
Viðbrögð vegna draga að breyttum búvörulögum
06.10.2025
Stjórn Bændasamtakanna lýsir yfir verulegum vonbrigðum með drög að breyttum búvörulögum
Stjórn Bændasamtaka Íslands lýsir yfir verulegum vonbrigðum með drög atvinnuvegaráðuneytisins að frumvarpi um breytingar á búvörulögum. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar og loforð um samráð og samvinnu við hagaðila lásu bændur fyrst um fyrirætlanir stjórnvalda í fjölmiðlum síðastliðinn föstudag. Þá ítrekaði atvinnuvegaráðherra það á bændafundum í vor að ekki yrði farið í kollsteypur á landbúnaðarkerfinu en vinnubrögð sem þessi grafa undan slíku, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Á engan hátt er ljóst hver hinn raunverulegi ávinningur með frumvarpsdrögunum á að vera fyrir bændur og neytendur. Í raun er ekki að finna neina útfærslu á því hvernig hagræðing í landbúnaði á að fara fram á grundvelli þessara breytinga. Til fjölda ára hefur legið fyrir að ná þurfi fram hagræðingu í kjötafurðargreinum rétt eins og bændur sáu fyrir sér að næðist með þeim lagabreytingum sem nú á að fella úr gildi. Frumvarpsdrögin skapa því meiri óvissu í starfsumhverfi í landbúnaðarins.
Efnislega er því miður margt athugavert við frumvarpsdrögin, en það sem kemur stjórn Bændasamtakanna mest á óvart er sú atlaga að íslenskum mjólkuriðnaði sem þar birtist. Með drögunum á að kollvarpa ríflega tuttugu ára gömlu fyrirkomulagi sem skilað hefur hagræðingu í greininni upp á 2-3 milljarða króna á ári, bændum og neytendum til hagsbóta. Með boðuðum breytingum á að afnema heimild afurðastöðva til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.
Þessi verkaskipting milli mjólkursamlaga og annað samstarf um framleiðslu, geymslu og dreifingu er grunnurinn að umræddri hagræðingu. Verði drögin að lögum mun það hafa bein áhrif á alla kúabændur og neytendur enda myndi framleiðslukostnaður aukast. Einna helst myndi það bitna á þeim kúabúum sem eru langt frá mjólkursamlögum og hættan er sú að mjólkurframleiðsla verði sjálfhætt á þeim svæðum, með augljósum samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum fyrir viðkomandi svæði. Þetta vinnur þvert gegn markmiðum Landbúnaðarstefnu fyrir Ísland og öðrum þeim fjölmörgu stefnum stjórnvalda sem settar hafa verið undanfarin ár.
Þá má nefna að í drögunum er hvergi skýrt eða skilgreint hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að félag geti talist vera „undir stjórn“ bænda, heldur á það að vera verkefni Samkeppniseftirlitsins í hverju máli fyrir sig að meta. Það er óábyrg lagasetning sem ekki aðeins setur mikilvæg grundvallar útfærsluatriði í hendur ráðherra til að skýra betur í reglugerð, heldur beinlínis gerir ráð fyrir að eftirlitsstofnun setji sjálf þær reglur sem henni er svo ætlað að framfylgja. Í drögunum segir að eftirlitið geti sjálft ákveðið hvaða gögn skuli leggja fram við þetta mat og að það geti kallað eftir frekari gögnum að því loknu. Kostnaður við þessa vinnu getur undið hratt upp á sig og fyrir minni fyrirtæki geta milljónir skilið á milli taps og hagnaðar. Heggur nú þar sem hlífa skyldi.
Frumvarpsdrögin eru í heild sinni óútfærð, þau skapa aukna óvissu hjá bændum, eru órökstudd og sett fram án þess að metin væru hvaða áhrif hvað boðaðar breytingar hefðu í för með sér. Nauðsynlegt er að greina og meta áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til með mun ítarlegri hætti.
Stjórn Bændasamtaka Íslands telur ótækt að leggja fram frumvarpsdrögin í óbreyttri mynd.