 Söfnun hagtalna

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012, hvetur til þess að söfnun hagtalna fyrir íslenskan landbúnað verði færð til Hagstofu Íslands. Þá telur fundurinn brýnt að söfnun hagtalna og úrvinnsla þeirra verði efld.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.6 Hagmunagæsla

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.- 24. mars 2012 lýsir stuðningi við starf stjórnar LK í hagsmunagæslu fyrir kúabændur. Jafnframt hvetur fundurinn stjórn LK til að standa áfram öflugan vörð um afkomu bænda í vinnu Verðlagsnefndar um verðákvörðun mjólkur.

 

Arnheiður D. Einarsdóttir ræddi tillöguna og hvatti stjórn LK til dáða varðandi að sækja hækkanir á markaðinn. Bændur reyna á hverjum tíma að hagræða innan hvers bús en hagsmunagæslan þarf að berjast enn frekar fyrir bættum kjörum.

Sæmundur Jón Jónssonræddi tillöguna og hvatti stjórn LK að berjast fyrir hærra verði á markaði, til þess er hagsmunafélagið.

Jóhann Nikulásson ræddi tillöguna og orð Arnheiðar og Sæmundar Jóns. Nauðsynlegt er  að kúabændur og afurðasölufélagið vinni saman. Hins vegar eru takmörk fyrir hvað markaðurinn þolir og hvenær erlend vara fer í auknum mæli komi á markaðinn.

Valgerður Kristjánsdóttir var sammála orðum Arnheiðar og Sæmundar. Stjórn LK má aldrei hætta að beita sér fyrir hækkunum til handa félagsmönnum.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.7 Álögur á eldsneyti

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23.- 24. mars 2012 krefst þess að stjórnvöld lækki álögur á eldsneyti þar sem verð þess er orðið verulega íþyngjandi fyrir landsmenn alla.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.8 Kvótamarkaður

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. – 24. mars 2012 beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kvótamarkaður fyrir mjólk verði haldinn fjórum sinnum á ári.

 

Sveinbjörn Sigurðsson ræddi framkvæmd kvótamarkaðar. Sveinbjörn lagði til breytingartillögu um að markaðurinn yrði þrisvar á ári.

Þórir Jónsson sagði að búið sé að reyna að fá þetta samþykkt áður og þá var miðað við að markaðurinn yrði þrisvar. Það hefði ekki gengið.

Sveinbjörn Sigurðsson dró breytingatillögu sína til baka.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.9 Innheimta Búnaðargjalds

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012, leggur áherslu á eftirfarandi, komi til breytinga á lögum um innheimtu Búnaðargjalds:

·                    Fjármunir sem innheimtir eru vegna gjaldsins verði settir í búgreinaskiptan sjóð og ráðstafað samkvæmt tillögum hverrar búgreinar fyrir sig til þeirra verkefna sem heimilt er samkvæmt lögunum.

·                    Álagningarprósentan verði lækkuð til samræmis við þau verkefni sem falla út.

 

Sigmundur Sigmundsson ræddi tillöguna og þá umræðu um að búnaðargjaldið í núverandi mynd væri ólögmætt.

Jón Gíslason ræddi orðalag tillögunnar.

Sigurður Loftsson ræddi tillöguna. Tillagan tengist þeim lagalega skilningi að ekki má nota búnaðargjaldið í núverandi mynd til allra þátta sem það hefur verið nýtt fram undir þetta. Tillagan yrði einfaldlega innlegg í umræðu ef til kemur endurskoðun á löggjöfinni.

 

Tillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

 

3.10 Lánamál bænda

Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. – 24. mars 2012, ítrekar fyrri ályktanir um lánamál bænda. Þá telur fundurinn afar brýnt að þeirri óvissu sem skapast hefur með hæstaréttardómi 600/2011 sem kveðinn var upp þann 15. febrúar síðastliðinn verði eytt sem fyrst. Afar mikilvægt er að ljúka úrvinnslu allra þeirra mála sem tengjast efnahagshruninu haustið 2008 svo unnt sé að horfa til framtíðar og endurreisn geti hafist af krafti. Óvissuástand sem hruninu fylgdi hefur truflað nauðsynlegar ákvarðanir um uppbyggingu í greininni. Þá hlýtur jafnframt að vera sanngirnismál að leiðréttingar verði gerðar á verðtryggðum lánum í ljósi þeirrar miklu verðbólgu sem af hruninu hlaust. Aðalfundurinn telur endurgreiðslur sem Landsbankinn og Arionbanki reiddu af hendi til skilvísra viðskiptavina mikilvægt skref til að leiðrétta þann forsendubrest fjármálaskuldbindinga sem efnahagshrunið leiddi af sér. Fundurinn bendir einnig á að umtalsvert gengistap varð við hrunið á lánum tengdum við erlenda mynt. Eðlileg krafa er að bókfært gengistap sé fært til núvirðis þar sem þessi lán hafa nú verið dæmd ólögmæt fyrir dómstólum landsins.

 

Arnheiður D. Einarsdóttir ræddi tillöguna og orðalag.

Halldór Sigurðsson ræddi tillöguna og nefndi að það væru einnig til lögleg erlend lán og þau hefðu einnig hækkað líkt og innlend lán.

Jóhann Nikulássonræddi orðalag tillögunnar, m.a. um núvirði þess kostnaðar sem þegar er búið að gjaldfæra.

Tillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

 

3.11 Uppbygging og fjármögnun félagskerfis

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012, leggur áherslu á eftirfarandi atriði varðandi framtíðaruppbyggingu og fjármögnun félagskerfis bænda:

·                    Búgreinafélögin verði meginstoð í félagslegri uppbyggingu Bændasamtaka Íslands.

·                    Grunnuppbygging Landssambands kúabænda verði áfram samsett úr svæðisbundnum aðildarfélögum, reist á forsendum fulltrúalýðræðis svipuðu og nú er.

·                    Stefnt verði að innheimtu félagsgjalds þegar búnaðargjaldi sleppir til félagslegra starfa.

·                    Eðlilegt er þó að kostnaður sem fellur á samtökin vegna starfa sem reist eru á opinberum tilmælum, s.s. Fagráði, Verðlagsnefnd og vinnu sem tengist gerð og framkvæmd búvörusamninga, verði greiddur af sameiginlegum eða opinberum sjóðum.

 

Jón Gíslason lýsti ánægju með þeirri hugsun sem fram kemur í tillögunni um búgreinafélögin sem grunneiningu. Hins vegar óskaði hann eftir að það kæmi til endurskoðunar nefndarinnar annar liður tillögunnar.

 

Samþykkt að nefndin færi aftur yfir tillöguna og legði hana aftur fyrir fundinn til afgreiðslu. Eftir endurskoðun nefndarinnar var henni breytt og þannig lögð fram:

 

3.11 Uppbygging og fjármögnun félagskerfis

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. mars 2012, leggur áherslu á eftirfarandi atriði varðandi framtíðaruppbyggingu og fjármögnun félagskerfis bænda:

·                    Búgreinafélögin verði meginstoð í félagslegri uppbyggingu Bændasamtaka Íslands.

·                    Svæðisbundin aðildarfélög  reist á forsendum fulltrúalýræðis svipuðu og nú er verði áfram grunneiningar Landssambands kúabænda

·                    Félagsleg störf verði fjármögnuð með innheimtu félagsgjalda þegar búnaðargjaldi sleppir.

·                    Eðlilegt er þó að kostnaður sem fellur á samtökin vegna starfa sem reist eru á opinberum tilmælum, s.s. Fagráði, Verðlagsnefnd og vinnu sem tengist gerð og framkvæmd búvörusamninga, verði greiddur af sameiginlegum eða opinberum sjóðum.

Tillaga þannig breytt samþykkt samhljóða.

 

 

3.12 Evrópusambandið

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. og 24. mars 2012 tekur undir ályktun Búnaðarþings um ítrekun á andstöðu samtaka bænda um inngöngu Íslands í Evrópusambandið og að varnarlínur BÍ verði virtar. Fundurinn telur eðlilegast að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði lögð til hliðar, verði það ekki gert er gerð sú krafa að stjórnvöld setji fram samningsmarkmið án tafar.

 

Guðrún Lárusdóttir ræddi tillöguna og lýsti ánægju sinni með tillöguna, hún gengur lengra en tillagan sem var samþykkt var á síðasta Búnaðarþingi.

 

Tillagan einróma samþykkt.

 

3.13 Lánveitingar Lífeyrissjóðs bænda til jarðakaupa

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. og 24. mars 2012 felur stjórn Lk að kanna möguleika á því að Lífeyrissjóður bænda komi að lánveitingum til jarðakaupa.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

9. Afgreiðsla reikninga, tillaga um launamál  og fjárhagsáætlun

Baldur Helgi Benjamínssonfór yfir rekstrar- og efnahagsreikning liðins árs en reikningarnir voru í fundargögnum. Alls voru tekjur ársins  60.020.642 krónur árið 2011. Gjöld alls 50.106.975 krónur og því hagnaður ársins 9.913.667 krónur.

Reikningar samþykktir samhljóða.

 

Valdimar Guðjónsson lagði fram tillögu um launamál en hún gengur út á að hækka laun stjórnarmanna, þó ekki formanns úr 41.028 krónum upp í 50.000 krónur. Auk þess fylgi laun launavísitölu ár hvert.

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Baldur Helgi Benjamínssonkynnti fjárhagsáætlun, reiknað með tekjum upp á 51,4 milljónir króna og gjöld 51,9 milljónir og hagnaður verði 520.000 krónur

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða

 

10. Kosningar

Þórir Jónsson formaður uppstillingarnefndar kynnti tillögu hennar um formann LK; formaður verði Sigurður Loftsson. Fram fór skrifleg kosning og atkvæðagreiðslan fór þannig:

 

Sigurður Loftsson kosinn formaður með 35 atkvæðum.

Aðrir hlutu færri atkvæði.

 

Þórir Jónsson  kynnti tillögu  um eftirtalda stjórnarmenn, ekki komu tillögur um aðra stjórnarmenn, og í skriflegri atkvæðagreiðslu hlutu féllu atkvæði þannig:

Guðný Helga Björnsdóttir      37 atkvæði

Jóhann Gísli Jóhannsson         36        “

Jóhann Nikulásson                  36        “

Trausti Þórisson                     36        “

Aðrir fengu færri atkvæði

 

Þórir Jónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar um eftirtalda í varastjórn LK.

Fram fór skrifleg atkvæðagreiðsla og kosningu hlutu:

Jóhanna Hreinsdóttir             36 atkvæði

Guðrún Lárusdóttir                26        “         

Aðrir fengu færri atkvæði

 

Þórir Jónsson kynnti tillögu  um skoðunarmenn:

Aðalmenn:

Katrín Birna Viðarsdóttir

Pétur Diðriksson

Varamaður:

Elín B. Sveinsdóttir

 

Tillagan samþykkt með lófaklappi.

 

Þórir Jónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar  um kosningu fimm fulltrúa LK til setu á Búnaðarþingi til næstu þriggja ára. Kjörnefnd leggur til 7 nöfn en kjósa skal fimm fulltrúa.

Þá lagði kjörnefnd til, að loknu kjöri aðalfulltrúa inn á Búnaðarþing, yrðu varamenn kosnir sérstaklega. Ekki komu aðrar tillögur fram.

 

Arnheiður Dögg Einarsdóttir

Guðný Helga Björnsdóttir

Guðrún Sigurjónsdóttir

Jóhann Gísli Jóhannsson

Jóhannes Jónsson

Jóhann Nikulásson

Sigurður Loftsson

 

Í skriflegri kosningu hlutu eftirtalin kosningu til Búnaðarþings sem aðalmenn til næstu þriggja ára:

Sigurður Loftsson                   33 atkvæði

Guðný H. Björnsdóttir            32        “

Guðrún Sigurjónsdóttir          29        “

Jóhannes Jónsson                   26        “

Jóhann Nikulásson                  25        “

 

Þórir Jónsson kynnti tillögu  um varamenn til setu á Búnaðarþingi til næstu þriggja ára. Kosningu hlutu eftirtalin.

 

Laufey Bjarnadóttir                36 atkvæði     

Jóhanna Hreinsdóttir             35        “

Anna Jónsdóttir                      33        “

Arnheiður D. Einarsdóttir      28        “

Björn Harðarson                    26        “

 

11. Önnur mál

Sveinbjörn Sigurðsson þakkaði fyrir samveruna í stjórn LK undanfarin ár og óskaði samtökunum allra heilla í framtíðinni.

Trausti Þórisson nýr stjórnarmaður LK kynnti sig og  þakkaði fyrir auðsýnt traust með kjöri í aðalstjórn LK.

Sigmundur H. Sigmundsson óskaði nýkjörinni stjórn til hamningju með kjörið og hvatti stjórn til kröftugra starfa. Hins vegar kvartaði Sigmundur undan því hve fundargögn aðalfundar komi seint til fundarmanna.

Sigurður Loftssonsagði að ávallt væri reynt að koma fundargögn sem fyrst til aðalfundarfulltrúa. Þetta væri þörf ábending um að gera enn betur fyrir næsta aðalfund.

Sigurður þakkaði Sveinbirni fyrir gott samstarf í stjórn á liðnum árum og jafnframt bauð nýjan stjórnarmann velkominn til starfa.

 

Þakkaði að lokum öllum starfsmönnum fundarins og fundarmönnum og sleit síðan fundi kl. 17.35

 

Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð