Beint í efni

9. heimsráðstefnan um búfjárkynbætur í Leipzig

03.08.2010

Dagana 1. til 6. ágúst 2010 er 9. heimsráðstefnan um búfjárkynbætur haldin í Leipzig í Þýskalandi. Ráðstefna þessi er haldin á fjögurra ára fresti og að þessu sinni sækja hana tæplega 1.400 einstaklingar frá öllum heimshornum; vísindamenn, kennarar, ráðunautar og áhugamenn um búfjárrækt. Framsetning efnis er ýmist á formi fyrirlestra og veggspjalda og er framboðið gríðarlegt, nokkuð á níunda hundrað greina verða lagðar fram á ráðstefnunni. Líkt og jafnan áður er umfjöllun um nautgriparæktina umfangsmest en einnig er mikill fjöldi fyrirlestra um sauðfjár-, hrossa-, svína- og alifuglarækt. Þá er fjallað um ræktun á fiski, hundum, kanínum og fleiri búfjártegundum. Ráðstefna af þessu tagi gefur einstakt tækifæri til að fylgjast með því sem er efst á baugi innan búfjárkynbóta á heimsvísu.

Ráðstefna af þessu tagi var fyrst haldin í Madrid árið 1974 og síðast í Belo Horizonte í Brasilíu árið 2006. Að þessu sinni sækja fimm Íslendingar ráðstefnuna, Jón Viðar Jónmundsson, búfjárræktarráðunautur BÍ, Emma Eyþórsdóttir, dósent og brautarstjóri við Lbhí, Þorvaldur Árnason, Lbhí og sjálfstætt starfandi kynbótafræðingur í Svíþjóð, Theodór Kristjánsson, starfsmaður Stofnfisks og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK.