1,9 milljónir mjólkurkúa í Stóra-Bretlandi
30.05.2011
Á undanförnum áratugum hefur hagræðing í mjólkurframleiðslu leitt af sér fækkun kúa vegna aukinna afurða þeirra en vegna smæðar íslenska stofnsins er hraði þessarar þróunar ekki mikill. Í flestum ef ekki öllum löndum heims hefur sama þróun átt sér stað, þ.e. það þarf einfaldlega færri kýr til þess að framleiða sama magn mjólkur í dag en fyrir 25 árum.
Víða í norðurhluta Evrópu hefur öflugt kynbótastarf með stóra stofna skilað miklum árangri og er þróun á fjölda mjólkurkúa í Stóra-Bretlandi til merkis um það. Þannig hefur, á síðustu fjórum árum, mjólkurkúnum þar fækkað um 114 þúsund kýr en framleiðsla mjólkur hinsvegar aukist! Auðvitað er ekki eingöngu um það að ræða að kynbætur hafi skilað þessum árangri og ekki útilokað að einhver bú hafi hætt starfsemi þar sem afurðastig hefur verið mjög lágt.
Á síðustu 10 árum hefur mjólkurkúm í Stóra-Bretlandi fækkað um nærri 15 faldan fjölda íslenskra mjólkurkúa eða um 382 þúsund mjólkurkýr. Kýrnar í dag ná þó ekki að bæta að fullu þá framleiðslu sem þessar kýr áður stóðu fyrir, en talið er að afurðagetan sé þó til staðar í þeim kúm sem nú standa í fjósunum ytra en sé bara ekki nýtt. Skýringin á því felst einfaldlega í breytilegum búskaparháttum innan Stóra-Bretlands þar sem t.a.m. mjólkurframleiðsla í Norður-Írlandi er öðruvísi háttað en í Englandi svo dæmi sé tekið/SS.