
Hver er pælingin?
Flest höfum við einhverja mynd sem bregður upp í kollinum þegar íslenskan landbúnað ber á góma, en hversu falleg og rómantísk sem sú mynd kann að vera þá er hún sjaldan í takt við raunveruleikann. Beinir snertifletir almennings við bændur og matvælaframleiðslu eru færri en áður og óhjákvæmilega bitnar það á tengslum og skilningi.
Við viljum minnka bilið milli bænda og þjóðar með því að sýna raunsanna mynd af landbúnaði og minna á að við höfum hagsmuna að gæta hvert hjá öðru. Landbúnaðurinn er fjölbreyttur, lifandi, tæknilegur, krefjandi, blómlegur og hluti af samfélagi okkar allra. Fólkið sem starfar við landbúnað, hvort sem um ræðir bændur eða starfsfólk matvælafyrirtækja, er alls konar og samanstendur af fjölbreyttum hópi sem fellur ekki að úreldum staðalímyndum – ekki frekar en aðrir þjóðfélagshópar. Margbreytileiki fólksins í sveitum landsins er mikill, hvort sem litið er til uppruna, aldurs, kyns eða stjórnmálaskoðana.
„Við erum öll úr sömu sveit“ vísar til þess að það er miklu meira sem sameinar okkur en skilur okkur að. Slíkt er líka áminning þess að Ísland er lítið samfélag og í stóra samhenginu tilheyrum við í raun bara einni sveit - sveitinni okkar.
Hvort sem fólk er úr Vesturbænum eða vestan af fjörðum, úthverfum eða milli heiða, þá liggja hagsmunir okkar saman í því að rækta og verja þann grunn sem íslenskur landbúnaður er. Með vaxandi titringi á alþjóðavettvangi skiptir það eyju í Atlantshafi miklu máli að hér á landi verði áfram traustur grunnur fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu og að hann eflist enn frekar. Við verðum að minna okkur á að í óstöðugum heimi er sjálfbær innlend matvælaframleiðsla ekki eingöngu munaður heldur nauðsyn.
Með þessari herferð viljum við opna samtal við þjóðina alla um hvernig við getum staðið saman að þessum málum, hvaða gildi og verðmæti skipta okkur mestu máli og hvernig við erum öll hluti af samfélaginu – úr sömu sveitinni.