Beint í efni

Til félagsmanna Bændasamtaka Íslands

05.12.2023

Frá stjórn Bændasamtaka Íslands:

Merkum áfanga náð í kjarabaráttu bænda

Merkur áfangi náðist í dag í kjarabaráttu bænda þegar ríkisstjórn Íslands viðurkenndi þann vanda sem landbúnaður stendur frammi fyrir vegna gríðarlegra aðfanga- og vaxtahækkana síðustu ára.

Bændasamtökin sýndu fram á alvarleika stöðunnar á vordögum. Frá þeim tíma hafa greiningar samtakanna leitt af sér vitundarvakningu í samfélaginu um að bændur geti ekki unnið nær launalaust. Ákall bænda um kjaraleiðréttingu hefur þannig aðeins byggt á þeim skyldum sem stjórnvöld hafa sjálf sett með lögum.

Samtökin fagna eindregið þeirri greiningu sem ráðuneytin þrjú hafa núna gert á stöðunni, en niðurstaða ráðuneytisstjórahópsins er í öllum meginatriðum sú sama og Bændasamtökin hafa haldið fram um langt skeið. Sameiginlegur skilningur mun án vafa hjálpa til við næstu skref í samtalinu.

Þó þær aðgerðir sem ríkisstjórn boðaði í morgun muni hafa jákvæð áhrif fyrir þá hópa sem þær ná til, hafa samtökin áhyggjur af því að þær dugi skammt. Þá eru stórir hópar bænda sem ekki njóta þessara aðgerða og eru það bæði vonbrigði og mikið áhyggjuefni. Verður að velta því upp hvort skynsamlegt hefði verið fyrir stjórnvöld að eiga þetta samtal við Bændasamtökin, sem fara með fyrirsvar fyrir bændur lögum samkvæmt. Margir bændur eru til að mynda skuldsettir vegna fjárfestinga sem tengjast hagræðingu sem stjórnvöld hafa krafist, bæði á grundvelli lægri framlaga til búvörusamninga og á grundvelli lögbundinna kvaða.

Rétt er að líta fram á veginn. Niðurstöður ráðuneytisstjórahópsins ríma við greiningar Bændasamtakanna og er því kominn góður grunnur að samtali við stjórnvöld um endurskoðun búvörusamninga. Bændur treysta því að þeirri vinnu verði fram haldið strax í næstu viku enda ljóst að bændur eru með miklar væntingar til viðbótaraðgerða á stærri skala með endurskoðun samninganna. Á þeim vettvangi verða stjórnvöld meðal annars að leiðrétta tollvernd landbúnaðarafurða og uppfylla lögbundnar skyldur sínar um kjör bænda en þau eru óásættanleg eins og fram kemur í vinnu ráðuneytisstjórahópsins.

Kjarabaráttan heldur áfram af fullum krafti. Skýrslan ber með sér að stuðningskerfi landbúnaðarins er brostið og verða bændur að treysta því að bæði kjör og önnur starfsskilyrði verði leiðrétt og treyst með endurskoðun búvörusamninga. Þeirri vinnu verður að ljúka í síðasta lagi á vordögum, við megum einfaldlega ekki við því að meiri brestir komi í framleiðslu íslenskra landbúnaðarfurða.

Landbúnaðurinn og framtíð hans er líftaug í tilveru íslensku þjóðarinnar.

Gögn til glöggvunar: